Fara í efni

Skipulags- og mannvirkjanefnd

199. fundur 05. janúar 2021 kl. 17:00 - 18:23 fjarfundur
Nefndarmenn
  • Gísli Páll Pálsson formaður
  • Sigurður Einar Guðjónsson varaformaður
  • Laufey Sif Lárusdóttir
  • Kristján Björnsson mætti í forföllum Hlyns Kárasonar
  • Snorri Þorvaldsson
Starfsmenn
  • Jón Friðrik Matthíasson byggingarfulltrúi
  • Guðmundur F. Baldursson skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur F. Baldursson skipulagsfulltrúi

Gísli Páll Pálsson setti fund, sem haldinn var með fjarfundarfyrirkomulagi og bauð fundarmenn velkomna á fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboðun.

Mál fyrir fundi:

Nr. 1
Málsnúmer: 201809205986
Heiti máls: Nýtt deiliskipulag við Varmá í Hveragerði, frá Lystigarðinum Fossflöt og norður fyrir Friðarstaði.

Lýsing á máli:
Á 196. fundi nefndarinnar voru til umfjöllunar drög að deiliskipulagi svæðisins, sem þá var kallað deiliskipulag Friðarstaðareits.

Lögð fram tillaga deiliskipulagi við Varmá í Hveragerði Frá Lystigarðinum Fossflöt og norður fyrir Friðarstaði ásamt skýringaruppdrætti og greinargerð, gerð af Ask arkitektum og Landslagi ehf. dags. 23. desember 2020.

Skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir tillögunni.

Laufey vék af fundi við afgreiðslu málsins.

Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan og forsendur hennar verði kynnt íbúum Hveragerðisbæjar og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Nr. 2
Málsnúmer. 202010636072
Heiti máls: Nýtt deiliskipulag fyrir íbúðabyggð NLFÍ, deiliskipulagslýsing, umsagnir sem borist hafa.

Lýsing á máli:
Á 198. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar voru lagðar fram umsagnir Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um lýsingu á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029, sem nær til landnotkunarreita VÞ6 og S8 og á tillögu að nýju deiliskipulagi íbúðabyggðar á suðurhluta lóðar NLFÍ, við Þelamörk. Samþykkt var að leita eftir umsögn Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynna hana fyrir almenningi sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga.

Til viðbótar umsögnum frá ofangreindum aðilum hafa eftirfarandi umsagnir borist:

Bréf frá Umhverfisstofnun dags. 25. nóvember 2020. Stofnunin gerir ekki athugasemdir við lýsinguna en að hennar mati er mikilvægt að fram komi áhrif tillögunnar á ásýnd svæðisins og hvort hún hafi neikvæð áhrif á verndargildi náttúruminja. Einnig bendir stofnunin á mikilvægi þess að tillagan hafi ekki neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins.

Bréf frá Veðurstofu Íslands, dags. 14. desember 2020. Veðurstofan telur að í stað núverandi texta um jarðskjálfta skuli standa: ,,Endurkomutími Suðurlandsskjálfta er um 100 ár að meðaltali og verða þá margir snarpir jarðskjálftar um allt Suðurland og hafa mikil áhrif. Dæmi er skjálftatímabilið 1896-1912, og frá 1987 hafa fjórir jarðskjálftar stærri en 6 átt sér stað, nú síðast árið 2008 sem hafði mikil áhrif í Hveragerði.“

Tölvupóstur frá Fiskistofu dags. 17. desember 2020. Fiskistofa gerir ekki athugasemdir við lýsinguna en bendir á að allar framkvæmdir sem nær eru veiðivatni en 100m, sem áhrif geta haft á lífríki vatnsins, fiskigengd eða aðstöðu til veiði eru háðar leyfi Fiskistofu, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Bréf frá stjórn félags húseigenda í Lækjarbrún, dags. 21. desember 2020. Félagið vill að við gerð endanlegrar skipulagstillögu verði byggingarmagn á reitnum endurskoðað og lagt er til að á reitnum verði einlyft raðhús í svipuðum stíl og við Lækjarbrún en ekki 2ja hæðar fjölbýlishús. Félagið leggur til að áhrif nýju byggðarinnar á útsýni og skuggamyndun á svæðinu verði skoðuð af sérfræðingum og að gætt verði sérstaklega að mikilvægi almenns umferðaröryggis á svæðinu og samspili gönguleiða í fallegri náttúru. Félagið óskar eftir því að athugasemdarfrestur verði lengdur og haldinn verði kynningarfundur fyrir íbúa Lækjarbrúnar og fyrir aðra áhuga- og hagsmunaaðila áður en frestinum lýkur.

Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að tekið verði tillit til umsagna Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Fiskistofu.


Varðandi athugasemdir félags húseigenda í Lækjarbrún þá bendir nefndin á að skv. 3.2 kafla greinargerðar Aðalskipulags Hveragerðisbæjar 2017-2029, sem fjallar um íbúðarbyggð, þá er megináhersla lögð á einbýli, par og raðhús á 1-2 hæðum á nýjum svæðum en við þéttingu inní byggð er lögð áhersla lítil fjölbýli á 2-3 hæðum. Nefndin telur því að 2ja hæða íbúðarbyggð á umræddum stað sé í góðu samræmi við ákvæði aðalskipulags. Nefndin telur rétt að áhrif nýju byggðarinnar á útsýni og skuggamyndun á svæðinu verði skoðuð og gætt verði að almennu umferðaröryggi á svæðinu. Nefndin bendir á að um er að ræða lýsingu á deiliskipulagi en áður en tillaga að deiliskipulagi verður tekin til afgreiðslu í bæjarstjórn og auglýst þá verður hún ásamt forsendum hennar kynnt íbúum Hveragerðisbæjar og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur því að á þessu stigi sé ekki þörf á að framlengja frest til að gera athugasemdir við lýsinguna.

Nefndin þakkar öllum viðkomandi aðilum fyrir innsendar athugasemdir og ábendingar.

 

Nr. 3
Málsnúmer: 202010176074
Heiti máls: Hlíðarhagi, breyting á aðal- og deiliskipulagi, umsagnir sem borist hafa um skipulagslýsingu.

Lýsing á máli:
Á 198 fundi nefndarinnar var lögð fram tillaga tillaga að lýsingu á tillögum um breytingu á aðal- og deiliskipulagi fyrir Hlíðarhaga, gerð af T.ark arkitektum dags. 27. nóvember 2020. Jafnframt var lögð fram lagfærð tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins dags. nóvember sl. þar sem komið er til móts við tillögu nefndarinnar um fjölda bílastæða og rafhleðslustöðvar. Samþykkt var að leita eftir umsögn Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynna hana fyrir almenningi sbr. 1. mgr. 30. gr. og 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Nefndin gerði ekki athugasemdir við lagfærða tillögu að deiliskipulagi svæðisins.

Skipulagsstofnun mun senda inn umsögn sína síðar í vikunni en umsagnir hafa borist frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 15. desember sl. og Vegagerðinni dags. 16. desember sl. þar sem engar athugasemdir voru gerðar við lýsinguna.

Afgreiðsla máls:
Ef engar eða óverulegar athugasemdir berast frá Skipulagsstofnun við lýsinguna þá leggur nefndin til við bæjarstjórn að aðal- og deiliskipulagstillögunar verði auglýstar samhliða skv. 31. gr. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Nr. 4
Málsnúmer: 202010816071
Heiti máls: Iðjumörk 3, umsókn um byggingarleyfi fyrir sólskýli, niðurstaða grenndarkynningar.

Tegund lóðar: Íbúðarlóð.
Lóðarhafi: Guðrún Hafsteinsdóttir kennitala 090270-5839, Iðjumörk 3, 810 Hveragerði
Hönnuður aðaluppdrátta: Guðjón Þórir Sigfússon kennitala 020162-3099.

Lýsing á máli:
Á 198. fundi nefndarinnar var lögð fram umsókn, frá lóðarhafa lóðarinnar Iðjumörk 3 um byggingarleyfi fyrir 42,5m2 sólskýli, skv. teikningum gerðum af VGS verkfræðistofu. Lóðin er á þegar byggðu svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir. Samþykkt var að vísa framkvæmdinni í grenndarkynningu sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Framkvæmdin hefur nú verið grenndarkynnt. Frestur til að gera athugasemdir við hana var til 19. desember sl. Engar athugasemdir bárust.

Laufey Sif vék af fundi við afgreiðslu málsins.

Afgreiðsla máls:
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt.

 

Nr. 5
Málsnúmer: 202004426053
Heiti máls: Umsókn um lóð fyrir spennistöð, tillögur að staðsetningu.

