Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

167. fundur 10. október 2017 kl. 17:30 - 18:40
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson formaður
  • Eyjólfur K. Kolbeins varaformaður
  • Daði Steinn Arnarsson
  • Friðrik Sigurbjörnsson sem mætti í stað Ingibjargar Zoega
  • Valdimar Ingvason sem mætti í forföllum Njarðar Sigurðssonar
Starfsmenn
  • Oddur Hermannsson Landform ehf
  • Svanhildur Gunnlaugsdóttir Landform ehf
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
  • Guðmundur F. Baldursson skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur F. Baldursson skipulagsfulltrúi

Eyþór H. Ólafsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.

Mál fyrir fundi

Nr. 1
Málsnr. 201602705857
Heiti máls: Tillaga að Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 – Svör við umsögnum og athugasemdum sem bárust.

Lýsing
Málið var síðast á dagskrá 166. fundar nefndarinnar þar sem gerð var grein fyrir umsögnum um tillöguna og athugasemdum við hana.

Oddur gerði grein fyrir tillögu Landform ehf. dags. 10. október 2017, að svörum við innsendum umsögnum og athugasemdum við tillöguna, frá Orkustofnun sbr. bréf dags. 13. júlí 2017, Landsneti hf. dags. 18. júlí 2017, Umhverfisstofnun, sbr. bréf dags.20. júlí 2017, Minjastofnun, sbr. bréf dags. 4. ágúst 2017, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, sbr. bréf dags. 28. ágúst 2017, Baldvin Nielsen, sbr. tölvupóst dags. 31. ágúst 2017, Gunnari Jónssyni hrl. f.h. Tálkna ehf,., sbr. bréf dags. 31. ágúst 2017, Vegagerðinni, sbr. tölvupóst dags. 1. september 2017 og Veitum ohf., sbr. bréf dags. 8. september 2017.

Svanhildur gerði grein fyrir breyttum aðalskipulagsuppdrætti ásamt greinargerð dags. 10. október 2017 og minnisblaði Landform ehf. dags. 10. október 2017 þar sem skráðar eru samtals 15 breytingar á auglýstri greinargerð og 2 breytingar á auglýstum aðalskipulagsuppdrætti. Breytingarnar eru í samræmi við þær breytingartillögur sem fram koma í ofangreindri tillögu Landform ehf. að svörum við umsögnum og athugasemdum við aðalskipulagstillöguna.

Afgreiðsla
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að tillaga Landform ehf. að svörum við innsendum umsögnum og athugasemdum við aðalskipulagstillöguna verði samþykkt. Jafnframt leggur nefndin til við bæjarstjórn að þær breytingar sem Landform ehf. leggur til að gerðar verði á aðalskipulagstillögunni sbr. ofangreint minnisblað og breytta aðalskipulagstillögu dags. 10. október 2017 verði samþykktar. Með þeim breytingum telur nefndin að komið sé að mestu leyti til móts við þær umsagnir og athugasemdir sem gerðar voru við tillöguna.


Nr. 2
Málsnr. 201611925894
Heiti máls: Tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Austurmörk, Sunnumörk og Mánamörk - Svar við athugasemd sem barst.

Lýsing
Málið var á dagskrá 166. fundar nefndarinnar.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Austurmörk, Sunnumörk og Mánamörk, gerð af Landform ehf dags. 7. júní 2017 var auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá og með 10. júlí til 31. ágúst 2017. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna var til 1. september 2017. Ein athugasemd var gerð við tillöguna og var hún frá lóðarhafa og leigutaka lóðarinnar Sunnumörk 4, sbr. bréf dags. 31. ágúst 2017 þar sem gerð er athugasemd við að breytingartillagan feli í sér íbúðarbyggð að hluta til, á nærliggjandi lóðum, sem kann síðar meir að valda þeim tjóni eða öðru raski á starfsemi lóðarinnar. Jafnframt er farið fram á að heimilaður verði byggingarréttur á íbúðarhúsnæði á lóðinni Sunnumörk 4.

Skipulagsfulltrúi og gerði grein fyrir tillögu, dags. 10. október 2017, að svari til þeirra sem athugasemdir gerðu við tillöguna.

Lagður fram breyttur deiliskipulagsuppdráttur með breytingu dags. 7.9.2017. Í breytingunni felst heimild fyrir 30% íbúðarmagni á lóðinni Sunnumörk 4.

Afgreiðsla
Nefndin bendir á að í aðalskipulagi 2005-2017 er ákvæði um að íbúðarhúsnæði geti verið í bland við þjónustu- og verslunarstarfsemi á miðsvæði við Sunnumörk, sbr. kafla 4.5 á bls. 70. Að mati nefndarinnar eru ákvæði í breytingartillögunni um íbúðir á lóðum við Sunnumörk í samræmi, bæði við gildandi aðalskipulag og tillögu að aðalskipulagi 2017 2029. Til að gæta samræmis við lóðina Sunnumörk 6 þá leggur nefndin til við bæjarstjórn að leyfilegt hlutfall íbúða á lóðinni Sunnumörk 4 verði 30% í stað 0% og að breyting sem gerð hefur verið á framlögðum deiliskipulagsuppdrætti verði samþykkt.

