Hveragerði, heimsins besti staður
„Ég legg til, að við höldum enn sem fyrr drengilega á lofti hinni fornu kenningu, að Hveragerði sé heimsins besti staður. Sú kenning getur aldrei gert neitt illt, heldur hlýtur hún miklu fremur að bæta líðan okkar og veraldlega velferð hér á eigninni“
(Helgi Sveinsson, Hveragerði, heimsins besti staður)
Mér fannst þetta góð brýning.
Nýjar og glæsilegar skólabyggingar teknar í gagnið
Árið 2025, sem nú hefur liðið, er sannarlega ár umbóta og uppbyggingar í Hveragerði. Það var góð uppskera að taka í gagnið annan og þriðja áfanga grunnskólans í Hveragerði. Þessi byggingaráfangi markar tímamót í stuðnings- og velferðarþjónustu við skólabörn, sérhæfð rými fyrir sértækan stuðning — nýtt eldhús, mötuneyti og glæsilegur skólasalur er setur skólann í fremstu röð. Svo einfalt er það.
Ný viðbygging og ný leikskólalóð við Óskaland voru tekin í gagnið á sumarmánuðum. Óhætt er að segja að nýju byggingunni hafi verið vel tekið af börnum og foreldrum og svo er nýja lóðin mikið undur. Með þessum áfanga eru komnar fjórar nýjar gæðadeildir, en með því að taka eina deild í eldri byggingunni undir nýja starfsmannaaðstöðu höfum við, aukið við leikskólapláss, eytt biðlistum og tekið gæðaskref fram á við í aðstöðu barna og starfsmanna. Framkvæmdin reyndist okkur krefjandi en með samhentu átaki, seiglu og mikilli vinnu er niðurstaðan framar vonum. Það er ýmislegt sem kemur upp á lífinu sem reynist okkur erfitt og krefjandi og stundum er ómögulegt að sjá fyrir brekkurnar í lífinu — en það eru fyrst og fremst viðbragðið og hvernig við vinnum okkur út úr þeim aðstæðum, reynslunni og þekkingunni ríkari, sem skilgreinir okkur. Hvernig við tökumst á við lífsglímuna er ein mæling farsældar sem manneskju, og ekki síst sem samfélags.
Gatnagerð í Tröllahrauni og Vesturmörk
Gatnaframkvæmdir í Tröllahrauni í Kambalandinu ganga vel, fyrstu lóðunum var úthlutað síðasta sumar og var eftirspurnin mikil. Nú eru fyrstu húsin byrjuð að rísa í nýju hverfi, afar bjart yfir og framundan í því uppbyggingarverkefni.
Samhliða uppbyggingu í Tröllahrauni er mikilvægt að fara að huga að hönnun og í kjölfarið framkvæmdum við Vesturmörk. Stofnveg sem ætlað er að tengja við þjóðveginn, sem þá verður gamli þjóðvegurinn eftir tilfærslu til suðurs sem áætluð er 2029 í samgönguáætlun. Þeirri framkvæmd er nauðsynlegt að flýta. Með Vesturmörk verður komin framtíðarlausn á umferðarflæði byggðar ofan Breiðumarkar, en umferð um Breiðumörk er orðin afar þung og mun þyngjast jafnt og þétt með vexti bæjarins. Þetta er eitt brýnasta umbótamál bæjarstjórnar.
Bylting í íþróttaaðstöðu Hveragerðisbæjar
Stefnt er að því að síðasti áfangi gervigrasframkvæmdarinnar, niðurlagning sjálfs grassins, klárist við fyrsta tækifæri, þegar veðurgluggi gefst. Ég viðurkenni að það voru mikil vonbrigði að ná ekki að klára þann áfanga fyrir veturinn. En tíðin er mild og vonir standa til um að gervigrasið verði tekið í gagnið sem fyrst á næsta ári.
