Fara í efni

Skipulags- og umhverfisnefnd

7. fundur 02. apríl 2024 kl. 18:00 - 20:15 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Arnar Ingi Ingólfsson formaður
  • Hlynur Kárason varaformaður
  • Thelma Rún Runólfsdóttir
  • Brynja Hrafnkelsdóttir
  • Sigurður Einar Guðjónsson
Starfsmenn
  • Hildur Gunnarsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Höskuldur Þorbjarnarson
Fundargerð ritaði: Hildur Gunnarsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Arnar Ingi bauð fundarmenn velkomna. Engar athugasemdir voru við fundarboð.

Nefndin bókar að breyta skuli 8. gr. í erindisbréfi skipulags- og umhverfisnefndar á þá leið að í stað þess að fundarboð skuli berast fundarmönnum eigi síðar en 2 sólarhringum fyrir fund sé skrifað að fundarboð skuli berast eigi síðar en 2 virkum dögum (sólarhringum) fyrir fund.

1.Endurskoðun aðalskipulags Hveragerðisbæjar

2310124

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti á fundi sínum þann 8. febrúar 2024 að kynna skipulagslýsingu endurskoðaðs aðalskipulags Hveragerðisbæjar 2024-2036 fyrir almenningi og umsagnaraðilum.

Markmið endurskoðunar aðalskipulags Hveragerðisbæjar er að tryggja sem besta samfellu í þróun svæða innan bæjarmarka, svo að nýting og uppbygging innviða geti átt sér stað í takt við fjölgun íbúa. Ástæður endurskoðunar eru hraðari fjölgun íbúa en gildandi aðalskipulag gerði ráð fyrir, mótun samgöngustefnu samhliða aðalskipulagsgerð ásamt því að veita Breiðumörk sérstaka athygli með rammaskipulagshluta vegna tilfærslu Suðurlandsvegar. Aðalskipulag tekur einnig mið af annarri stefnumótun bæjarins sem og Landsskipulagsstefnu og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Skipulagslýsingin var auglýst til kynningar frá 14. febrúar til 20. mars 2024. Athugasemdir og umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Önnu Erlu Valdimarsdóttur leikskólanum Undralandi, Róberti Péturssyni, Lóðarhöfum Breiðumörk 1c, Skipulagsstofnun, Hafrannsóknarstofnun, Veðurstofu Íslands, Vegagerðinni, Veitum, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Skógræktarfélagi Hveragerðis, Minjastofnun Íslands og Náttúrufræðistofnun.
Lagt fram til kynningar.

2.Árhólmar - deiliskipulagsbreyting

2302004

Lögð er fram umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda Skipulagsstofnunar í umsögn stofnunarinnar dags. 21. mars 2024 þar sem gerð er athugasemd við að bæjarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.

Í framlagðri umsögn eru lögð til viðbrögð við athugasemdum Skipulagsstofnunar og tillaga að breytingu á deiliskipulagsuppdrætti og greinargerð.
Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja umsögn skipulagsfulltrúa með tilheyrandi breytingum á deiliskipulagsuppdrætti og greinargerð.

3.Aðalskipulagsbreyting vegna sleðabrautar í Árhólmum

2403778

Lögð er fram skipulagslýsing, vegna breytingar á reit AF2 í aðalskipulagi Hveragerðisbæjar og nýs deiliskipulags fyrir afþreyingarsvæði í Kömbum ofan við Hveragerði, vegna áforma um uppbyggingu sleðabrautar í Árhólmum.

Markmið skipulagsbreytingarinnar er að víkka út afþreyingarmöguleika í hlíðum Kamba með sleðabraut (e. Alpine Coaster) samsíða Zip-line, en nokkru sunnar. Sami aðkomuslóði og stígur myndi nýtast sleðabraut. Sleðabrautin er ætluð öllum aldurshópum.

Málið var áður tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þann 23. mars 2023 þar sem nefndin bókaði: "Skipulags- og mannvirkjanefnd Hveragerðisbæjar leggur til við bæjarstjórn að heimila fyrirspyrjanda að hefja skipulagsvinnu vegna Sleðabrautar í samvinnu við skipulagsyfirvöld bæjarins. Breyta þarf bæði aðal- og deiliskipulagi með tilheyrandi kynningum og athugasemdafresti umsagnaraðila og almennings." Bæjarstjórn samþykkti erindið á fundi sínum þann 13. apríl 2023.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að samþykkja auglýsingu á skipulagslýsingu.