Nr. 3
Málsnr. 201612355924
Heiti máls: Tillaga að nýju deiliskipulagi á Edenreit - Svör við athugasemdum sem bárust.

Lýsing
Málið var á dagskrá 166. fundar nefndarinnar þar sem gerð var grein fyrir athugasemdum sem bárust frálóðarhöfum lóðarinnar Þelamörk 52-54, sbr. bréf dags. 31. ágúst 2017 þar sem þess er krafist að hús sem standa næst lóðarmörkum þeirra, auðkennd sem J, K, L og M verði einnar hæðar í stað tveggja og þriggja hæða. Að mati lóðarhafa mun skuggavarp frá umræddum húsum gera núverandi starfsemi á lóðinni Þelamörk 52-54 nánast ómögulega og rýra verðgildi hennar umtalsvert. Einnig er gerð athugasemd við áætlaðan göngustíg á lóðarmörkum, sem fer að hluta til inn á lóðina Þelamörk 52-54.

Lagt fram mat á áhrifum væntanlegra framkvæmda við Edenreitinn, gert af Helga Jóhannessyni og Runólfi Sigursveinssyni, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins dags. 6. október sl..

Skipulagsfulltrúi og gerði grein fyrir tillögu, dags. 10. október 2017, að svari til þeirra sem athugasemdir gerðu við tillöguna.

Afgreiðsla
Nefndin bendir á að byggingarreitur á lóð merkt G er í um 8 metra fjarlægð frá lóðarmörkum Grænumerkur 1 og í um 25 metra farlægð frá íbúðarhúsi á lóðinni Grænumörk 1. Eins og sjá má á skuggavarpsmyndum á skýringaruppdrætti, fylgiskjali með deiliskipulagsuppdrætti, er skuggavarp inn á lóðina Grænamörk 1 frá fyrirhuguðu húsi á lóð G afar lítið. Nefndin leggur þó til við bæjarstjórn að hús á lóð G verði einnar hæðar í stað 1-2 hæða. Með því er gætt samræmis í gerð húsa við austanverða Edenmörk. Að mati nefndarinnar er lóð G afar hentug til íbúðarnotkunar og hafnar nefndin því hugmyndum um aðra notkun hennar.

Til að koma til móts við athugasemdir lóðarhafa lóðarinnar Þelamerkur 52-54 þá leggur nefndin til við bæjarstjórn að hús á lóð L verði tveggja hæða í stað 2-3 hæða og að hús á lóð J verði einnar hæðar í stað tveggja hæða.

Vegna óska sem fram hafa komið frá lóðarhöfum lóðarinnar Reykjamörk 2 um að yfirborð hóls, sem staðsettur er við suðausturhorn lóðarinnar, verði ekki raskað þá leggur nefndin til við bæjarstjórn að byggingarreitur á lóð auðkenndri með bókstafnum B verði minnkaður til suðurs um u.þ.b. 3 metra.

Varðandi göngustíg á milli Eden lóðarinnar og Þelamerkur 52-54 þá mun hann, þegar fram líða stundir, geta þjónað báðum lóðunum. Tillagan gerir því ráð fyrir að báðar lóðirnar gefi eftir jafn mikið land undir stíginn. Nefndin telur því rétt að gera ráð fyrir honum í deiliskipulaginu.

Nr. 4
Málsnr. 201708675949
Heiti máls: Hraunbær 1, ósk um stækkun lóðar.

Lýsing
Lagt fram bréf frá Elínu Káradóttur og Sigurði Vilberg Svavarssyni, dags. 18. júlí 2017 þar sem þau fara fram á að lóðin Hraunbær 1 verði stækkuð til austurs að möninni við lóðarmörkin á Hótel Örk. Bæjarráð tók erindið fyrir á fundi sínum þann 20. júlí sl. og vísaði því til skipulags- og mannvirkjanefndar.

Lögð fram umsögn Landform um málið dags. 16. ágúst 2017 þar sem bent er á mikilvægi gönguleiðar austan við lóðina. Niðurstaða Landform er að lagst er að svo stöddu gegn frekari stækkun lóðarinnar en við gerð deiliskipulags svæðisins austan við lóðina megi skoða hvort rétt sé að færa legu göngustígsins fjær lóðinni og þannig koma til móts við óskir lóðarhafa.

Afgreiðsla
Nefndin tekur undir niðurstöðu Landform ehf. og leggur til við bæjarstjórn að lóðin Hraunbær 1-3 verði ekki stækkuð að svo stöddu en málið tekið upp aftur við gerð deiliskipulags fyrir svæði sunnan við Hótel Örk. 

 

Getum við bætt efni síðunnar?