Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

223. fundur 28. mars 2023 kl. 17:00 - 18:15 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Arnar Ingi Ingólfsson formaður
  • Marta Rut Ólafsdóttir
  • Hlynur Kárason
  • Kristján Björnsson
  • Árni Þór Steinarsson Busk varamaður
Starfsmenn
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
  • Hildur Gunnarsdóttir skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Hildur Gunnarsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Leikskólinn Óskaland - skipulagslýsing

2303081

Lögð er fram skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi Hveragerðsbæjar 2017-2029 á reit S2 og aðliggjandi reit OP. Skipulagslýsingin er unnin skv. gr. 5.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og er ætlað að tryggja aðkomu hagsmunaaðila og almennings að skipulagsferlinu.

Markmið breytingarinnar er að stækka lóð leikskólans Óskalands svo koma megi fyrir viðbyggingu með 4 nýjum leikskóladeildum vegna mikillar fólksfjölgunar í bænum með tilheyrandi álagi á innviði.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að samþykkja skipulagslýsinguna í auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýstur athugasemdafrestur verði tvær vikur.

2.Mánamörk 7 - fyrirspurn um breytingu á skilmálum deiliskipulags

2303079

Perago Bygg ehf. óskar eftir breytingu á skilmálum gildandi aðalskipulags fyrir reit M3 sem og breytingum á gildandi deiliskipulagi Miðsvæðis, Austurmarkar, Sunnumarkar og Mánamarkar sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 14. desember 2017.

Skilmálar miðsvæðis M3 heimilar blandaða byggð með þjónustu, verslun og íbúðum á 1-2 hæðum en 3 hæðum sé það skilgreint í deiliskipulagi. Hlutfall íbúðarhúsnæðis á M3 má vera 30%. Markmið gildandi deiliskipulags er m.a. að skapa skilyrði fyrir öfluga verslun og þjónustu, þ.m.t. gistiþjónustu, blöndun byggðar og aukinn hlut íbúða frá því sem nú er, aðallega austast á reitnum auk sveigjanleika og aukna möguleika á að breyta atvinnuhúsnæði í heild eða hluta í íbúðir. Skilmálar gildandi deiliskipulags heimila á lóð Mánamerkur 7 heildarbyggingarmagn 1.176 m2 á tveimur hæðum með heimild fyrir íbúðum á efri hæð á allt að 353 m2. Nýtingarhlutfall 0,6 án kjallara.

Breytingin, sem óskað er eftir, nær bæði til nýtingar, fjölda hæða byggingar, sem og byggingarmagns á lóð og fækkunar bílastæða frá gildandi skilmálum. Óskað er eftir að byggja 1.720 m2 á þremur hæðum, nýta allar hæðir byggingarinnar fyrir íbúðir og hótelíbúðir og auka nýtingu lóðarinnar í 0,87. Meðfylgjandi fyrirspurn eru teikningar Björgvins Snæbjörnssonar arkitekts dags. 2. mars 2023.
Teikningar sýna metnaðarfulla uppbyggingu íbúða og hótelíbúða á lóð Mánamerkur 7. Uppbyggingin er umfram heimildir núverandi skipulagsskilmála og er ekki möguleg nema að undangenginni aðal- og deiliskipulagsbreytingu. Þónokkrar breytingar verða í næsta nágrenni lóðarinnar á komandi misserum með boðaðri tilfærslu Suðurlandsvegar. Hveragerðisbær áformar að endurskoða aðalskipulag bæjarins á núverandi kjörtímabili og er vinna við það rétt óhafin. Breytingarnar eru ekki tímabærar.

Skipulags- mannvirkjanefnd Hveragerðisbæjar leggur til við bæjarstjórn að synja lóðarhöfum um að breyta aðal- og deiliskipulagi.

3.Beiðni um sleðabraut (Coaster) í Hveragerði - Kambagil

2301071

Kambagil ehf. óskar með bréfi dags. 26. janúar 2023 eftir því að koma upp um 1 km langrar „Sleðabrautar" (á ensku: Alpine Coaster) í landi Hveragerðisbæjar, austan við Svartagljúfur og Zip-línu við Árhólma í Ölfusdal en vestan við núverandi skógræktarsvæði.

Sleðabrautin er fjölskylduvæn afþreying þar sem fólk rennur í hlykkjum niður brekku eftir að búið er að ferja það með lyftu frá þjónustuhúsi sem staðsett verður neðan við sleðabrautina.

