Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

209. fundur 07. desember 2021 kl. 17:00 - 17:52 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Gísli Páll Pálsson formaður
  • Sigurður Einar Guðjónsson
  • Laufey Sif Lárusdóttir
  • Hlynur Kárason
Starfsmenn
  • Guðmundur F Baldursson skipulagsfulltrúi
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur F. Baldursson Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Gísli Páll Pálsson setti fund, sem haldinn var á bæjarskrifstofunni Breiðumörk 20 og bauð fundarmenn velkomna á fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.

1.Deiliskipulag við Varmá, breyting á staðsetningu skólpdælubrunns.

2112031

Á uppdrætti deiliskipulags við Varmá er skólpdælubrunnur staðsettur rétt norðan við Álfahvamm. Af tæknilegum ástæðum er hagkvæmara að staðsetja hann við enda götunnar Álfafell 6-10 sbr. meðfylgjandi tillögu. Að mati skipulagsfulltrúa er um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem hún víkur ekki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Breytingin varðar ekki hagsmuni nágranna og því er bæjarstjórn heimilt að samþykkja hana án sérstakrar grenndarkynningar.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að breytingin verði samþykkt.

2.Kambaland, tillaga að breytingu á deiliskipulagi, umsögn frá Landsneti ohf.

2109073

Málið var á dagskrá 208. fundar nefndarinnar þar sem lagðar voru fram umsagnir og athugasemdir frá landeiganda Hrauntungu 18, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun, Sveitarfélaginu Ölfusi og Vegagerðinni voru ræddar. Nefndin lagði þá til við bæjarstjórn að breytingartillagan yrði samþykkt óbreytt og var hún samþykkt í bæjarstjórn 11. nóvember sl.

Lögð fram umsögn Landsnet ohf. dags. 16. nóvember sl. þar sem fram kemur að ekki sé komin tímasetning á niðurrif Sogslínu 2 en gert sé ráð fyrir því að það haldist í hendur við framkvæmdir við færslu Hringvegar. Til að viðhalda fullu afhendingaröryggi á vesturhluta Suðurlandskerfisins og á höfuðborgarsvæðinu er æskilegt að klára ákveðnar framkvæmdir á Suðurlandi áður en Sogslína 2, á milli Hveragerðis og Reykjavíkur, verður aflögð. Framkvæmdirnar eru ýmist nú þegar á þriggja ára áætlun Landsnet eða að verða hluti af henni og því er farið að styttast í að hægt verði að fjarlægja línuna.
Málið lagt fram til kynningar.

3.,,ZIP LINE“ Svifbraut á Árhólmasvæði, tillaga að breytingu á aðalskipulagi.

2109070

Málið var á dagskrá 208. fundar nefndarinnar þar sem lögð var fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2021, gerð af Landform ehf. dags. 4. október 2021, sem felur í sér nýtt ferðamanna- og afþreyingarsvæði við Hengladalaá AF2, stækkun á verslunar- og þjónustusvæði VÞ1 og nýjar gönguleiðir við Hengladalaá. Nefndin lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði send Skipulagsstofnun til athugunar og að fenginni umsögn hennar verði hún auglýst sbr. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Lögð fram umsögn Skipulagsstofnunar um tillöguna dags. 3. desember sl. þar sem ekki er gerð athugasemd við að hún verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga þegar gerð hefur verið betur grein fyrir hæð og umfangi útsýnispalls, frágangi vegar að ferðamannasvæðinu eftir að framkvæmdum lýkur, hvar viðskiptavinum er ætlað að mæta við upphaf zip line ferðar og mörk grannsvæðis vatnsverndar, hverfisverndar og strandsvæðis hafa verið lagfærð til samræmis við leiðrétt sveitarfélagamörk. Skipulagsstofnun leggur til að tillögur að aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingu verði auglýstar samhliða svo íbúar og hagsmunaaðilar fái skýrari mynd af áformunum.

Lögð fram breytt tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins, þar sem komið er til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og auk þess gerð minniháttar breyting á mörkum AF2 reitsins en stærð hans er óbreytt.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst með ofangreindum breytingum samhliða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Árhólmasvæðis sem nær til svifbrautarinnar og fjölgun bílastæða á svæðinu.

4.Árhólmasvæði, breyting á deiliskipulagi.

