Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

206. fundur 07. september 2021 kl. 17:00 - 18:10 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Gísli Páll Pálsson formaður
  • Sigurður Einar Guðjónsson
  • Laufey Sif Lárusdóttir
  • Hlynur Kárason
  • Snorri Þorvaldsson
Starfsmenn
  • Guðmundur F Baldursson skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur F. Baldursson Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Gísli Páll Pálsson setti fund, sem haldinn var á bæjarskrifstofunni Breiðumörk 20 og bauð fundarmenn velkomna á fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.

1.Athafnasvæði AT3, breyting á aðalskipulagi.

2109069

Á 204. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar var tekin fyrir ósk frá félaginu Reykjamörk ehf. um stækkun lóðarinnar Reykjamörk 22 og leyfi til að hefja skipulagsgerð á henni í stækkaðri mynd. Samþykkt var að Landform ehf. yrði falið að endurskoða aðalskipulagsskilmála fyrir landnotkunarreitinn AT3 reitsins með hliðsjón af markmiðum bæjarstjórnar um að auka vægi íbúðarbyggðar á reitnum en í núgildandi skilmálum aðalskipulags er þar gert ráð fyrir blandaðri ylræktar- og íbúðarbyggð, þar sem íbúðarbyggð má vera allt að 30% af heildar byggingarmagni. Jafnframt var samþykkt að nefndarmenn skoði gróðurhúsin á reitnum og meti stöðu þeirra.

Lagður fram uppdráttur gerður af Landform ehf, dags. 2. september sl. sem sýnir þrjá eftirtalda valkosti um aðalskipulagsbreytingu, sem nær til AT3 landnotkunarreitsins:

Tillaga a. felur m.a. í sér nýjan landnotkunarreit fyrir íbúðarbyggð á lóðinni 22 í stækkaðri mynd og að reitur AT3 minnki sem því nemur án þess að breyta skilmálum um landnotkun og byggingarmagn.

Tillaga b. felur m.a. í sér óbreytt mörk á AT3 reitnum en aukningu á hlutfalli íbúðarbyggðar úr 30% í 50% af heildar byggingarmagni.

Tillaga c. felur m.a. í sér breytingu á landnotkun á AT3 reitnum úr athafnasvæði í íbúðarbyggð ÍB15 með heimild fyrir athafnastarfsemi (Ylrækt) að hluta til. Mörk reitsins breytast ekki.

Allir valkostir fela í sér heimild til að fjarlægja gróðurhús á lóðinni Reykjamörk 22.
Nefndarmenn hafa skoðað gróðurhúsin á reitnum og telja að gerð þeirra og ástand gefi ekki tilefni til að þau njóti sérstakrar verndar. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að haldinn verði kynningarfundur með landeigendum á AT3 reitnum þar sem valkostirnir verði kynntir og kallað verði eftir sjónarmiðum landeigenda um uppbyggingu á reitnum.

2.Grænamörk 10, tillaga að breytingu á deiliskipulagi NLFÍ svæðis, íbúðarbyggð á reit ÍB14, athugasemdir sem borist hafa.

