Fara í efni

Fegurstu garðarnir 2021

Viðurkenningar fyrir fegurstu garða Hveragerðisbæjar voru veittar nýverið með hófstilltum hætti í ljósi takmarkana vegna heimsfaraldurs.

Umhverfisnefnd hafði þann háttinn á við valið að kallað var eftir tilnefningum frá bæjarbúum auk þess sem nefndarmenn komu með góðar tillögur. Að því loknu var farið í vettvangsferð og tilnefndir garðar skoðaðir.

Það er ljóst að mikill áhugi er á gróðri og görðum í bæjarfélaginu og fjölmargir leggja ríkan metnað í að fegra sitt nánasta umhverfi, því var valið erfitt eins of oft er þegar margir góðir kostir eru í boði.

En eftirtaldir hljóta viðurkenningu Hveragerðisbæjar fyrir fegurstu garðana árið 2021:

Laufskógar 9, eigendur eru Inga Jóna Heimisdóttir og Ársæll B. Ellertsson.
Í garðinum sem er staðsettur í elsta hluta bæjarins má sjá afrakstur mikillar vinnu og endurbóta. Í honum er stór og ræktarlegur grænmetisgarður auk þess sem í garðinum má sjá fjölmargar skemmtilegar tegundir plantna sem dafna vel. Margt í garðinum kemur úr eigin ræktun eigenda.

Hraunbær 53, eigendur eru Sesselja Ólafsdóttir og Gunnar Berg Sigurjónsson.
Garðurinn er nýlegur og ljóst að mikil vinna hefur verið lögð í smæstu smáatriði. Þrátt fyrir að pallar séu stórir þá nýtur gróður sín afar vel og er hann bæði fjölbreyttur og ræktarlegur. Öll umhirða er til einstakrar fyrirmyndar.

Varmahlíð 17, Varmi gistiheimili, eigendur Sigfríður Sigurgeirsdóttir og Torfi Smári Traustason.
Viðurkenning er veitt fyrir einstaklega fallegt og hugmyndaríkt umhverfi fyrirtækis. Í garðinum umhverfis gistiheimilið er hlúð að öllum smáatriðum og gaman að sjá að eigendur hafa sjálfir til dæmis steypt bekk og gróðurker auk þess að hafa komið upp suðrænni paradís á lóðinni. Það er augljóst að þarna er hugsað um að garðurinn sé mikilvægur hluti rekstrarins og ljóst að gestum er þarna búin sérlega góð aðstaða, bæði úti og inni.

f.h. Umhverfisnefndar Hveragerðisbæjar
Bryndis Eir Þorsteinsdóttir

 


Síðast breytt: 14. september 2021
Getum við bætt efni síðunnar?