Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

212. fundur 08. mars 2022 kl. 17:00 - 18:27 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Sigurður Einar Guðjónsson varaformaður
  • Laufey Sif Lárusdóttir
  • Hlynur Kárason
  • Snorri Þorvaldsson
  • Ingibjörg Zoéga Björnsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Hildur Gunnarsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Guðmundur F Baldursson skipulagsfulltrúi
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur F. Baldursson Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Sigurður Einar Guðjónsson setti fund, sem haldinn var með fjarfundarfyrirkomulagi og bauð fundarmenn velkomna á fundinn og þá sérstaklega Hildi Gunnarsdóttur, nýráðinn skipulagsfulltrúa bæjarins og þakkar fráfarandi skipulagsfulltrúa fyrir ánægjulegt samstarf og velunnin störf í þágu bæjarins. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.

1.Laufskógar, Frumskógar og Bláskógar, deiliskipulag innan hverfisverndarsvæðis HV4.

2103049

Málið var áður á dagskrá 211. fundar nefndarinnar, þar sem skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir því að búið væri að leita umsagnar og kynna skipulagslýsinu verkefnisins, sem gerð var af Landform ehf. dags. 10. janúar 2022, í samræmi við 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engar umsagnir eða athugasemdir bárust aðrar en frá Skipulagsstofnun, dags. 18. febrúar sl. Þar sem bent er á mikilvæg þess að nýtt deiliskipulag fyrir svæðið vinni út frá sérstöðu og sögu þess og nýta megi umhverfismat við mótun deiliskipulagsins til að leggja mat á áhrif tillögunnar. Jafnframt bendir stofnunin á hvort ekki eigi betur við að tala um deiliskipulag fremur en hverfisskipulag og hún telur að yfirskriftin „á miðbæjarsvæði HV4“ sé óskýr og villandi. Stofnunin minnir á mikilvægi samráðs þegar unnið er að skipulagi í gróinni byggð og að tryggt sé að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar á svæðinu hafi möguleika á aðkomu að skipulagsferlinu og að koma hugmyndum og ábendingum á framfæri, svo sem með sérstakri kynningu tillögu á vinnslustigi.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að tekið verði tillit til athugasemda og ábendinga Skipulagsstofnunar við deiliskipulagsgerðina.

2.Nýtt íbúðarsvæði ÍB15, tillaga að breytingu á aðalskipulagi.

2109069

Málið var á dagskrá 211. fundar nefndarinnar þar sem skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir því að tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins hafi verið kynnt íbúum bæjarins með auglýsingu á heimasíðu bæjarins og á Facebook síðu Hvergerðinga og send hagsmunaaðilum og öðrum umsagnaraðilum til kynningar. Engar almennar athugasemdir bárust en umsagnir bárust frá Veðurstofu Íslands, dags. 19. janúar sl., Heilbrigðiseftirliti Suðurlands dags. 1. febrúar sl. Minjastofnun Íslands, dags. 2. febrúar sl., Umhverfisstofnun dags. 2. febrúar sl. og Náttúrufræðistofnun Íslands dags. 4. febrúar sl., þar sem engar athugasemdir voru gerðar. Samþykkt var að senda tillöguna Skipulagsstofnun til umsagnar sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en hún yrði auglýst skv. 31. gr. sömu laga.

Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun dags. 24. febrúar sl. þar sem ekki er gerð athugasemd við tillagan verði auglýst og hefur það nú verið gert. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út 22. apríl nk.
Málið lagt fram til kynningar.

3.ZIP LINE Svifbraut á Árhólmasvæði, tillaga að breytingu á aðalskipulagi.

2109070

Málið var á dagskrá 210. fundar nefndarinnar þar sem skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir því að bæjarstjórn hafi samþykkt þann 13. janúar 2022 að auglýsa samhliða, tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 á svæði suðaustan við Hengladalaá skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árhólmasvæðis í Hveragerði, skv. 43. gr. sömu laga. Tillagan að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar felur í sér nýtt 0,9ha. ferðamanna- og afþreyingarsvæði AF2 við Hengladalaá, stækkun á verslunar- og þjónustusvæði VÞ1 á Árhólmasvæðinu um 0,5ha. til norðurs og nýjar gönguleiðir í nágrenni Hengladalaár. Með breytingunni verður heimilt að reisa svifbraut (Zip-line) ásamt útsýnis- og upphafspalli og lendingarpalli og leggja nýja göngustíga. Á fundinum var jafnframt lögð fram umsögn um aðalskipulagstillöguna frá Minjastofnun Íslands dags. 7. janúar 2022, þar sem engar athugasemdir voru gerðar en bent á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
Ofangreindar tillögur að breytingu á aðal- og deiliskipulagi voru auglýstar frá og með 17. janúar sl. Frestur til að gera athugasemdir var til 7. mars sl. Eftirfarandi umsagnir bárust:

Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands dags. 20. janúar sl. þar sem engar athugasemdir eru gerðar.

