Fara í efni

Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks

10. fundur 29. október 2025 kl. 17:00 - 19:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Valkyrja Sigrún Sigurðardóttir formaður
  • Harpa Björnsdóttir aðalmaður
  • Brynja Sif Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Sigurður Bjarni Jónsson aðalmaður
  • Sveinn Friðriksson aðalmaður
  • Margrét Svanborg Árnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Nína Kjartansdóttir starfsmaður
  • Röðull Reyr Kárason starfsmaður
Fundargerð ritaði: Nína Kjartansdóttir Ráðgjafaþroskaþjálfi
Dagskrá
Gestir fundarins: Erna Harðar Sólveigardóttir deildarstjóri velferðarþjónustu Hveragerðisbæjar, Kolbrún Tanja Eggertsdóttir forstöðumaður stuðningsþjónustu Hveragerðisbæjar og Sandra Sigurðardóttir bæjarfulltrúi og formaður velferðar- og fræðslunefndar Hveragerðisbæjar. Sátu þær fundinn fyrstu þrjá dagskrárliði og voru til áheyrnar sem og til frásagnar á núverandi yrirkomulagi og stöðu stuðningsþjónustumála í Hveragerði.

1.Stuðningsþjónusta Hvergerðisbæjar - Sjálfstætt líf

2510103

Fjallað um Stuðningsþjónustu Hveragerðisbæjar og hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf. Markmið umræðunnar er að skoða hvernig þjónustan á að styðja við sjálfstæða búsetu og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu í samræmi við ríkjandi hugmyndafræði í þjónustu við fatlað fólk og réttindasjónarmið út frá lögum, reglum og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ræddar voru reglur Hveragerðisbæjar um stuðningsþjónustu og reglur Bergrisans bs. um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Erna Harðar Solveigardóttir deildarstjóri velferðarþjónustu Hveragerðisbæjar og Kolbrún Tanja Eggertsdóttir forstöðumaður stuðningsþjónustu Hveragerðisbæjar sögðu frá núverandi fyrirkomulagi stuðningsþjónustunnar. Þær sögðu einnig lauslega frá Gott að eldast og frá hugmyndum að endurmótun stuðningsþjónustu fyrir fólk undir 60 ára aldri sem nú er einnig í vinnslu hjá Fræðslu- og velferðarsviði.

2.Frumkvæðisskylda sveitarfélaga

2510104

Umfjöllun um frumkvæðisskyldu sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Umræða um lagalega skyldu sveitarfélaga til að tryggja viðeigandi og samfellda þjónustu, óháð formlegri umsókn, í samræmi við réttindasjónarmið og markmið Laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
Rýnt sameiginlega í fylgiskjöl dagskrárliðs og fjallað um hvað felst í frumskvæðisskyldu sveitarfélaga. Starfsmaður velferðarþjónustu útskýrði verklag starfsmanna Fræðslu-og velferðarsviðs við vinnslu umsókna um þjónustu sveitarfélagsins og hvernig starfsmenn sinna frumkvæðisskyldu sinni í velferðarþjónustu.

3.Umræða og tillögur vegna stuðningsþjónustu Hveragerðisbæjar

2510105

Markmið umræðunnar er að fara yfir núverandi fyrirkomulag þjónustunnar, meta þörf á endurskoðun og þróunarvinnu og leggja fram tillögur sem styðja við markmið um samfellda, sveigjanlega og einstaklingsmiðaða þjónustu fyrir fatlað fólk á heimilum sínum.
Fram fór mjög gagnlegt samtal um stöðuna eins og hún er í Hveragerði í dag og hvað mætti gera betur. Fulltrúar samráðshóps eru sammála um að við endurmótun stuðningsþjónustu sveitarfélagsins skuli huga að því að Hveragerðisbær tryggi fólki á öllum aldri viðeigandi stuðningsþjónustu í samræmi við lög og reglur.

Samráðshópur þakkar Ernu og Kolbrúnu kærlega fyrir komuna og sér fram á áframhaldandi gott samtal varðandi stuðningsþjónustu Hveragerðisbæjar fyrir bæjarbúa með fatlanir og langvarandi stuðningsþarfir.

4.Stefnumótun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til ársins 2030

2509139

Fjallað um Stefnumótun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til ársins 2030. Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar 1. október sl. var samþykkt að vísa erindi HSU frá 16. september 2025 til nánari umfjöllunar í samráðshópi um málefni fatlaðs fólks í Hveragerði en í erindinu er óskað eftir ábendingum og hugmyndum sveitarfélaga sem nýst geta við mótun framtíðarstefnu stofnunarinnar. Markmið umræðunnar er að leggja fram sjónarmið samráðshópsins með áherslu á þjónustu og aðgengi fyrir fatlað fólk.
Samráðshópur ræddi hugmyndir og ábendingar varðandi mótun framtíðarstefnu stofnunarinnar. Samráðshópur leggur það í hendur starfmanns samráðshóps að taka saman ábendingarnar og koma áleiðis til HSU.

Samráðshópur þakkar bæjarráði fyrir gefa samráðshópi tækifæri til að koma áleiðis ábendingum til HSU vegna stefnumótun HSU til ársins 2030.
Fundargerð yfirfarin og samþykkt

Fundi slitið kl. 19:00

Fundi slitið - kl. 19:00.

Getum við bætt efni síðunnar?