Lýsing á máli:
Á 195. fundi nefndarinnar var lagður fram uppdráttur, sem sýndi 5 tillögur, A-E, að mögulegri staðsetningu á spennistöð í miðbænum. Skipulagsfulltrúi upplýsti þá nefndina um að hann hafi kynnt tillögu E fyrir viðkomandi lóðarhafa og lagði nefndin til við bæjarstjórn að leitað yrði eftir samkomulagi við hann.

Lagður fram tölvupóstur frá Rarik dags. 3. desember sl. þar sem fram kemur að ekki hafi náðst samkomulag um staðsetningu spennistöðvar skv. tillögu E. Skipulagsfulltrúi upplýsti að fljótlega verði haldinn fundur með ofangreindum lóðarhafa til að finna lausn á málinu.

Afgreiðsla máls:
Málið lagt fram til kynningar.

 

Nr. 6
Málsnúmer: 202101296079
Heiti máls: Breyting á aðalskipulagi Ölfus 2010-2022 vegna breytingar á landnotkun í Götu í Selvogi og Stóra-Saurbæ 3.

Lýsing á máli:
Lagður fram tölvupóstur frá Sveitarfélaginu Ölfusi dags. 22. desember 2020, það sem óskað er eftir umsögn um meðfylgjandi skipulagslýsingu dags. 4. desember sl. á breytingu á aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022 sem felur í sér breytta landnotkun á tveimur stöðum í Ölfusi. Fyrirhugað er að breyta landnotkun fyrir 400 fermetra reit í landi Götu í Selvogi þar sem hugmyndin er að reisa 30m hátt fjarskiptamastur. Einnig er fyrirhugað að breyta landnotkun á um 15ha svæði við Stóra-Saurbæ 3 úr landbúnaðarsvæði í íbúðarsvæði, sem felur í sér að heimilt verður að byggja þar allt að 15 íbúðarhús. Stóri-Saurbær 3 er á mörkum friðlýsts svæðis sem er á náttúruminjaskrá í 7. útg. 1996. Í lýsingunni segir að fyrirhuguð byggð sé utan svæðisins svo ekki er talið að breytingin hafi teljandi áhrif á friðlýsta svæðið.

Afgreiðsla máls:
M.t.t. ýmissa samfélagslegra þátta s.s. samgangna, mennta- og félagsmála, sorphirðu og dreifikerfis veitna, þá er að mati nefndarinnar ekki gerð góð grein fyrir því í lýsingunni hvernig myndun lítilla og fámennra íbúðarkjarna víða í dreifbýli Ölfus s.s. í landi Stóra Saurbæjar 3, samræmist því meginmarkmiði í aðalskipulagi Ölfus 2010-2022 að stuðla skuli að hagkvæmri þróun byggðar og einnig 2.1.1 kafla Landskipulagsstefnu um sjálfbæra byggð í skipulagsáætlunum. Sé tekið mið af línuriti í lýsingu um mannfjöldaþróun í dreifbýli Ölfus þá má vænta þess að innan ekki svo langs tíma verði íbúðarbyggð í Sveitarfélaginu Ölfusi að meginhluta í dreifbýli.

Nefndin gerir ekki athugasemdir við breytta landnotkun í landi Götu í Selvogi.

Nr. 7
Málsnúmer. 202101866080
Heiti máls: Kæra vegna ákvörðunar Hveragerðisbæjar á niðurrifi á húsinu Skaftafelli.

Lýsing á máli:
Lagt fram bréf Njarðar Sigurðssonar bæjarfulltrúa til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember sl. ásamt fylgigögnum, þar sem hann kærir ákvörðun Hveragerðisbæjar um niðurrif á húsinu Skaftafelli, Heiðmörk 23 í Hveragerði. Farið er fram á að málinu verði vísað aftur til úrvinnslu bæjaryfirvalda vegna vankanta á afgreiðslu þess þegar það var tekið fyrir í bæjarstjórn Hveragerðis 10. desember sl. og að ákvörðun um niðurrif á húsinu verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er fengin. Kæran ásamt bréfi frá úrskurðarnefndinni dags. 14. desember sl., þar sem Hveragerðisbæ er gefinn kostur á að tjá sig um kæruna var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs þann 17. desember sl. og var skipulagsfulltrúa falið að svara erindinu, sem hann hefur nú þegar gert.

Afgreiðsla máls:
Málið lagt fram til kynningar.

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?