Bréf frá Umhverfisstofnun dags. 20. janúar sl. þar sem bent er á að á milli deiliskipulagsreita A og B, sé votlendi sem nýtur sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Ekki sé fjallað um votlendið í tillögunni eða hvernig hugað verði að verndun þess. Auk þess bendir stofnunin á að í deiliskipulagsgreinargerð sé hvorki fjallað um vegslóða og gönguleið, sem liggi að hluta til á votlendissvæði né um fyrirhugaða notkun vegslóðans.

Engar aðrar athugasemdir bárust.

Skipulagsfulltrúi bendir á að í a. lið 61. gr. náttúruverndarlaga sé fjallað um sérstaka vernd votlendis svo sem hallamýra, flóa, flæðimýra, rústamýra, stöðuvatna, tjarna, sjávarfitja og leira. Slíkt votlendi er ekki að finna á skipulagssvæðinu en skv. jarðfræði-, jarðhita- og grunnvatnskorti (OS-JHD-JFR 8716 KS/ÞHH/FS/SV-94.04.0118 T) er svæðið að hluta til grasi- og mosagróið hraun (hvh og hea) og að hluta til gróið land, myndað af árframburði (Á1). Eins og sjá má á kortinu og einnig í greinargerð Landform ehf um jarðvegskönnun á landnotkunarreitnum VÞ1, dags. 6. júní 2013, er votlendi ekki að finna á skipulagssvæðinu. Varðandi ábendingu Umhverfisstofnunar um skort á umfjöllun um vegslóða sem tengir tjaldsvæði við þjónustusvæði þá hefur verið bætt úr því sbr. 6.1 lið greinargerðar deiliskipulags.
Nefndin tekur undir ábendingu skiplagsfulltrúa og leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt óbreytt og send Skipulagsstofnun til staðfestingar.

4.Árhólmasvæði, svifbraut og bílastæði, breyting á deiliskipulagi.

2109071

Málið var á dagskrá 210. fundar nefndarinnar þar sem skipulagsfulltrúi upplýsti að bæjarstjórn hafi samþykkt þann 13. janúar 2022 að auglýsa samhliða, tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 á svæði suðaustan við Hengladalaá skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árhólmasvæðis í Hveragerði, skv. 43. gr. sömu laga. Tillagan að breytingu á deiliskipulagi Árhólmasvæðisins felur í sér stækkun á reit A, þannig að hann nái til stækkunar á almennu bílastæði fyrir ferðamenn, tveggja lóða fyrir upphafs- og endapall svifbrautar og göngustíga meðfram Hengladalaá. Einnig felur breytingin í sér stækkun á byggingarreit á lóðinni Árhólmar 1. Meginmarkmið tillögunnar er að skapa nýja möguleika til afþreyingar fyrir ferðamenn, sem þannig fá tækifæri að sjá og njóta náttúrunnar frá nýju sjónarhorni. Ofangreindar tillögur að breytingu á aðal- og deiliskipulagi voru auglýstar samhliða frá og með 17. janúar sl. Frestur til að gera athugasemdir var til 7. mars sl. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Umhverfisstofnun, sbr. lýsingu á máli nr. 3 í þessari fundargerð. Einnig er vísað í ábendingu skipulagsfulltrúa um votlendi og vegslóða sbr. lýsingu sama máls.

Engar aðrar athugasemdir bárust.
Nefndin tekur undir ábendingu skiplagsfulltrúa og leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt óbreytt.

5.Bláskógar 6b, umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, niðurstaða grenndarkynningar.

2201025

Málið var á dagskrá 210. Fundar nefndarinnar en þá var lögð fram umsókn frá lóðarhafa lóðarinnar Bláskógar 6b, dags. 5. janúar 2022, um byggingarleyfi fyrir 100,5m2 einnar hæðar einbýlishúsi á lóðinni. Byggingarefni er timbur. Lóðarstærð er 327,9m2 og nýtingarhlutfall lóðar er 0,3. Lóðin er á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir. Framkvæmdin er í samræmi við ákvæði á uppdrætti sem var grenndarkynntur og samþykktur í bæjarráði 20. ágúst 2020. Að mati skipulagsfulltrúa var framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, skilmála í aðalskipulagi fyrir íbúðarreitinn ÍB7 og ákvæði fyrir hverfisverndarsvæði HV4, sem felur í sér að varðveita beri byggðarmynstur og götumynd reitsins. Skipulagsfulltrúi benti á að lagfæra skuli staðsetningu húss á lóðinni Bláskógar 4 á meðfylgjandi afstöðumynd og skila skuli ásýndarmynd af húsum á lóðunum Bláskógar 4 og 6b, séð frá götu og hefur það verið gert. Nefndin samþykkti að grenndarkynna framkvæmdina sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/210.

Grenndarkynningin hefur farið fram. Frestur til að gera athugasemdir var til 25. febrúar sl. Engar athugasemdir bárust.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að framkvæmdin verði samþykkt.

