Ása Lind Wolfram er íþróttamaður Hveragerðisbæjar árið 2025
Ása Lind er Hvergerðingur og uppalin í Íþróttafélaginu Hamri Hveragerði. Undanfarin ár hefur hún spilað körfubolta með Aþenu, nú síðast í Bónus deildinni sem er efsta deildin á Íslandi.
Síðastliðið sumar var Ása Lind valin í U-20 ára landslið Íslands í körfubolta sem spilaði í A deild Evrópumótsins. Liðið náði frábærum árangri og komst í 8 liða úrslit A deildar, en liðið var í fyrsta sinn að spila í deild hinna bestu. Ása Lind var einn af lykilleikmönnum liðsins sem náði þessum sögulega árangri. Nú í sumar gerði hún samning við Idaho State í Bandaríska háskólaboltanum. Þar stundar hún nám og spilar körfubolta við bestu aðstæður í Big Sky hluta fyrstu deildar bandaríska háskólaboltans.
Eftir frábært sumar með U-20 ára landsliði Íslands sem náði sögulegum árangri í A deild Evrópumótsins og með því að tryggja sér skólavist með fullum skólastyrk í efstu deild Bandaríska háskólaboltans er Ása Lind vel komin að þeirri viðurkenningu að vera íþróttamaður Hveragerðisbæjar fyrir árið 2025.
Hveragerðisbær óskar Ásu Lind hjartanlega til hamingju með árangurinn og viðurkenninguna.
Ásdís Linda Sverrisdóttir, móðir Ásu Lindar, tók við verðlaununum fyrir hennar hönd.
