Fara í efni

Heimild til útboðs hjúkrunarheimils samþykkt

Samstarfsnefnd um opinber fjármál, SOF, hefur samþykkt beiðni frá heilbrigðisráðuneytinu, dags. 25. ágúst 2020, þar sem óskað er eftir heimild til áætlunargerðar og fullnaðarhönnunar vegna byggingar 22. rýma nýbyggingar andspænis núverandi hjúkrunarheimili í Hveragerði á grundvelli frumathugunar sem lá fyrir í ágúst 2020.

Með byggingunni verða einungis einstaklingsíbúðir á hjúkrunarheimilinu en í dag er þar umtalsverður fjöldi íbúa sem deilir herbergi með öðrum.  Einnig munu bætast við 4 ný hjúkrunarrými sem eykur enn gæði þeirrar þjónustu sem veitt er á svæðinu í dag. 

Miðað er við að Framkvæmdasýsla ríkisins, FSR, fari með umsjón verklegra framkvæmda. Kostnaður við bygginguna mun skiptast þannig að 85% greiðast úr ríkissjóði en Hveragerðisbær greiðir 15%.  Áætlaður stofnkostnaðar fyrir 1.430 fermetra hjúkrunarheimili með 22 rýmum er alls 1.001 m.kr. án búnaðar og verðlagsbreytinga m.v. alútboðsframkvæmd.

Eftir mat á valkostum, gæðum, áhættu, stofn- og rekstrarkostnaði er lagt til að verkefnið verði boðið út sem alútboð á föstu verðlagi. Að mati FSR er talið að sú leið geti leitt til um 10% lækkunar á stofnkostnaði miðað við hefðbundna opinbera framkvæmd, sem er um 100 m.kr. í þessu verkefni.

Gert er ráð fyrir að kostnaður falli til á árunum 2020-2023. Staðfest er að fjárveitingar séu til staðar m.v. þau framlög sem koma í fjárlögum og áætluð eru í fjármálaáætlun. Er þessi áfangi afar ánægjulegur og fyrir það ber að þakka.  Næsta skref er að vinna útboðsgögn í samvinnu við framkvæmdasvið FSR.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri. 


Síðast breytt: 15. október 2020
Getum við bætt efni síðunnar?