6.Bláskógar 6c, umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, niðurstaða grenndarkynningar.

2201024

Málið var á dagskrá 210. Fundar nefndarinnar en þá var lögð fram umsókn frá lóðarhafa lóðarinnar Bláskógar 6c, dags. 5. janúar 2022, um byggingarleyfi fyrir 206,35m2 2ja hæða einbýlishúsi á lóðinni. Byggingarefni er timbur. Lóðarstærð er 806,3m2 og nýtingarhlutfall lóðar er 0,26 Lóðin er á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir. Framkvæmdin er í samræmi við ákvæði á uppdrætti sem var grenndarkynntur og samþykktur í bæjarráði 20. ágúst 2020 að frátalinni þakgerð sem er mænisþak í staðinn fyrir flatt þak eða portbyggt ris með mænisþaki. Að mati skipulagsfulltrúa var framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, skilmála í aðalskipulagi fyrir íbúðarreitinn ÍB7 og ákvæði fyrir hverfisverndarsvæði HV4, sem felur í sér að varðveita beri byggðarmynstur og götumynd reitsins. Nefndin samþykkti að grenndarkynna framkvæmdina sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/210.

Grenndarkynningin hefur farið fram. Frestur til að gera athugasemdir var til 25. febrúar sl. Engar athugasemdir bárust.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að framkvæmdin verði samþykkt.

7.Öxnalækur, mótun stefnu um uppbyggingu sunnan Hringvegar.

2203030

Á fundi bæjarráðs þann 17. febrúar sl. var tekið fyrir bréf frá teiknistofunni Arkþing/Nordic, fyrir hönd landeiganda lóðanna Öxnalækur L171630, L171632 og L193639, þar sem óskað er eftir samstarfi við Hveragerðisbæ um könnun á mögulegri uppbyggingu á svæði sunnan Hringvegar, austan Þorlákshafnarvegar og að ráðist verði í skipulagsgerð í framhaldi af því. Bæjarráð samþykkti að vísa málinu til skipulags- og mannvirkjanefndar til frekari skoðunar.

Í kynningarskjali, sem fylgdi bréfinu eru lagðar fram tvær tillögur um breytta landnotkun á svæðinu. Tillaga 1 gerir ráð fyrir nýju miðsvæði næst væntanlegu hringtorgi á Hringvegi og stækkun athafnasvæðis AT2 til suðvesturs. Tillaga 2 gerir með sama hætti ráð fyrir nýju miðsvæði næst hringtorgi og einnig að hluta til á núverandi athafnasvæði AT2 en að öðru leyti verði íbúðarbyggð á svæðinu og þá einnig að hluta til á núverandi athafnasvæði AT2 og á iðnaðarsvæði I1.
Þar sem útlit er fyrir að framkvæmdir við færslu Hringvegar geti hafist á næsta ári þá er að mati nefndarinnar tímabært að fara að huga að framtíðarlandnotkun sunnan Hringvegar. Að mati nefndarinnar er tillaga 1 í góðu samræmi við stefnumörkun bæjarins til lengri tíma litið en að ekki sé rétt að breyta nú landnotkun á svæðum AT2 og I1 sbr. tillögu 2. Nefndin tekur jákvætt í erindið og leggur til við bæjarstjórn að leitað verði eftir umsögn Landform ehf. um báðar tillögurnar og um næstu skref.

8.Tívolíreitur, ný íbúðar- og miðsvæðisbyggð, breyting á deiliskipulagi.

2203031

Lagt fram erindi frá T.ark, f.h. Suðursala ehf. dags. 3. mars sl. þar sem óskað er eftir því að gerðar verði breytingar deiliskipulagi, sem afmarkast af Breiðumörk, Austurmörk, Grænumörk og Mánamörk, sem fela í sér breytingu á lóðarmörkum og lóðarstærðum lóðanna Austurmörk 24 og Sunnumörk 3 og samsvarandi breytingar á skilmálatöflu og greinargerð, sbr. meðfylgjandi skipulagstillögu dags. 13. febrúar sl. Aðrir skilmálar s.s. nýtingarhlutfall lóða, hæðir húsa og byggingarreitir haldast óbreyttir. Að mati skipulagsfulltrúa er breytingin óveruleg þar sem hún víkur ekki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi svæðisins og að víkja megi frá kröfum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga um grenndarkynningu þar sem hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að ræða við lóðarhafa um hvort ekki megi fullnýta byggingarmagn á íbúðarlóðinni með 2ja og 3ja hæða húsum. Nefndin óskar jafnframt eftir skuggavarpsmyndum og öðrum ítargögnum sem rætt var um á fundinum. Nefndin bendir á að við hönnun götu og lóða skuli hugað að góðri aðstöðu eða útskotum fyrir strætisvagna beggja vegna Austurmerkur.

Fundi slitið - kl. 18:27.

Getum við bætt efni síðunnar?