2109071

Málið var á dagskrá 208. fundar nefndarinnar þar sem lagt var fram bréf frá Reykjadalsfélaginu dags. 1. nóvember sl. ásamt kynningargögnum um uppbyggingu útivistarþjónustumiðstöðvar á Árhólmasvæðinu. Skipulagsfulltrúa var falið að boða til fundar með fulltrúum félagsins, bæjarstjórn og skipulagsnefnd um tillögurnar og var frekari umræðu um málið frestað.
Ofangreindur fundur var haldin. á TEAMS þann 17. nóvember sl. Þar gerðu fulltrúar Reykjadalsfélagsins grein fyrir tillögum sínum og í framhaldi af fundinum átti skipulagsfulltrúi samráðsfund með fulltrúa Reykjadalsfélagsins og Landform ehf. um deiliskipulagsgerðina.

Lögð var fram samþykkt bæjarstjórnar dags. 11. nóvember sl. um að Landformi ehf verði falið að hefja vinnu við staðsetningu og útfærslu nýs bílastæðis á Árhólmum sem rúmað geti fleiri fólksbíla, stærri bíla og rútur með betri hætti en núverandi bílastæði gerir í dag. Jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að sjá til þess að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á deiliskipulagi svo stækka megi bílastæðið eins fljótt og auðið er.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Árhólasvæðis ásamt greinargerð og umhverfismati, gerð af Landform ehf. dags. 6. desember 2021, sem felur í sér stækkun á reit A, þannig að hann nái til fjölgunar bílastæða í samtals 200 stæði auk rútustæða, lóða fyrir upphafs- og endapalla svifbrautar, nýs göngustígs meðfram Hengladalaá og stækkunar á byggingarreit á lóð A1.
Lögð fram drög að framtíðarskipulagi Árhólmasvæðisins, gerð af Landform ehf. dags. 6. desember 2021, sem byggð eru á hugmyndum Reykjadalsfélagsins um uppbyggingu útivistarmiðstöðvar á svæðinu, sem kynnt voru á ofangreindum fundi þann 17. nóvember sl.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan vegna svifbrautar og fjölgun bílastæða, forsendur hennar og umhverfismat verði kynnt fyrir íbúum bæjarins og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í framhaldi af því verði hún auglýst samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Árhólmasvæðinu.

Jafnframt verði Landform ehf. falið að vinna að gerð breytingartillögu við deiliskipulag Árhólmasvæðisins þar sem tillögur Reykjadalsfélagsins um ferðaþjónustumiðstöð verði hafðar til hliðsjónar.

Vegna áherslu bæjarstjórnar á að stækka bílastæðin, sem allra fyrst þá leggur nefndin til að umræddar deiliskipulagsbreytingar verði gerðar í tveimur áföngum þar sem breyting vegna fjölgunar bílastæða og svifbrautar er mun umfangsminni og óvissuþættir færri.

5.Miðbæjarsvæði, ný bílastæðagata á miðbæjarsvæði.

2112032

Lögð fram tillaga Landslag ehf. af nýrri bílastæðagötu á grunnskólalóðinni austan við íþróttahúsið, dags. 1. nóvember 2021. Tillagan, sem er í samræmi við deiliskipulag miðbæjarsvæðis, sýnir nýja bílastæðagötu á milli Fljótsmerkur og Skólamerkur. Við götuna og á bílastæði við Grunnskólann er samtals gert ráð fyrir 83 bílastæðum, þar af er um þriðjungur þeirra með grassteinsyfirborði. Tillagan sýnir einnig frágang gangstétta við Skólamörk, 15 bílastæði við Lystigarðinn og dvalar- og hjólageymslusvæði við íþróttahús.
Lagt fram til kynningar. Nefndin leggur áherslu á að hugað verði að rafhleðslustöðvum við bílastæðagötuna.

6.Þórsmörk 3, umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur nýbyggingum og samtals 6 íbúðum á lóð, niðurstaða grenndarkynningar.

2108025

Málið var á dagskrá 208. fundar nefndarinnar þar sem lagðir voru fram breyttir grenndarkynningaruppdrættir af fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðinni. Í breytingunni felst að íbúðir á lóðinni verða 6 í stað 9, vegg- og mænishæð húsa lækkar um 1,2m, bakhús á lóð er mjókkað um 2,0m, lengt um 4,0m til vesturs og fært frá lóðarmörkum lóðarinnar Fljótsmörk 4 um 4,3m til suðurs, hluti núverandi skúrs á lóðinni verður geymsla í stað íbúðar. Nýtingarhlutfall lóðar er óbreytt. Samþykkt var að vísa málinu aftur í grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, vegna verulegra breytinga, sem gerðar voru á uppdráttunum.

