Fara í efni

Greining á stöðu húsnæðismála sett fram í Húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar

Kambaland byggist hratt upp en þar eru nú í byggingu um 140 íbúðir.
Kambaland byggist hratt upp en þar eru nú í byggingu um 140 íbúðir.

Endurskoðuð húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar fyrir tímabilið 2021-2029 hefur verið samþykkt af bæjarstjórn.   Húsnæðisáætlunin veitir mikilvægar upplýsingar þegar kemur að markvissri uppbyggingu bæjarfélagsins og nauðsynlegra innviða og mun nýtast vel sem slík á næstu misserum.  Með húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er sett fram á einum stað greining á stöðu húsnæðismála,  hver er staðan, hvernig er húsnæðismarkaðurinn samansettur og hver er þörfin á uppbyggingu húsnæðis miðað við gefnar forsendur. 

Í húsnæðisáætluninni kemur fram með skýrum hætti hversu mikil uppbygging er í Hveragerði og ekki síður hversu mikil uppbygging er framundan. Með húsnæðisáætluninni fá bæjaryfirvöld enn betri yfirsýn yfir húsnæðismál bæjarfélagsins og geta þar með betur stýrt lóðaframboði og uppbyggingu að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir. Það er áhugavert að sjá að byggingarleyfi voru gefin út fyrir 50 íbúðum á árinu 2020 en framundan er frekari úthlutun í Kambalandi,  væntanlega á Friðarstöðum og uppbygging er framundan í Hlíðarhaga svo fátt eitt sé nefnt. 

Í húsnæðisáætlun er gert ráð fyrir nokkrum sviðsmyndum um fjölgun íbúa til ársins 2029 og þar gerir miðspá ráð fyrir að fjölgun geti orðið 2,5% á ári. Það myndi þýða að íbúar væru orðnir um 3.700 í lok þessa áratugar. Er hér um frekar varfærna spá að ræða sem gerir að verkum að byggja þarf um 33 íbúðir á ári á tímabilinu. Á þegar samþykktum deiliskipulögum sem enn hafa ekki verið sett i framkvæmd er gert ráð fyrir að íbúðir geti orðið um 530 þannig að ljóst er að framboð íbúðarhúsnæðis ætti að duga og vel það ef að miðspá um mannfjöldaþróun gengur eftir. Rétt er að geta þess að íbúum hefur fjölgað um 2,3% á ári að meðaltali frá aldamótum þannig að ekki er óvarlegt að áætla að miðspá um íbúafjölgun gæti ræst þrátt fyrir að fjölgun á undanförnum árum hafi verið ívið meiri eða 2,9% á ári. 

Íbúar í Hveragerði eru nú  2.840 og hefur fjölgað um 69 frá 1. desember 2020.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 18. maí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?