Nú þegar þetta er skrifað stendur yfir útboð fyrir næsta áfanga í byggingu nýs íþróttahúss í Skólamörkinni — sá áfangi á að skila okkur fokheldu húsi á árinu 2026. Nýtt keppnis- og æfingahús við hlið þess gamla, með sérstöku fimleikarými, verður bylting fyrir íþróttalíf bæjarins.
Ný skolphreinsistöð skrefar sig áfram
Forhönnun nýrrar skolphreinsistöðvar var kynnt í bæjarráði fyrir hátíðir og það merkilega verkefni heldur áfram að skrefa sig markvisst á nýju ári. Þar eru Hvergerðingar fremstir í flokki, eru og verða áfram fyrirmynd sveitarstjórnarstigsins þegar kemur að hreinsun fráveitu.
Rekstur Hveragerðisbæjar eflist og styrkist
Niðurstaða ársreiknings Hveragerðisbæjar fyrir árið 2024 var sögulega góð, sem er mikið ánægjuefni og mikilvægur áfangi á sögulegri vegferð innviðauppbyggingar.
Rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 225 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 175 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 1.402 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 1.302 millj.
Þá var fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2026 samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í desember. Reiknað er með að rekstrarniðurstaða samstæðu verði 500 m.kr. og að handbært fé frá rekstri verði í árslok 262 m.kr. Þetta er öflug útgönguspá sem byggir m.a. á mikilli undirbúningsvinnu sem undanfarið ár hefur farið fram og varðar uppbyggingu á þróunarreitum í bænum.
Spennandi framtíðarsýn um lífsgæði og metnað í nýju aðalskipulagi
Nýtt aðalskipulag, verður tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi í janúar og sent í kjölfarið til auglýsingar og umsagnar samkvæmt lögboðnu ferli. Í skipulaginu eru heilmiklar spennandi vendingar sem snúa að framtíð bæjarins, í nýju aðalskipulagi má finna vísi að bjartri framtíð bæjarins, þar sem gæði, metnaður og blómlegur vöxtur eru í forgrunni.
Í nýju aðalskipulagi má finna stefnumörkun um hver við ætlum að vera í þeirri kraftmiklu byggðaþróun sem einkennir líf og byggð austan fjalls. Í Hveragerði ætlum við að standa fyrir gæðavöxt — meiri lífsgæði, hvort sem það er uppbygging hverfa, skóla, atvinnulífs og velferðar svo fátt eitt sé nefnt, í stað þess að einblýna einungis á magn og stærðir. Það eru aðrir betri í því. Hveragerði er nefnilega heimsins besti staður.
80 ára afmæli Hveragerðisbæjar og kosningar
Árið sem leið var ár framkvæmda og uppbyggingar, við lifum tíma umbóta og breytinga í Hveragerði og nýtt ár boðar áframhald á þeirri vegferð. Kosið verður til sveitarstjórnar þann 16. maí. Það eru forréttindi að búa við sterkt og öflugt lýðræði, það er engin ástæða til annars en að vænta mikils af vorinu. Samstarf stjórnmála gengur vel í Hveragerði, mikil gæði í allri bæjarstjórninni og einhugur um öll stærri mál — það er grundvallandi þáttur í velgengni bæjarins, gleymum því ekki.
Nýtt ár geymir líka stóráfanga í sögu bæjarins, 80 ára afmæli Hveragerðisbæjar verður 29. apríl. Það er stórmerkileg saga að segja af tilurð bæjarins, af fólkinu sem settist að í þessu lífgæðahreiðri, skóp smátt og smátt byggðakjarna sem varð að bæ. Fólk sem leitaði að lífsgæðum, fann þau, skaut rótum og blómgaði bæ með lífi og list. Það er Hveragerði.
Afmælinu verður fagnað reglulega yfir árið, með margskonar viðburðum og gleðitilefnum. Dagskrá afmælisins verður gefin út í janúar, mikið tilhlökkunarefni.
Til framtíðar!
Pétur G. Markan
bæjarstjóri