2109072

Málið var á dagskrá 205. fundar nefndarinnar þar sem fjallað var um umsagnir og athugasemdir sem bárust við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Grænumörk 10, gerða af Eflu verkfræðistofu og Arkþing, dags. 18. maí 2021 og auglýst var skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá og með 31. maí sl. Frestur til að gera athugasemdir við hana var til 26. júlí 2021. Deiliskipulagssvæðið er alls um 11,7ha en sá hluti þess sem lagt er til að verði breytt, nær til er 2,8ha reits, sem í aðalskipulagi er skilgreindur sem íbúðarbyggð ÍB14 og liggur að Þelamörk og íbúðarbyggð við Lækjarbrún. Á ÍB14 reitnum er gert ráð fyrir lágreistri 2ja hæða fjölbýlishúsabyggð, þar sem íbúum er gefinn kostur á þjónustu Heilsustofnunar NLFÍ.
Umsagnir bárust frá Umhverfisstofnun, Minjastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands, Vegagerðinni og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, þar sem engar athugasemdir voru gerðar en nokkrar ábendingar komu fram, sbr. bókun á 205. fundi nefndarinnar.
Athugasemdir við tillöguna bárust frá íbúum við Lækjarbrún 34, 36, 38, 40 og 43, dags. 9. júlí 2021 þar sem þeir fóru fram á að hætt yrði við byggingar A1 og E3, sem staðsettar eru næst húsum þeirra en ef ekki yrði orðið við því þá yrði þess í stað reist þar einnar hæðar hús sambærileg núverandi húsum við Lækjarbrún og að lágmarki í 40 m fjarlægð frá þeim. Einnig voru gerðar athugasemdir við staðsetningu á aðkomu að bílakjallara á lóð A. Einnig barst bréf frá stjórn Húseigendafélags Lækjarbrúnar þar sem gerð var athugasemd við að hús A1, sem er 2ja hæða skuli vera í einungis í 20m fjarlægð frá einnar hæðar húsum við Lækjarbrún. Lega hússins sem liggur samsíða húsum í Lækjarbrún hamli þannig útsýni og skyggi meira á Lækjarbrún en ella. Stjórnin óskar eftir því að fundin verði betri lausn á niðurröðun húsa á reitnum. Einnig var bent á að hús E3 er í liðlega 20 m fjarlægð frá húsi nr. 40 við Lækjarbrún og óskað var eftir því að fundin yrði önnur og betri lega á húsinu.
Samþykkt var að kalla eftir umsögn höfunda deiliskipulagstillögunnar um athugasemdirnar og hvort koma megi til móts við þær án þess að víkja frá ofangreindum ákvæðum og markmiðum.
Lögð fram umsögn höfunda deiliskipulagstillögunnar ásamt breyttum deiliskipulagsuppdrætti dags. 31. ágúst sl. þar sem komið er til móts við framkomnar athugasemdir með því að breyta fyrirkomulagi innan lóðar A á þann hátt að húsum A1 og A2 er víxlað til að létta ásýnd frá núverandi byggð við Lækjarbrún og innkeyrslu í bílakjallara er komið fyrir á nýjum stað á milli húsa A3 og A4. Að mati skipulagshöfunda telst 20 m fjarlægð á milli húsa í þéttbýli jafnvel rúmleg og víða má finna sambærilega fjarlægð milli húsa í Hveragerði.
Að mati nefndarinnar er tillagan í samræmi við ákvæði í aðalskipulagi um landnotkunarreitinn ÍB14 en þar er gert ráð fyrir lágreistri 2ja hæða byggð í góðum tengslum við starfsemi NLFÍ, sem fellur vel að umhverfi og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Nefndin bendir á að skv. b. lið 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ,,ber að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“. Því þurfi að gæta þess við uppbyggingu nýrrar byggðar að raska ekki ósnortnu landi meira en nauðsyn krefur. Horft hafi verið til þess við deiliskipulagsgerðina. M.t.t. þess að nýja byggðin er staðsett austan við íbúðarbyggðina í Lækjarbrún og skuggavarp frá henni inn á lóðir við Lækjarbrún er lítið sbr. skuggavarpsmyndir, þá er 20 m fjarlægð á milli húsa í Lækjarbrún annar vegar og á reit ÍB14 hins vegar, hæfileg að mati nefndarinnar. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu deiliskipulagi við Grænumörk 10 verði samþykkt með þeim breytingum sem höfundar deiliskipulagsins leggja til.

3.Kambaland, tillaga að breytingu á deiliskipulagi.

