Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

200. fundur 02. febrúar 2021 kl. 17:00 - 17:58 fjarfundur
Nefndarmenn
  • Gísli Páll Pálsson formaður
  • Sigurður Einar Guðjónsson varaformaður
  • Laufey Sif Lárusdóttir
  • Hlynur Kárason
  • Snorri Þorvaldsson
Starfsmenn
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
  • Guðmundur F. Baldursson skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur F. Baldursson skipulagsfulltrúi

Gísli Páll Pálsson setti fund, sem haldinn var með fjarfundarfyrirkomulagi og bauð
fundarmenn velkomna á fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.

Mál fyrir fundi:

Nr. 1
Málsnúmer: 201809205986
Heiti máls: Nýtt deiliskipulag við Varmá í Hveragerði, frá Lystigarðinum Fossflöt og norður fyrir Friðarstaði.

Lýsing á máli:
Á 199. fundi nefndarinnar var lögð fram tillaga að deiliskipulagi við Varmá, frá Lystigarðinum Fossflöt og norður fyrir Friðarstaði ásamt skýringaruppdrætti og greinargerð. Nefndin lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði kynnt fyrir íbúum Hveragerðisbæjar og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 14. janúar sl. að í ljósi aðstæðna í samfélaginu verði skipulagstillagan kynnt á rafrænum fundi og hún sýnd með óhefðbundnum hætti í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk.

Rafræni íbúafundurinn hefur verið auglýstur og verður hann haldinn þann 4. febrúar nk. kl. 17:00.

Skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir fyrirhugaðri sýningu á tillögunni en ráðgert er að hún verði sett upp í mars og standi fram í maí.

Afgreiðsla máls:
Málið lagt fram til kynningar.

Nr. 2
Málsnúmer: 202010636072
Heiti máls: NLFÍ, tillaga að breytingu á aðal- og deiliskipulagi.

Lýsing á máli:
Á 199. fundi nefndarinnar voru lagðar fram umsagnir frá Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Fiskistofu og stjórn félags húseigenda í Lækjarbrún um lýsingu á breytingu á aðal- og deiliskipulagi svæðis sem NLFÍ hefur til umráða í Hveragerði og nær til landnotkunarreita S8 og VÞ6, sbr. aðalskipulag Hveragerðisbæjar 2017-2029. Áður hafði nefndin fjallað um umsagnir frá Skipulagsstofnun, Vegagerðinni og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Lögð fram umsögn um lýsinguna frá Minjastofnun Íslands, dags. 8.janúar sl. þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við hana en bent á að ef fornleifar finnast innan svæðisins þurfi að sýna staðsetningu þeirra og útlínur á deiliskipulagsuppdrætti og að taka þurfi tillit til þeirra við útfærslu skipulagsins. Einnig minnir stofnunin á 22. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2019-2029, sem nær til landnotkunarreita VÞ6 og S8. Tillagan, sem gerð er af Landform ehf. dags. 28. janúar sl., er í samræmi við lýsingu á breytingu á aðal- og deiliskipulagi svæðisins og felur í sér að innan reits VÞ6 verður til nýr 2,8 ha. landnotkunarreitur fyrir íbúðarbyggð ÍB14 með þéttleika byggðar um 30 íb/ha. og að sá hluti VÞ6 reitsins sem eftir stendur, renni saman við aðliggjandi landnotkunarreit S8 sem verður 8,9 ha. með samfélagsþjónustu sem ríkjandi landnotkun með heimild fyrir verslun- og þjónustu að hluta til. Markmið breytingarinnar er að skapa betri grundvöll til frekari uppbyggingar á starfsemi NLFÍ og þjónustu tengdri henni og þétta íbúðarbyggð með áherslu á fjölbreytt húsnæðisform í góðum tengslum við Heilsustofnun NLFÍ.

Lögð fram drög að deiliskipulagi íbúðarsvæðis ÍB14 ásamt skýringarmyndum gerðum af Eflu verkfræðistofu og Arkþing Nordic dags. 21. janúar 2021. Meginmarkmið tillögunnar er að leggja drög að vistvænni og aðlaðandi íbúðabyggð sem fellur vel að byggð í Hveragerði og umhverfi Heilsustofnunnar NLFÍ. Íbúðabyggðin samanstendur af 5 húsþyrpingum sem hver um sig er með 3-4 lítil fjölbýlishús. Í hverri þyrpingu er skjólgóður inngarður. Gert er ráð fyrir samtals 80 íbúðum á svæðinu um 120 m2/íb., 104 bílastæðum og bílgeymslum. Bílastæðum og bílgeymslum er komið fyrir miðsvæðis og við Þelamörk. Gert er ráð fyrir sameiginlegri hjólageymslu, sorpgerði og garðhúsi við hverja húsþyrpingu og sameiginlegri þvottastöð og verkstæðishúsi fyrir hverfið. Markmiðið er að upplifun íbúa og gesta sé sú að umhverfið sé öruggt og fólk sé í fyrsta sæti en ekki bílinn. Lögð fram fornleifaskráning vegna fyrirhugaðra framkvæmda á NLFÍ- og Fagrahvammssvæðinu í Hveragerði gerð af Náttúrustofu Vestfjarða dags. í janúar 2021. Tíu minjar voru skráðar við vettvangsvinnu innan svæðisins, tvö vöð, Miðengisvað (001) og Brotið (002), Vorsabæjarstekkur (003), áveita (004), fjórar götur (005, 006, 007 og 008) og tvær minjar með óþekkt hlutverk (009 og 010).

