Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

220. fundur 10. janúar 2023 kl. 17:00 - 18:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Arnar Ingi Ingólfsson formaður
  • Marta Rut Ólafsdóttir
  • Hlynur Kárason
  • Kristján Björnsson
  • Sigurður Einar Guðjónsson
Starfsmenn
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
  • Hildur Gunnarsdóttir skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Hildur Gunnarsdóttir skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Fyrirspurn um aðalskipulagsbreytingu á Öxl 6

2301015

JVST Iceland hefur f.h. lóðarhafa sent fyrirspurn um breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar vegna lóðar Axlar 6 með tölvupósti dags. 4. janúar 2023.

Meðfylgjandi tölvupósti er greinargerð þar sem fram kemur að óskað er eftir að notkun lóðarinnar, sem staðsett er suð-austan við fyrirhuguð ný gatnamót Hveragerðisbæjar, eftir færslu Suðurlandsvegar, verði breytt í verslunar- og þjónustulóð. Áform lóðarhafa eru að reisa vönduð mannvirki á lóðinni í þeim tilgangi að veita þjónustu sem samræmist rekstri SKEL hf. s.s. fjölorkustöð ásamt þjónustubyggingu, apóteki með bílalúgu og verslun, þvottastöð (sjálfvirk eða með göngum), dekkja- og smurþjónustu. Gert er ráð fyrir að staðsetning lóðarinnar geti orðið tengipunktur fyrir ferðaþjónustu. Í því samhengi er gert ráð fyrir húsnæði til að þjónusta ferðaþjónustuaðila með sölubásum, skrifstofum og fleiru. Byggingar verða nánast eingöngu á jarðhæð en þó er gert ráð fyrir tveimur hæðum að hluta. Óskað er eftir nýtarhlutfalli allt að 0,75 fyrir lóðina sem er um 11.618 m2 að stærð.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti á fundi sínum þann 20. október s.l. að hefja gerð vinnu við endurskoðun aðalskipulags Hveragerðisbæjar 2017-2029. Endurskoðun aðalskipulags er flýtt vegna hraðrar fólksfjölgunar í bænum undanfarin ár.

Óskar lóðarhafi eftir samstarfi við skipulagsnefnd Hveragerðisbæjar varðandi nánari útfærslu þannig að úr geti orðið áhugavert svæði fyrir verslun- og þjónustu.
Skipulags- og mannvirkjanefnd telur að fyrirspurn JVST Iceland um að breyta notkun á lóðinni Öxl 6 í verslunar- og þjónustulóð geti ágætlega samræmst endurskoðun aðalskipulags. Ef séð er fram á að tilfærsla Suðurlandsvegar og bygging nýrra gatnamóta gerist fyrir gildistöku nýs aðalskipulags, getur komið til álita að flýta aðal- og deiliskipulagsgerð á lóð Öxl 6, enda er starfsemi lóðarinnar skv. fyrirspurn nátengd verslun- og þjónustu við þjóðveginn. Endanlegt heimilað nýtingarhlutfall og útfærsla bygginga verði unnin í nánu samstarfi við skipulagsyfirvöld í Hveragerði, þar sem staðsetning lóðarinnar er áberandi við fyrirhugaða nýja innkomu í bæinn.

2.Réttarheiði 9 - grenndarkynnt byggingarleyfi fyrir sólskála

2301011

Með tölvupósti dags. 2. desember 2022 óskar Ellert Már Jónsson f.h. eigenda eftir heimild til að byggja 13.6 m2 sólskála á Réttarheiði 9. Upphaflegar teikningar af raðhúsum á Réttarheiði 1-11, eftir Stefán Jörudsson og Björn Einarsson, voru samþykktar árið 2001. Gert var þá ráð fyrir 32 m2 blómaskála með glerþaki sem síðar var breytt í stofu. Ekkert deiliskipulag er í gildi og er heimilað nýtingarhlutfall reitar ÍB3 í aðalskipulagi 0,3-0,45. Reiturinn er skv. aðalskipulagi fullbyggður og einkennist af lágreistum einbýlis- rað og parhúsum.

Nú er sótt um að byggja sólskála á verönd til suðurs. Breytingin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar skv. ákvæðum aðalskipulags. Meðfylgjandi er samþykki allra meðlóðarhafa á Réttarheiði 1-11.
Máli frestað.

