Fara í efni

Fyrstu skóflustungurnar að viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði

Fyrstu skóflustungur að nýrri viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði voru teknar í dag, síðasta vetrardag.   Við sama tilefni var undirritaður verksamningur við Reirverk ehf sem áttu lægsta tilboð í verkið ríflega 390 mkr.   Bar samkoman merki þeirra sérstöku tíma sem nú ríkja varðandi fjarlægðir og fjölda viðstaddra. 

Arkitekt og aðalhönnuður verksins er dr. Maggi Jónsson.
Verkfræðihönnun var í höndum Eflu verkfræðistofu og Kára Sveinbjörns Gunnarssonar verkfræðings.  Verkið felur einnig í sér umfangsmiklar lóðaframkvæmdir en lóðin liggur að Lystigarðinum Fossflöt.  Um hönnun lóðar sá Landslag ehf,  Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt.  Hönnunarstjóri var Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur.

Byggingarstjóri verður Árni Guðlaugsson, byggingartæknifræðingur en eftirlitsmaður verkkaupa er Guðmundur F Baldursson, skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar

Verkið felst í viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði, sem staðsett verður norðan við núverandi skólabyggingu.  Byggingin er staðsteypt á tveimur hæðum, um 750m2 brúttó stærð gólfflatar. Viðbyggingin er einangruð og klædd að utan með sléttri álklæðningu og er með steypta loftaplötu með viðsnúnu þaki.   

Á fyrstu hæð er anddyri, 3 almennar kennslustofur, 2 millirými, fjölnotarými, stigi á milli hæða, gangur að eldri byggingu og lagnarými.  Á annarri hæð verða 3 almennar kennslustofur, 2 millirými, fjölnotarými, stigi á milli hæða og gangur að eldri byggingu.

Verklok eru áætluð í júlí 2021.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Eyþór H. Ólafsson, forseta bæjarstjórnar, Sævar Þór Helgason, skólastjóra, Öldu Pálsdóttur, formann fræðslunefndar, Rannveigu Eir, Sigurjón Jóhannsson, húsvörð og Helga Húbert Sigurjónsson, fulltrúa nemenda taka fyrstu skóflustungur að nýbyggingunni.  Smellið á myndina til að sjá alla !

 

 

 

 


Síðast breytt: 22. apríl 2020
Getum við bætt efni síðunnar?