Samlegðaráhrif verða með komandi Zip-línu þar sem þjónustuhús og upphaf Sleðabrautar er við vegslóða sem ferjar fólk að Zip-línu. Einnig yrði afgreiðsla Sleðabrautar samnýtt afgreiðslu Zip-línu. Sleðabrautin er fest niður með pinnum í um 0,5 m hæð frá jörð og er því afturkræf.
Skipulags- og mannvirkjanefnd Hveragerðisbæjar leggur til við bæjarstjórn að heimila fyrirspyrjanda að hefja skipulagsvinnu vegna Sleðabrautar í samvinnu við skipulagsyfirvöld bæjarins. Breyta þarf bæði aðal- og deiliskipulagi með tilheyrandi kynningum og athugasemdafresti umsagnaraðila og almennings.

4.Birkimörk 10-16 - fyrirspurn um landnotkun

2303080

Eigendur Birkimarkar 12 óska, með bréfi dags. 1. mars 2023, eftir skýringum á landnotkun svæðis sunnan við raðhús á Birkimörk 10-16 og eins á frágangi göngustígar og á götulýsingu við lóðamörk sömu megin raðhúsa.

Landnotkun svæðis sunnan við íbúðasvæði ÍB3 sem nær m.a. yfir Birkimörk 10-16 er athafnasvæði AT1 skv. aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029. Almennir skilmálar athafnasvæða eru að það séu svæði fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun, svo sem léttur iðnaður, hreinleg verkstæði, bílasölur og umboðs- og heildverslanir. Einnig atvinnustarfsemi sem þarfnast mikils rýmis, t.d. vinnusvæði utandyra á lóðum eða starfsemi sem hefur í för með sér þungaflutninga, svo sem vörugeymslur og matvælaiðnaður.

Sunnan við Birkimörk 2-8 liggur aðkomugata að Gróðurmörk 1. Göngustígur er báðum megin götu og götulýsing. Gatan endar við Gróðurmörk 1. Á milli Gróðurmerkur 1 og lóða Birkimerkur 10-16 er 6 m bæjarland.
Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur undir með bréfritara að mikilvægt er að athafnalóðir séu snyrtilegar og valdi ekki ónæði í nábýli við íbúðabyggð. Lóðin Gróðurmörk 1 er skv. skilgreiningu aðalskipulags athafnalóð og mega ökutæki tilheyrandi starfsemi athafnalóða leggja innan lóðar. Gatan Gróðurmörk er sunnan við Birkimörk 2-8 en endar við lóðamörk Gróðurmarkar 1. Vegna þess að lóðamörk sunnan Birkimarkar 10-16 liggja að opnu bæjarlandi en ekki götu, er hvorki gata né göngustígur með götulýsingu sunnan við lóðirnar.
Arnar Ingi vék af fundi kl. 17:40

5.Þelamörk 56 - fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi

2303082

Arn-Verk ehf. óskar f.h. eiganda Þelamerkur 56 eftir breytingu á deiliskipulagi Edenreitar, sem samþykkt var þann 14. desember 2017 með síðari breytingum, vegna tilfærslu byggingareitar fyrir bílskúr. Þelamörk 56 er tæplega 105 m2 einbýlishús. Óskað er eftir að byggja tæplega 87 m2 stakstæðan bílskúr með vinnustofu og geymslu í suð-vesturenda lóðar. Samtals yrðu mannvirki á lóð rúmlega 191 m2 og nýtingarhlutfall 0,24.

Gildandi deiliskipulag heimilar umtalsverða stækkun allra einbýlishúsa sunnan megin Þelamerkur og sýnir byggingareit fyrir bílskúr til hliðar við byggingareit einbýlis á lóðamörkum, nema í einu tilfelli þar sem byggingareitur bílskúrs er aftast á lóð. Heimild bílskúrs Þelamerkur 56 liggur að lóðamörkum til vesturs og upp að heimild bílskúrsheimildar Þelamerkur 52-54, sem yrðu sambyggðir. Heimilt er að byggja alls 314 m2 á lóð eða allt að nýtingarhlutfalli 0,4.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við umsækjanda að eigendur Þelamarkar 56 og 54 sæki sameiginlega um breytingu á deiliskipulagi til þess að færa byggingareiti fyrir sambyggða bílskúra.
Arnar Ingi kom inn á fund kl. 18:01

6.Breiðamörk 10 - fyrirspurn um gistiþjónustu á efri hæð

2302002

Málið var tekið fyrir á 221. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þar sem umsókn eiganda Breiðumerkur 10, um heimild til að breyta notkun þriggja íbúða á efri hæð í gistiþjónustu í flokki II, var tekin fyrir.

Bæjarstjórn heimilaði að vísa erindinu í grenndarkynningu á fundi sínum þann 9. mars 2023. Borist hefur samþykki allra aðila grenndarkynningar sem gera ekki athugasemdir við framkvæmdina.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að samþykkja erindið í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem aðilar grenndarkynningar gera með undirritun sinni ekki athugasemdir við erindið.
fundargerð lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:15.

Getum við bætt efni síðunnar?