Fara í efni

Atvinnumálastefna Hveragerðisbæjar endurskoðuð

Mathöll, nýtt hótel og verslanir munu opna í Gróðurhúsinu í sumar.
Mathöll, nýtt hótel og verslanir munu opna í Gróðurhúsinu í sumar.
Atvinnumálastefna Hveragerðisbæjar verður endurskoðuð eftir að bæjarstjórn samþykkti að ráðist yrði í það verkefni.  Markmiðið er að farið verði yfir framvindu þeirra verkefna sem  tilgreind eru í gildandi atvinnustefnu og nýjar áherslur lagðar í takt við þróun samfélagsins og breytingar á ytra umhverfi bæjarfélagsins. Bæjarstjórn fól bæjarráði endurskoðunina en að jafnframt verði leitað til atvinnuráðgjafa SASS um aðstoð við verkið.

Mikill vöxtur hefur einkennt Hveragerðisbæ að undanförnu. Mikil íbúafjölgun er staðreynd en nú eru íbúar 2.840 en voru 2.384 árið 2015 þegar atvinnumálastefnan var samþykkt.  Nemur fjölgun íbúa á þessu tímabili því 19,12%.

Fyrirtækjum hefur fjölgað og er þar ferðaþjónusta mjög áberandi en bæði veitingahúsum og gistirýmum hefur fjölgað mjög á síðastliðnum árum. Ekkert lát er á og snemmsumars mun opna nýtt hótel með um 50 gistiherbergi, mathöll á fyrstu hæð þar sem verða 6-8 nýir veitingastaðir ásamt verslunum. Nýbygging við hjúkrunarheimilið er að nálgast útboðsstig og Heilsustofnun NLFÍ hyggur á milljarða uppbyggingu svo fátt eitt sé talið. Allt kallar þetta á afleidd störf sem hefur fjölgað í takt við aukin umsvif í bæjarfélaginu.

Með því að endurskoða atvinnumálastefnu bæjarfélagsins og fara yfir það sem vel hefur gengið og einnig hitt hvar hægt er að gera betur telur bæjarstjórn að ná megi enn betri árangri í þessum málum til hagsbóta fyrir íbúa og samfélagið allt.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Síðast breytt: 13. maí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?