Fara í efni

Hver er staðan í Laugaskarði?

Sundlaugin Laugaskarði þykir einstaklega falleg og staðsetning laugarinnar í kvos í átt til suðurs t…
Sundlaugin Laugaskarði þykir einstaklega falleg og staðsetning laugarinnar í kvos í átt til suðurs tryggir að á svæðinu er suðræn stemning þegar vel viðrar.

Ítarleg umræða fór fram á fundi bæjarráðs í síðustu viku vegna Sundlaugarinnar í Laugaskarði og þeirrar staðreyndar að illa hefur tekist að hald hita á sundlaugarhúsinu, pottum og öðru hvoru sundlauginni það sem af er vetri. Menningar- og frístundafulltrúi kom á fund bæjarráðs og gerði góða grein fyrir þeirri stöðu sem uppi hefur verið og þeirra aðgerða sem þegar hefur verið gripið til auk þess að fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni varðandi úrbætur.

Sundlaugin sjálf oftast í góðu lagi
Umræðan spannst vegna fyrirspurna frá bæjarfulltrúum Okkar Hveragerðis í bæjarstjórn. Í máli menningar- og frístundafulltrúa kom fram að starfsmenn skrá ekki sérstaklega hvort að skólasund og sundæfingar falli niður en slíkar upplýsingar ættu íþróttakennarar grunnskólans og þjálfarar sem bera ábyrgð á sinni kennslu að hafa. Starfsmönnum er skylt að viðhafa mælingar yfir daginn má þar nefna hitastig lauga, klórmagn (heildar-, frír og bundinn klór), sýrustig og fleira og má út frá þeim tölum sjá hvenær mögulegt hefur verið að vera með skólasund. Kjörhitastig fyrir sundkennslu er á bilinu 28°- 30°C en fer þó eftir aldri nemenda og mati íþróttakennara/þjálfara. Á fundinum var lagt fram yfirlit yfir hitastig laugarinnar haust og þar kom fram að á miklum meirihluta daga haustsins hefur hitastig sundlaugar verið í lagi.

Vandinn tengist sturtum og heitum pottum. 
Frá opnun laugarinnar 17. júlí síðastliðinn hefur hitavandamál í Sundlauginni Laugaskarði aðallega verið tengt sturtum og heitum pottum en ekki sundlaugarkerinu sem er hituð með beinni gufuinnspýtingu. Fjölmargar aðgerðir til úrbóta hafa verið prófaðar og hafa samskipti við sérfræðinga verið mikil og góð varðandi hitavandamál sundlaugarinnar.  Helsti vandinn á svæðinu er fallandi þrýstingur og hitastig á gufinni upp í sundlaug. Sem dæmi má nefna að vinnsluþrýstingur hefur fallið frá því að vera 1,5 bör niður í 0,5 bör og til viðbótar hefur hitastig gufunnar fallið um ca. 20°C á síðastliðnum 10 árum.

Aukin orkunotkun fylgir snjóbræðslu og loftræstingu
Við nýjustu endurbætur á sundlauginni var sturtum fjölgað í búningsklefum og settir öflugri sturtuhausar, bætt var við viðamikilli snjóbræðslu og loftræstingu í búningsklefum. Þetta allt hefur kallað á aukna orkunotkun og hefur sú orka sem þar er þörf á greinilega ekki verið til staðar.

Í samráði við sérfræðinga hefur verið gripið til þess ráðs að setja minni sturtuhausa eða úr 20l í 8l., settur var upp nýr og afkastameiri varmaskiptir, blandarar fyrir sturtur og heitu pottana endurnýjaðir og skipt um kúluloka á retúr á gufuveitu. Þrýst var á Veitur að yfirfara gufulögnina uppí sundlaug, var lögnin að hluta til grafin upp til að sannreyna sverleika og ástand og bætt var við tæmingu við Fagrahvamm. Engar stíflur eða aðrir annmarkar fundust á lögninni. Samhliða þessum aðgerðum hefur búnaður verið lagfærður til að auðvelda gufulögn í tæknirými sundlaugarhúss að blása.

Unnið er að úrbótum til framtíðar
Haldinn var mjög góður fundur fyrir jól með fulltrúum Veitna, starfsmönnum Hveragerðisbæjar og bæjarstjóra þar sem farið var yfir aðgerðir og leiðir til úrbóta.
Til framtíðar virðist sem mögulegar lausnir gætu falist í eftirfarandi:

  • að þrýsta á Veitur að tryggja að lágmarki 1,5 bör í vinnsluþrýsing uppí sundlaug. (möguleg skýring á lágum þrýstingi uppí Laugarskarði er annaðhvort þrengingar í lögnum eða verulegur leki)
  • að setja húsið (ekki sundlaug, og pottasvæði) á hefðbundna hitaveitu eins og sérfræðingar hafa lagt til og er áætlaður verktakakostnaður við það að lágmarki 10 milljónir og aukinn rekstrarkostnaður um 1,5 milljón á ári.

Það er ljóst að margir sérfræðingar og starfsmenn Hveragerðisbæjar hafa á undanförnum mánuðum lagt mikið á sig við að reyna að finna lausnir sem komið geta hitamálum sundlaugar í betra horf.  Að því verður áfram unnið með það að markmiði að Sundlaugin Laugaskarði verði áfram sú perla í Hveragerði sem hún er, hvort sem horft er til kennslu barna og ungmenna, lýðheilsu eða út frá hagsmunum ferðaþjónustunnar.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri


Síðast breytt: 24. janúar 2022
Getum við bætt efni síðunnar?