4.Hjallabrún 9

2305108

Lögð er fram umsókn lóðarhafa að Hjallabrún 9 á breytingu á deiliskipulagi vegna óska um heimild til byggingar glerskjóls við hús sitt. Lóðarhafi hefur í tvígang sótt um byggingarleyfi fyrir svalaskjóli sem hefur verið utan byggingareitar. Var fyrra málið tekið fyrir og hafnað á fundi nefndarinnar þann 30. júní 2023, þar sem ekki var mælt með að breyta deiliskipulagi vegna umfangs glerskjólsins. Seinni umsókn, sem einnig var utan byggingareitar, barst 15. september 2023.

Lögð er einnig fram umsögn skipulagsfulltrúa þar sem lagt er til að heimila breytingu á gildandi deiliskipulagi Hólmabrúnar og Dalsbrúnar sem samþykkt var árið 2006 með síðari breytingum. Heimildin yrði hliðstæð heimild fyrir suðurhlið Dalsbrúnar og heildstæð fyrir alla Hjallabrún til byggingar sólskýla allt að 3m utan byggingareitar aðkomumegin götu.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að heimila skipulagsfulltrúa að láta gera breytingu á deiliskipulagi til þess að heimila byggingu sólstofa með til þess gerðum byggingareit allt að 3m utan núverandi byggingareitar aðkomumegin og að hámarki 15 m2.

5.Hólmabrún 13 - skjólveggur á lóðamörkum

2403004

Lögð er fram að nýju ódagsett umsókn lóðarhafa Hólmabrúnar 13 fyrir leyfi til að byggja hækkaðan skjólvegg á lóðamörkum að bæjarlandi, sem og samþykki nágranna fyrir skjólvegg á lóðamörkum aðliggjandi lóða.

Meðfylgjandi umsókn eru teikningar af útfærslu 1,8 m hárrar lokaðrar girðingar á þrjá vegu. Girðingin er sýnd byggð upp með hálfs metra breiðum steyptum súlum á 0,3 m háum steyptum grunni. Á milli súlna eru liggjandi timburborð.

Ekki er heimilt að setja niður girðingar eða skjólveggi á lóðamörkum við bæjarland sem er hærri en 1,0 m og ekki gisin þannig að lofti í gegnum þær, skv. minnisblaði bæjarstjóra frá 14. júlí 2020. Ekki er því heimilt að girða lóð af á lóðamörkum að bæjarlandi við Þelamörk, eins og umsókn fer fram á. Fyrir liggur samþykki lóðarhafa fyrir girðingu á lóðamörkum. Sú framkvæmd er undanskilin byggingarleyfi, sé hún framkvæmd í samræmi við ákvæði byggingareglugerðar.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að hafna umsókninni þar sem hún er ekki í samræmi við minnisblað bæjarstjóra frá 14. júlí 2020. Nefndin leggur einnig til við skipulagsfulltrúa að fá almenna umsögn um skjólveggi á lóðamörkum í Hveragerði frá landslagsarkitektum Landform ehf.

6.Hesthúsasvæði og golfvöllur - deiliskipulagsgerð

2401118

á 574. fundi bæjarstjórnar dags. 8. febrúar 2024 var skipulagsfulltrúa heimilað að leita tilboða til deiliskipulagsgerðar fyrir hesthúsasvæði og golfvöll. Lögð eru fram tilboð frá tveimur aðilum vegna deiliskipulagsvinnu fyrir hesthúsasvæði að Vorsabæjarvöllum og golfvelli Golfklúbbs Hveragerðis í Gufudal.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að heimila skipulagsfulltrúa að ganga til samninga við Dagnýju Bjarnadóttur landslagsarkitekt á DLD design í samræmi við innkomið tilboð.

7.Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar 2024

2403779

Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar eru veitt árlega fyrirtæki, einstaklingi eða félagasamtökum sem sýnt hefur sérstakt frumkvæði í umhverfismálum. Verðlaunin verða afhent á sumardaginn fyrsta í tengslum við opið hús Garðyrkjuskólans á Reykjum (FSU).

8.Fyrirhuguð könnun meðal íbúa Hveragerðisbæjar um umhverfis- og loftslagsmál

2403780

Lögð fram til kynningar fyrirhuguð könnun meðal íbúa Hveragerðisbæjar um umhverfis -og loftslagsmál.
Lagt fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:15.

Getum við bætt efni síðunnar?