2109073

Málið var á dagskrá 205. fundar nefndarinnar þar sem lögð var fram frumtillaga TIS teiknistofu að breytingu á deiliskipulagi Kambalands dags. 10. ágúst 2021, sem fól í sér fjölgun íbúða á Hrauntungusvæðinu úr 70 einbýlum í 115 íbúðir í blandaðri einbýlis-, par- og raðhúsabyggð.
Lagt fram bréf dags. 24. mars sl., frá Verkeiningu ehf., lóðarhafa þriggja raðhúsalóða við Kaplahraun þar sem félagið óskar eftir því að íbúðum á lóðunum verði fjölgað úr þremur í fjórar íbúðir á lóð og jafnframt samþykkir það fyrir sitt leyti að skipulagðar verði þrjár parhúsalóðir sunnan við götuna.
Lögð fram ný breytingartillaga frá TIS teiknistofu, dags. 1. september 2021, sem felur í sér fjölgun íbúða á Hrauntungusvæðinu úr 70 einbýlum í 111 íbúðir í blandaðri einbýlis- rað- og parhúsabyggð, fjölgun íbúða við Kaplahraun úr 9 raðhúsaíbúðum í blandaða 18 íbúða par- og raðhúsabyggð og breytingu á fyrirkomulagi og aðkomu að leikskóla- og verslunar- og þjónustulóð. Skv. tillögunni fjölgar íbúðum í Kambalandi um 50 íbúðir og verða þær samtals 332 eftir breytingu.
Að mati skipulagsfulltrúa er breytingartillagan í góðu samræmi við Aðalskipulag Hveragerðisbæjar 2017-2029. Þéttleiki byggðarinnar á landnotkunarreitnum ÍB1 fer í 10,9 íb./ha. en skv. aðalskipulagi má hann vera 12,0 íb./ha. Skipulagsfulltrúi telur að fjölgun lóða við Kaplahraun muni auka hagkvæmni gatnagerðar en þó verði að hafa í huga að vegna hljóðvistaraðstæðna þá verða parhúsalóðirnar ekki byggingarhæfar fyrr en eftir fyrirhugaða færslu Hringvegarins.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að breytingartillagan verði auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.,,ZIP LINE braut á Árhólmasvæði við Hengladalaá og Varmá.

2109070

Málið var á dagskrá 205. fundar nefndarinnar þar sem lagt var fram ósk frá félaginu Kambagil ehf. um leyfi til að setja upp Zip-line braut í landi Hveragerðisbæjar auk útsýnispalls við Svartagljúfur í Hengladalaá. Lögð var fram skipulagslýsing gerð af Eflu verkfræðistofu, dags. 25. júní sl. og umsögn Landform ehf. um hana. Samþykkt var að leitað umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum, hún kynnt fyrir almenningi.
Skipulagsfulltrúi greindi frá því að lýsingin væri í umsagnarferli og í almennri kynningu. Frestur til að gera athugasemdir við bæði lýsinguna og framkvæmdina er til 20. september nk. Jafnframt hefur Landform ehf. hafið vinnu við mótun breytingartillögu við Aðalskipulag Hveragerðisbæjar, sem heimilar umrædda framkvæmd. Lagðir fram tveir valkostir frá Landform ehf. dags. 2. september sl. um málsmeðferð. Annars vegar að meðhöndla framkvæmdina sem staka framkvæmd sbr. k. lið 4.3.1. gr. skipulagsreglugerðar en þá er ekki þörf á að afmarka sérstakan landnotkunarflokk vegna hennar og hinsvegar að breyta landnotkunarflokki á svæðinu þar sem línan liggur, úr strandsvæði í opið svæði til sérstakrar notkunar. Skipulagsfulltrúi hefur sent tillögurnar til umsagnar Skipulagsstofnunar.

Málið lagt fram til kynningar.

5.Árhólmasvæði, breyting á deiliskipulagi.

2109071

Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar, dags. 1. júlí sl. var til umfjöllunar bréf frá Reykjadalsfélaginu slf. þar sem óskað er eftir því að gerð verði breyting á deiliskipulagi Árhólmasvæðis í samræmi við hugmyndir félagsins, sem kynntar hafa verið fyrir bæjaryfirvöldum, um uppbyggingu á alhliða ferðaþjónusta með áherslu á sjálfbærni. Deiliskipulagsbreytingin felur í sér bæði breytingu á núverandi lóðafyrirkomulagi og nýjum lóðum á Árhólmasvæðinu til að svæðið fái heildrænu yfirbragð. Félagið telur að breytingin rúmist innan gildandi aðalskipulags. Bæjarráð samþykkti að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja endurskoðun deiliskipulagsins í góðri samvinnu við lóðarhafa á svæðinu og að hugmyndir lóðarhafa um framtíðaruppbyggingu verði hafðar til hliðsjónar við endurskoðunina sem og stefnumörkun bæjarstjórnar um uppbyggingu á Árhólmum.
Skipulagsfulltrúi greindi frá því að hann hafi óskað eftir því að félagið útfærði nánar hugmyndir sýnar á skipulagsuppdrætti, sem hafður yrði til hliðsjónar við deiliskipulagsgerðina.
Málið lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:10.

Getum við bætt efni síðunnar?