Fara í efni

Stofnanir loka næstkomandi mánudag vegna Covid

Kæru foreldrar og forráðamenn, kæru Hvergerðingar!

Til þess að reyna að hemja útbreiðslu smita í samfélaginu hefur verið ákveðið að loka grunnskólanum, Leikskólanum Óskalandi og Bungubrekku næsta mánudag, 17. janúar. Vona ég að allir sýni þeirri ákvörðun skilning. Á þriðjudaginn er starfsdagur og á miðvikudag foreldraviðtöl í grunnskólanum. Með þessari ákvörðun búum við vonandi til andrými til að staðan verði metin og einnig vonumst við til að smitum muni fækka í kjölfarið.

Í dag, 14. janúar,  eru 138 Hvergerðingar skráðir í sóttkví og 79 í einangrun. Þessi mikli fjöldi smita hefur áhrif á fjölmargar fjölskyldur og flestar stofnanir og fyrirtæki bæjarins. Forstöðumenn skólastofnana, formaður fræðslunefndar og bæjarstjóri funda reglulega og meta á hverjum degi þá stöðu sem þá er uppi.

Núna eru hátt í 40% starfsmanna grunnskólans fjarverandi og á annað hundrað nemendur. Það er mikið og flókið starf að reyna að halda einhvers konar skólastarfi gangandi við slíkar aðstæður og oft nær ómögulegt.

Frístundaheimilið Bungubrekku er lokað þar sem nær allir starfsmenn þar eru í sóttkví eða einangrun.

Leikskólinn Óskaland er lokaður vegna smita sem þar hafa komið upp og þeim fjölda sem þar er í sóttkví.

Ákveðið hefur verið að biðla til foreldra barna á leikskólum bæjarins sem tök hafa á að þeir hafi börn sín heima næstu daga eða á meðan ástandið varir. Foreldrar munu fá leikskólagjöld sem og gjöld vegna mötuneyta felld niður láti þeir leikskólann vita um fjarveru barna sinna með fyrirvara.
Hægt er að láta vita í tölvupósti:
Leikskólinn Undraland:  annaerla@hveragerdi.is eða undraland@hveragerdi.is
Leikskólinn Óskaland:  gunnvor@hveragerdi.is eða oskaland@hveragerdi.is

Við vitum af fenginni reynslu að staðan í samfélaginu getur verið fljót að breytast og munum við gera okkar besta til að halda ykkur upplýstum ef grípa þarf til frekari ráðstafana.

Hveragerði 14. janúar 2022

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri


Síðast breytt: 14. janúar 2022
Getum við bætt efni síðunnar?