Grenndarkynningin hefur farið fram. Frestur til að gera athugasemdir við framkvæmdina var til 6. desember sl. Tvö, að mestu samhljóða athugasemdarbréf, bæði dags. 6. desember 2021, bárust frá lögmanni lóðarhafa lóðanna Þórsmörk 1a og Fljótsmörk 4, þar sem gerðar eru athugasemdir sem lúta að fjölda íbúða á lóðinni, hæð og gerð íbúðarhúsa, sem sé í andstöðu við yfirbragð byggðar, staðsetningu á svölum og mögulegu ónæði frá nýrri byggð á lóðinni. Í báðum athugasemdarbréfum kemur fram að viðkomandi lóðarhafar hafi verið í góðri trú um að í mesta lagi kæmi einbýlishús eða parhús á lóðina Þórsmörk 3 og að framkvæmdin muni skerða verðmæti fasteigna þeirra umtalsvert.

Lagt fram minnisblað skipulagsfulltrúa dags. 7. desember 2021 þar sem málinu er lýst og gerð grein fyrir skipulagsskilmálum og yfirbragði svæðisins. Niðurataða hans er að framkvæmdin sé í góðu samræmi við skipulag, þéttleika og yfirbragð byggðar og ekkert í skipulagsskilmálum fyrir byggðina gefi til kynna að viðkomandi lóðarhafar hafi mátt vera í góðri trú um að í mesta lagi einbýlishús eða parhús kæmu til greina á lóðinni Þórsmörk 3.
Nefndin er sammála niðurstöðum skipulagsfulltrúa, sem fram koma í minnisblaði hans og leggur til við bæjarstjórn að umsókn um leyfi fyrir framkvæmdinni, skv. breyttum uppdráttum verði samþykkt.

7.Folaldaháls, nýtt iðnaðarsvæði fyrir gufuaflsvirkjun, tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020

2112033

Lögð fram til umsagnar tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020, gerð af Eflu verkfræðistofu, dags. 26. nóvember 2020, sem felur í sér að skilgreint er iðnaðarsvæði á Folaldahálsi fyrir gufuaflsvirkjun. Raforkuframleiðsla er áætluð allt að 3,9 MW sem nýtt verður fyrir sumarhúsabyggð og mögulega aðra starfsemi í landi Króks (L170822). Samhliða aðalskipulagsbreytingunni er gert deiliskipulag fyrir svæðið þar sem m.a. er afmörkuð lóð fyrir 3 borholur á svæðinu ásamt gufuskilju, gufuháf ásamt gufulögnum og öðrum búnaði gufuaflsvirkjunar auk stöðvarhúss og kæliturna. 11 kV jarðstrengur verður lagður um 7 km að bænum Krók í Grafningi. Raforkuframleiðsla er áætluð allt að 3,9 MW sem nýta má fyrir sumarhúsabyggð og mögulega aðra starfsemi í landi Króks. Til að tryggja stöðuleika í gufuöflun er nauðsynlegt að bora viðhaldsholu nærri núverandi borholu frá 2018. Frestur til að gera athugasemdir við breytingartillöguna er til 17. desember nk.

Málið var á dagskrá bæjarráðs þann 18. nóvember sl. þar sem harmað var að ekkert tillit skuli hafa verið tekið til athugasemda Hveragerðisbæjar frá því í desember 2020. Bæjarráð telur að stórbrotið landslag á virkjunarsvæðinu, í sinni fjölbreyttu jarðfræðilegu gerð, sé dýrmæt auðlind fyrir framtíðarkynslóðir og að almannahagsmunir liggi miklu frekar í verndun svæðisins en röskun þess til minniháttar orkunýtingar. Bæjarráð mótmælti því harðlega fyrirhuguðum áformum og vísaði málinu til umsagnar Skipulags- og mannvirkjanefndar.
Nefndin vísar í fyrri umsögn sína um lýsingu á breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps á fundi þann 1. desember 2020 þar sem fyrirhuguðum virkjunaráformum á Folaldahálsi var harðlega mótmælt.

8.Laufskógar 3, fjölgun fasteigna á lóð, niðurstaða grenndarkynningar.

2111018

Málið var á dagskrá 208. fundar nefndarinnar þar sem lagt var fram bréf frá lóðarhafa lóðarinnar Laufskógar 3, dags. 17. október sl., með ósk um að lóðin verði skráð sem fjöleignarlóð með tveimur íbúðum sbr. meðfylgjandi teikningu. Bakhús á lóðinni verður gert að sjálfstæðri íbúð og sameiginleg innkeyrsla verður fyrir báðar íbúðir á lóðinni. Nefndin samþykkti að vísa málinu í grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Grenndarkynningin hefur farið fram. Frestur til að gera athugasemdir við breytinguna var til 6. desember sl. Engar athugasemdir bárust.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt.

Fundi slitið - kl. 17:52.

Getum við bætt efni síðunnar?