Fara í efni

Hættum að urða peninga og hugsum í lausnum!

Hringrásarhagkerfið Hveragerði

Hvort sem við notum orðið rusl, sorp, úrgang eða annað er ljóst við mannfólkið hendum óheyrilega miklu magni, oft án þess að hugsa út í hvað gerist eftir það.

Sem betur fer er vitundarvakning í gangi enda útséð að með þessu áframhaldi verður ekki boðlegt að búa á þessari plánetu. En betur má ef duga skal og staðreyndin er sú að um leið og farið er að ræða kostnaðinn við þá hegðun „að henda“ leggja flestir við hlustir. Það „að henda“ kostar nefnilega óheyrilega peninga, peninga okkar allra, peninga sem hægt væri að nota í svo margt annað.

 

14 miljónir fyrir óflokkaðan heimilisúrgang

Samkvæmt tölum frá þjónustuaðila kostaði óflokkaður heimilisúrgangur (gráa tunnan) frá Hveragerði rúmlega 14 miljónir króna samtals fyrir árin 2019 og 2020, þ.e. kostnaðurinn við það eitt að moka honum ofan í holu. Inni í þessari tölu er ekki kostnaður við gámasvæðið, flutningur á úrganginum, losun á honum, grænu eða brúnu tunnurnar heldur einungis urðun á óflokkuðum heimilisúrgangi.

  • Samtals voru þetta um 730 tonn af óflokkuðum heimilisúrgangi
  • Það er um 1 tonn á dag
  • Það gerir u.þ.b. 130 kg óflokkuðum úrgangi á hvern íbúa á ári í Hveragerði

 

Við erum að gera betur

Á árinu 2020 dróst urðun á heimilisúrgangi saman um 109 tonn ef miðað er við árið 2019. Það þýðir að Hveragerði sem samfélag greiddi rúmlega miljón krónum minna í kostnað við að moka yfir úrganginn (þ.e. urða hann). Þetta er frábær árangur sem ber að fagna. Ekki er þó ljóst hvers vegna þessi sparnaður varð, hvort ástæðan sé vegna COVID, færri ferðamanna eða meiri neyslumeðvitund íbúa en að sama skapi er mikilvægt að skoða það betur svo hægt sé að halda áfram á réttri braut.

 

Við getum gert enn betur!

Urðun er kostnaðarsöm og slæm lausn, ef lausn skildi kalla, enda svo komið að erfitt er að fá land undir slíkt. En hvað er til ráða? Ein leið er að reyna að skapa einhverskonar hringrásarhagkerfi / „zero waste“ þar sem litlu, og helst engu er hent og þeim hlutum sem við höfum ekki not fyrir lengur er komið þangað sem þeir nýtast. Með þetta að markmiði mætti sjá fyrir sér að við sem samfélag gætum:

  • Staðið fyrir nytjamarkaði og/eða sölu/gefins síðum með notuðum hlutum í stað þess að henda.
  • Staðið fyrir viðgerðarhittingum þar sem hægt er að koma saman og fá leiðbeiningar um viðhald og/eða viðgerðir á t.d. húsgögnum, föt, raftækjum, hjólum, bílum eða hverju sem fólki dettur í hug.
  • Staðið fyrir herferð um ábyrg innkaup þar sem íbúar eru fengnir til þess að stoppa og hugsa áður en þeir kaupa, t.d. „þarf ég þessa hluti og/eða get ég fundið þá notaða“.
  • Hvetja íbúa til betri FLOKKUNAR og minnka þannig það sem fer í urðun úr gráu tunnunni.
  • Fá hugmyndir úr samfélaginu, hvaða fleiri möguleika sjá íbúar Hveragerðis?

Til þess að eiga þetta samtal við ykkur íbúa höfum við sett í loftið Facebook síðuna https://www.facebook.com/zerowastehvero þar sem við viljum heyra ykkar hugmyndir að lausnum á þessu sameinginlega verkefni okkar.

Hættum að urða peninga og hugsum í lausnum!


Síðast breytt: 12. mars 2021
Getum við bætt efni síðunnar?