Afgreiðsla máls:
Nefndin þakkar viðkomandi aðilum fyrir umsagnir um skipulagslýsinguna.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að ofangreind tillaga að breytingu á aðalskipulagi verði send Skipulagsstofnun til umsagnar sbr. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í framhaldi af því kynnt íbúum bæjarins og öðrum hagsmunaaðilum, sbr. 2. mgr. 30. gr. laganna og auglýst í samræmi við 31. gr. laganna. Nefndinni lýst í megin atriðum vel á deiliskipulagsdrögin en telur að huga þurfi að því að hús standi ekki á eða rétt við hraunbrúnina við Varmá og að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Að teknu tilliti til aldurssamsetningar íbúa í fyrirhuguðu íbúðarhverfi þá telur nefndin rétt að skoðaður verði betur fjöldi bílastæða og sorpgerða og staðsetning þeirra.
Nefndin þakkar Náttúrustofu Vestfjarða fyrir fornleifaskráninguna.

Nr. 3
Málsnúmer: 202010176074
Heiti máls: Hlíðarhagi, breyting á aðal- og deiliskipulagi, umsagnir sem borist hafa um skipulagslýsingu og tillögur að breytingu á aðal- og deiliskipulagi.

Lýsing á máli:
Á 199. fundi nefndarinnar voru lagðar fram umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 15. desember sl. og Vegagerðinni dags. 16. desember sl., um lýsingu á breyting á aðal- og deiliskipulagi fyrir Hlíðarhaga þar sem engar athugasemdir voru gerðar við hana. Nefndin lagði þá til við bæjarstjórn að ef engar eða óverulegar athugasemdir berist frá Skipulagsstofnun þá verði aðal- og deiliskipulagstillögunar auglýstar samhliða skv. 31. gr. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Lögð fram umsögn frá Skipulagsstofnun dags. 7. janúar sl., þar sem vakin er athygli á að leita skulu umsagnar Sveitarfélagsins Ölfuss vegna aðalskipulagsbreytingarinnar. Stofnunin bendir á að kynna skuli fyrirhugaða breytingu fyrir hagsmunaaðilum innan og í grennd við skipulagssvæðið og að lýsa skuli skipulagsferli og tímaáætlun aðalskipulagsbreytingar með sama hætti og deiliskipulagsbreytingar. Jafnframt lögð fram umsögn Umhverfisstofnunar dags. 12. janúar sl. og Veðurstofu Íslands dags. 27. janúar sl., þar sem engar athugasemdir eru gerðar.

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hlíðarhagareits ÍB5, gerð af Landform dags. 28. janúar sl. sem felur m.a. í sér að þéttleiki byggðarinnar verður 25 íb/ha í stað 15 íb/ha.
Lögð fram lagfærð tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hlíðarhaga ásamt greinargerð dags 25. janúar 2021.

Skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir tillögunum og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þeim.

Afgreiðsla máls:
Nefndin þakkar viðkomandi aðilum fyrir umsagnir um skipulagslýsinguna. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að ofangreind tillaga að breytingu á aðalskipulagi verði send Skipulagsstofnun til umsagnar sbr. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í framhaldi af því kynnt nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum, sbr. 2. mgr. 30. gr. laganna og auglýst samhliða tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðisins í samræmi við 31. og 43. gr. laganna.

Nr. 4
Málsnúmer: 202101926082
Heiti máls: Brúarhvammslaut, stofnun lóðar.

Lýsing á máli:
Lagt fram bréf frá Ríkiseignum dags. 12. janúar sl. ásamt lóðarblaði af lóðinni Brúarhvammslaut dags. 7. janúar sl. og öðrum fylgiskjölum, þar sem þess er óskað að skipulagsyfirvöld í Hveragerði samþykki lóðarblaðið. Um er að ræða lagfæringu á afmörkun eignarinnar Brúarhvammur (L172337) sem hefur legið yfir sveitarfélagamörk um langan tíma.

Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að lóðarblaðið verði samþykkt.

 

Getum við bætt efni síðunnar?