3.Núpanáma - umsögn vegna skipulagslýsingar aðalskipulagsbreytingar Ölfus

2301020

Skipulagsfulltrúi Ölfus óskaði, með tölvupósti þann 16. desember 2022, eftir umsögn Hveragerðisbæjar við skipulagslýsingu á aðalskipulagsbreytingu vegna Núpanámu. Náman hefur ekki verið nýtt nýlega, en áformuð nýting nú er vegna tilfærslu áfanga Suðurlandsvegar innan bæjarmarka Hveragerðisbæjar.

Markmið breytingarinnar er að auka magn áætlaðrar efnistöku, breyta afmörkun námunnar og minnka kolefnislosun. Núpanáma er í innan við kílómeters fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu en 17 km eru að Þórustaðanámu, sem upphaflega var áætlað að sækja efni í. Vinnuvegur verður lagður á milli framkvæmdasvæðisins og námunnar og munu engir efnisflutningar því fara um þjóðveg 1. Deiliskipulagi Núpanámu verður breytt í kjölfar aðalskipulagsbreytingar.

Gildandi deiliskipulag Núpanámu gerir ráð fyrir efnistöku á allt að 115.000 m3 á um 4,5 ha svæði. Nýtt/breytt deiliskipulag mun gera ráð fyrir að svæðið stækki í allt að 24,3 ha og að efnistaka verði allt að 490.000 m3. Efnistaka fer að mestu leyti í uppbyggingu á breyttum Suðurlandsvegi.
Núpanáma er staðsett í jaðri Ölfus við bæjarmörk Hveragerðisbæjar. Stækkun Núpanámu skv. fyrirhuguðu aðal- og deiliskipulagi er rúmlega fimmföld að flatarmáli og efnistaka er ráðgerð rúmlega fjórföld frá því sem nú er heimilað. Vegna staðsetningar námunnar við bæjarmörkin og framtíðarbyggingarland Hveragerðisbæjar er mikilvægt að hugað sé að frágangi námunnar og ásýnd, sem og að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir vegna mögulegs jarðvegsfoks frá námunni yfir á núverandi byggð og framtíðarbyggð Hveragerðisbæjar. Æskilegt er að nýta megi námuna sem jarðvegstipp samhliða efnistöku.

4.Reykjamörk 22, stækkun lóðar, heimild til skipulagsgerðar

2212074

Lóðarhafi hefur áður sótt um stækkun lóðar Reykjamarkar 22 og heimild til að hefja skipulagsgerð á sameinuðum lóðum. Málið var tekið fyrir á 203. fundi skipulagsnefndar þann 1. júní 2021 og lagt til að Landform ehf. yrði falið að gera aðalskipulagsbreytingu þar sem landnotkun reitar AT3 yrði breytt. Mat þáverandi nefndar var að ekki væri rétt að úthluta lóð sunnan við lóðina Reykjamörk 22 sem íbúðarlóð, fyrr en landnotkun og lögun hennar yrði ákveðin í breyttu aðal- og deiliskipulagi.

Þann 13. janúar 2022 samþykkti bæjarstjórn að auglýsa breytingu á aðalskipulagi AT3 úr athafnasvæði í íbúðasvæði ÍB15 með heimild fyrir verslun- og þjónustu og athafnastarfsemi að hluta, þar sem áhersla yrði lögð á ferðaþjónustu og ylrækt. Bæjarstjórn samþykkti einnig á sama fundi að ganga til samninga við ASK arkitekta um deiliskipulagsgerð á svæðinu. Ein athugasemd barst vegna tillögu að aðalskipulagsbreytingu og var tillögunni frestað í skipulags- og mannvirkjanefnd.
ASK arkitketar vinna nú að tillögu að heildardeiliskipulagi fyrir svæði AT3 í samráði við skipulagsfulltrúa, skipulags- og mannvirkjanefnd og lóðarhafa á reitnum í samræmi við fyrri afgreiðslur erindisins.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að bíða með að úthluta lóð bæjarins sunnan við Reykjamörk 22 þangað til að tillaga að breyttu deiliskipulagi, sem nú er í vinnslu, verði samþykkt af bæjarstjórn til auglýsingar.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Getum við bætt efni síðunnar?