Fara í efni

Hraðakstur og umferðaröryggi verði skoðað

Snjallgangbrautin yfir Breiðumörk hefur reynst vel.
Snjallgangbrautin yfir Breiðumörk hefur reynst vel.
Hraðakstur innan bæjar í Hveragerði hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu í bæjarfélaginu.  Er það ekki í fyrsta sinn sem umræða um of mikinn umferðarhraða skapast á meðal íbúa.
 
Á fundi bæjarráðs þann 6. maí s.l. var lagt fram bréf frá íbúum við efri hluta Heiðmerkur þar sem þeir koma á framfæri óánægju sinni vegna umferðarhraða við götuna.
 
Afgreiðsla bæjarráðs var svohljóðandi: 
"Bæjarráð tekur undir áhyggjur íbúa af hraðaakstri í bæjarfélaginu og hvetur íbúa sem og gesti bæjarins til að aka í samræmi við löglegan hámarkshraða.
Samkvæmt umferðaröryggisáætlun Hveragerðisbæjar er Heiðmörkin safngata með 30 km hámarkshraða. Á Heiðmörk ofan Breiðumerkur eiga að vera tvær gönguþveranir (upphækkuð 30 km hlið) önnur rétt ofan við Breiðumörk og hin rétt ofan við Laufskóga. Nú hefur þverunin við Breiðumörk verið boðin út og mun framkvæmdum við hana ljúka í júní.
 
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þverunin ofan við Laufskóga verði einnig framkvæmd í sumar enda eru þau gatnamót með þeim hættulegustu í bæjarfélaginu og brýnt að þar geri vegfarendur sér grein fyrir því að Laufskógar eiga þar umferðarréttinn. Bæjarráð vill jafnframt fela skipulags- og mannvirkjanefnd að fara yfir umferðaröryggiáætlun bæjarins með það fyrir augum að meta hvort nóg sé að gert í umferðaröryggismálum í bæjarfélaginu og meðal annars hvort hægt sé að fjölga gönguþverunum."
 
Íbúar mega því búast við að á næstunni verði ráðist í þær úrbætur sem þarna voru samþykktar .  En ekkert kemur samt í staðinn fyrir það að íbúar og gestir bæjarins fari að lögum og virði þann hámarkshraða sem í gildi er á götum bæjarins.  Það er auðvitað harla sérkennilegt að í sífellu berast kvartanir undan of miklum hraðaakstri og það jafnvel í íbúðabotnlöngum.  Það er ekki hægt annað en að hugsa til þess að ef við öll, íbúarnir í Hveragerði, færum eftir þeim reglum sem um hraða bifreiða gilda þá væri vandinn miklu minni en hann er í dag.  Við getum öll reynt að gera betur hvað það varðar og þar með bætt umferðarmenningu í bænum til mikilla muna.   Vil svo reyndar minna á að vegalengdir hér í Hveragerði eru ansi stuttar og því væri líka ánægjulegt að sjá enn fleiri einstaklinga ganga eða hjóla í vinnu eða skóla og að við þannig myndum hvíla bílinn oftar en við gerum í dag !  
 
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

 


Síðast breytt: 18. maí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?