Fara í efni

Ársreikningur 2020 samþykktur

Undanfarið ár hefur verið sveitarfélögum á Íslandi, rétt eins og heimsbyggðinni allri, eitt samfellt lærdómsferli. Lærdómsferli sem við þó hefðum öll helst viljað sleppa við. Heimsfaraldur inflúensu hefur valdið gríðarlegri röskun á lífi einstaklinga og ein mesta efnahagskreppa sem riðið hefur yfir heimsbyggðina til fjölda ára er staðreynd. Það fer ekki á milli mála þegar niðurstaða ársreikninga bæði fyrirtækja og margra sveitarfélaga hér á landi er skoðuð. 

Tap í fyrsta sinn frá árinu 2012

Niðurstaða ársreiknings bæjarsjóðs Hveragerðisbæjar og stofnana hans fyrir árið 2020 er neikvæð sem nemur 87,7 m.kr. Er það í fyrsta sinn frá árinu 2012 sem niðurstaða bæjarsjóðs og tengra stofnana er neikvæð. Er því ljóst að áhrifa Covid gætir verulega þegar rekstrarniðurstaðan er skoðuð. Er niðurstaða ársreiknings nokkuð lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun en búist var við rekstrarhalla upp á tæplega 64 m.kr.. Skýrist þetta frávik frá fjárhagsáætlun einna helst af því að verðbólga varð meiri en gert var ráð fyrir og eins því að því miður láðist að gera ráð fyrir vöxtum vegna leiguskuldar við Reiti fasteignafélag í fjárhagsáætlun. Helstu ástæður neikvæðst rekstrar liggja í hruni í tekjum margra stofnana og auknum útgjöldum vegna Covid.

Skuldahlutfallið er 103%

Þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu rekstrar Hveragerðisbæjar árið 2020 er bæjarfélagið vel innan þess ramma sem gefinn er varðandi viðmið laga um skuldastöðu en skuldir samstæðu nema nú um 103% sem hlutfall af heildartekjum sveitarfélagsins. Rétt er þó að geta þess að fjármálareglur sveitarfélaga hafa verið afnumdir vegna efnhagskreppunnar til ársins 2025.


Fordæmalaus uppbygging

Það er ánægjulegt að sjá að mikill vöxtur er í húsbyggingum og framkvæmdum í sveitarfélaginu en nú eru hafnar framkvæmdir við eða skipulög á lokastigi á svæðum sem rúmað geta 373 íbúðir og þá eru ekki taldar með íbúðir sem komið gætu í næsta áfanga Kambalands. Ef Hólmabrúninni og nýjum áfanga í Kambalandi yrði bætt við þessa tölu þá er ekki óvarlegt að áætla að bætast munu við um 120 íbúðir. Þetta gera um 500 íbúðir sem nú eru á framkvæmdastigi eða í farvatninu næstu misserin. Þetta er mikil aukning og langt umfram þær áætlanir sem bæjarstjórn hefur hingað til unnið eftir. Í ljósi þessa skoðar nú meirihluti D-listans uppbyggingu innviða hratt og örugglega því ánægja íbúa er sú breyta sem við viljum fyrst og fremst horfa til.

Hugsað til framtíðar

Vel er haldið utan um fjármál og grannt fylgst með þróun útgjalda og brugðist við eftir því sem þurfa þykir. Með fjárfestingum í landi og fasteignum á undanförnum árum hefur meirihluti D-listans sýnt að hann hugsar til framtíðar en nú er byggingaland í bæjarfélaginu tryggt næstu áratugina. Er það ánægjuleg staða í landlitlu sveitarfélagi.

Sterk stjórn á fjármálum bæjarins ásamt skynsamlegri uppbyggingu innviða og þjónustu hefur gert að verkum að mikil ásókn er í búsetu í bæjarfélaginu og ánægja íbúa samkvæmt könnunum sú besta sem gerist á landinu.

Bæjarstjórn hefur verið einhuga og samhent í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og það hefur áhrif langt út fyrir þau störf sem bæjarstjórn eru falin. Vinsældir Hveragerðisbæjar sem farsæls búsetukosts hafa aukist mjög á undanförnum árum, fasteignaverð er hærra en í nágrannasveitarfélögum og fjöldi fjölbreyttra íbúða í byggingu. Það er því óvarlegt að áætla annað en að bæjarbúum muni fjölga vel umfram landsmeðaltal á næstu árum enda hefur bæjarbúum fjölgað um 13% frá árinu 2015.

Þrátt fyrir að við sjáum nú vonandi til lands varðandi afleiðingar yfirstandandi efnahagskreppu með bólusetningum, bjartsýni og auknum fjölda ferðamanna er brýnt að áfram sé vel haldið utan um rekstur bæjarins og að fjármálum bæjarins sé áfram stýrt af festu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.



Helstu atriði ársreiknings

Í ársreikningi 2020 kemur fram að samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri 203,1 mkr. eða sem nemur ríflega 6,3% af heildartekjum bæjarins. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 252 mkr. eða sem nemur um 7,8% af heildartekjum samstæðu.
Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2020 102,87 % sem er 47,1 prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað. Langtímaskuldir samstæðu að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 og Breiðumerkur 20 nema 3.021 m.kr..
Lífeyrisskuldbinding er 650 mkr.. Samtals gerir þetta 3.671 mkr. eða rétt ríflega 1,32 mkr. pr íbúa.
Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár.

Fjárfestingar á árinu 2020 námu 304 mkr.. Helstu fjárfestingar ársins fólust í viðbyggingu við grunnskólann (141 mkr.), framkvæmdum í Kambalandi (277 mkr.) gatnagerð, vatns- og fráveituframkvæmdum, endurbótum á sundlauginni Laugaskarði (35 mkr.), kaupum á Breiðamörk 21 (44 mkr. ), framkvæmdum í vatnsveitu (65,5 mkr.), Framkvæmdum í fráveitu (15,9 mkr), kaupum á félagslegu húsnæði (28 mkr.), Hús fyrir vélbúnað Hamarshallar (23 mkr) aðrar fjárfestingar voru smærri á árinu. Tekjur vegna gatnagerðargjalda námu 310 mkr., seld var fasteign á árinu ( 38,7 mkr.).

Tekin ný langtímalán voru 389 mkr.. Afborganir langtímalána námu 210,6 mkr..  Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 51% af skatttekjum, félagsþjónustan 13,4% og æskulýðs- og íþróttamál 9,2%.


Þakkir til stjórnenda og starfsmanna

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðri og styrkri stjórn forstöðumanna bæjarins og framlagi starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist. Umhverfi stjórnenda bæjarfélagsins hefur sjaldan ef nokkru sinni verið jafn krefjandi og raun hefur verið undanfarið ár. Lokanir, sóttvarnir, sóttkví og smit hafa einkennt margar starfsstöðvar en auk þess var innleiðing styttingar vinnuvikunnar krefjandi viðfangsefni og þá sérstaklega á vaktavinnu vinnustöðunum.  Bæjarstjóri og bæjarstjórn  færa stjórnendum og starfsmönnum öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins og einstakt vinnuframlag við erfiðar og krefjandi aðstæður. 

Í lokin er rétt að geta þess að fjárhagsáætlanir undanfarinna ára hafa verið unnar í góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa og hefur samstarf í bæjarstjórn verið traust og ánægjulegt. Slíkt samstarf er ekki sjálfgefið og fyrir það ber að þakka.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri 


Síðast breytt: 13. maí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?