Fara í efni

Dreifing fjórða sorpílátsins að hefjast

Á morgun sunnudag, hefst dreifing á fjórða sorpílátinu sem er hluti af nýju sorpflokkunarkerfi í bænum. Nýju sorpílátin eru hluti af sorpflokkunarkerfi sem miðar að því að stuðla að enn frekari nýtingu sorps, auka sjálfbærni og að draga úr umhverfisáhrifum þess.
Frá og með morgundeginum munu meðlimir íþróttafélagsins Hamars heimsækja heimilin í bænum og afhenda nýjar sorptunnur. Sömuleiðis er hafin merking á öllum sorpílátum við hvert heimili samkvæmt samræmdu flokkunarkerfi sem einfaldar fólki mikið við flokkun og munu aðilar á vegum Hamars einnig sjá um þá framkvæmd.
Þátttaka Hamars í þessu verkefni er mjög ánægjuleg og gaman að virkja samfélagið með þessum hætti. Við hvetjum alla til að taka vel á móti þeim.
Allt kapp verður lagt á að tryggja hnökralaus umskipti yfir í nýja sorphirðukerfið og ef einhver vandamál eða fyrirspurnir koma upp þá vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Hveragerðisbæjar. Frekari upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar má finna á heimasíðu Hveragerðis og í þeim bæklingi sem dreift var inn á öll heimili. 

Síðast breytt: 9. október 2023
Getum við bætt efni síðunnar?