Fara í efni

Bæjarstjórn gagnrýnir hugmyndir um orkunýtingu í Reykjadal

Á fundi bæjarstjórnar þann 10. nóvember var gerð eftirfarandi bókun.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar gagnrýnir harðlega hugmyndir sveitarstjóra Ölfuss sem birtust í Morgunblaðinu um að skoða eigi orkunýtingu í Reykjadal. Allar rannsóknir hafa sýnt fram á það að áhrif vegna hugsanlegra orkunýtingar á svæðinu hefðu veruleg áhrif á Hveragerði sem er næsti þéttbýlisstaður við Reykjadal. Bæjarstjórn telur afar óábyrgt af sveitarstjóra Ölfuss að tala um að skoða eigi orkunýtingu á svæðinu þar sem mikil óvissa ríkir um áhrif á loft, vatnslindir og náttúru og hvetur til að náttúran verði látin njóta vafans.

Reykjadalurinn og svæðið í kring hefur síðustu ár verið í friðlýsingarferli sem því miður var stöðvað af sveitarfélaginu Ölfusi fyrir um ári síðan. Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur ætíð verið á móti orkunýtingu á svæðinu eða allt frá því að hugmyndir um Bitruvirkjun voru uppi á borðinu.

Ljóst er að allar framkvæmdir á svæðinu myndu draga úr gildi þess sem útivistarsvæðis fyrir þá sem vilja njóta óspilltrar náttúru. Svæðið, sem er á náttúruminjaskrá, er einn vinsælasti áfangastaður erlendra sem innlendra ferðamanna og hafa vinsældir þess aukist stöðugt undanfarin ár.


Síðast breytt: 11. nóvember 2022
Getum við bætt efni síðunnar?