Fara í efni

Brúkum bekki í Hveragerði

Fjölskylda Steinunnar á Varmá minnist ættmóður með eftirtektarverðum hætti á fallegum stað í Hverage…
Fjölskylda Steinunnar á Varmá minnist ættmóður með eftirtektarverðum hætti á fallegum stað í Hveragerði.
Bæjarráð Hveragerðisbæjar hefur samþykkt að innleiða verkefnið "Brúkum bekki" í Hveragerði en tillaga að verkefninu var lögð fram og samþykkt af bæjarráði þann 18. nóvember sl..
 
Verkefnið er í upphafi samstarfsverkefni félags sjúkraþjálfara og eldri borgara  en tilgangur þess er  að  kortleggja 1 km gönguleiðir, sem henta eldri borgurum og öðrum sem lakir eru til gangs. Tryggt verði að ekki verði meira en 250 m á milli bekkja við gönguleiðirnar, sem er forsenda þess að fjölmargir treysti sér til að ganga utandyra. 
 
Á fundi sínum lýsti bæjarráð yfir ánægju með þær hugmyndir sem fram koma í minnisblaðinu en þar eru lagðar fram fjórar tillögur að gönguleiðum í Hveragerði og jafnframt settar fram tillögur að staðsetningu bekkja með 250m millibili við gönguleiðirnar. Er verkefnið ekki hvað síst hugsað með eldri kynslóðina í huga en gönguleiðirnar sem nú eru kortlagðar eru allar í kringum helstu kjarna eldri íbúa bæjarins. Samkvæmt tillögunum vantar núna 5 bekki til að markmiðið um fjarlægðir milli bekkja náist.
 
Í bókun hvatti bæjarráð bæði fyrirtæki og einstaklinga sem mögulega myndu vilja minnast vina og ættingja með kaupum á bekk sem gæti verið sérmerktur og leggja þannig lóð sitt á vogarskálar heilsueflandi samfélags.  Er það von bæjarfulltrúa að með samstilltu átaki margra gætum við lyft grettistaki hvað varðar útivistarmöguleika allra þeirra sem erfitt eiga um gang.  Í framhaldinu verði síðan stefnt að því að fjölga leiðum t.d. miðsvæðis í bænum.  Þeir sem eru áhugasamir um að taka þátt í verkefninu eru beðnir um að snúa sér til umhverfisfulltrúa hoskuldur@hveragerdi.is
 
Hér má sjá minnisblaðið og leiðirnar sem verða "bekkjaðar upp" til að byrja með.
 
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 
 

 

 


Síðast breytt: 19. nóvember 2021
Getum við bætt efni síðunnar?