Fara í efni

Fræðslunefnd

127. fundur 30. apríl 2018 kl. 17:00 - 18:42 Skólamörk 6
Nefndarmenn
  • Birkir Sveinsson
  • Bjarney Sif Ægisdóttir
  • Hjalti Helgason
  • Dagbjört Helga Guðmundsdóttir fulltrúi sveitarfélagsins Ölfus
  • V. Baldur Guðmundsson fulltrúar sveitarfélagsins Ölfus
Starfsmenn
  • Sævar Þór Helgason skólastjóri GíH
  • Gunnar Hlíðdal Gunnarsson fulltrúi kennara við GíH
  • Alda Pálsdóttir fulltrúi foreldra
  • Jónína Þórarinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri Undralands
  • Gunnvör Kolbeinsdóttir leikskólastjóri Óskalands
Fundargerð ritaði: Matthea Sigurðardóttir aðstoðarskólastjóri GíH

Birkir formaður nefndarinnar setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Eftirfarandi fært til bókar:

  1. Málefni leikskóla
    • Skýrslur leikskólastjóra.

Óskaland
Hefðbundnu vetrarstarfi lýkur með opnu húsi fimmtudaginn 3.maí n.k. Þá koma foreldrar og aðrir aðstandendur og skoða afrakstur vetrarstarfsins.
Útskrift elstu barna verður 31. maí. Í ár útskrifast 18 börn frá Óskalandi. Mörg þeirra hætta í leikskólanum við byrjun sumarleyfis 18. júní og verður strax hægt að byrja aðlögun nýrra barna í lok júlí er leikskólinn opnar aftur.
Samstarf við Grunnskólann með elstu nemendum leikskólans hefur verið hefðbundið með reglulegum heimsóknum og sameiginlegum gönguferðum 1.bekkinga og elsta árgangi leikskólans.
Um miðjan maí verður árleg öryggisvika, þá koma lögregla, sjúkra – og slökkvilið í heimsókn í leikskólann og fræða börnin um öryggi. Í framhaldinu verður brunarýmingaræfing.
All margir nemendur og kennarar Tónlistarskólans komu í heimsókn 23. apríl s.l. og spiluðu og sungu fyrir börnin. Slíkar heimsóknir auðga starfið og vekja áhuga margra á fjölbreytileika tónlistariðkunar.
Fjórir starfsmenn hafa stundað nám við HÍ og HA í vetur. Töluverð fjarvera fylgir nemum er þeir fara í staðarlotur í námi sínu.

Undraland
Þrír starfsmenn eru í veikindaleyfi og er óvíst hvenær þeir koma til baka. Þrír ráðnir í afleysingar, tveir verða áfram og einn hættir.
Mikið hefur verið um fjarveru bæði vegna lang- og skammtíma veikinda og álag á deildum.
Auglýst verður fljótlega eftir leikskólakennurum og deildastjórum.

Mikið hefur verið um heimsóknir leikskóla til okkar bæði leikskólar fyrir austan og úr Reykjavík. Hóparnir eru oftast um 30 manna. Frá áramótum eru yfir 150 manns búnir að fá kynningu og kaffi.

Vetrarstarfið, vorönn í Leikur að læra er að ljúka og við taka vettvangsferðir og þemavinna.
Foreldraviðtöl eru í fullum gangi og er ánægjulegt að sjá foreldra gefa sér góðan tíma í þessa fundi og sýna starfi leikskólans áhuga.
Starfsmannaviðtölin koma síðan í kjölfarið og verða í maí.
Samstarf leik- og grunnskóla stendur enn yfir og verða skil frá okkur 2. maí.
Útskrift og opið hús verður 31. maí. Ekki er kominn dagsetning á útskriftarferð skólahópsins.

 

  1. Erindi frá foreldrafélagi leikskólanna

Nefndin samþykkti að taka erindið fyrir, þó það hefði borist eftir að dagskrá var gefin út.
Nefndin leggur til að stjórnendur leikskólanna geri könnun meðal starfsmanna og foreldra hvernig þessum málum verið best fyrir komið. Málið verði í framhaldinu afgreitt þannig að hægt sé að taka tillit til erindisins við gerð skóladagatals leikskólanna fyrir árið 2018-19.

  1. Málefni Grunnskólans
    • Skýrsla skólastjóra.

Sævar Þór flutti skýrslu skólastjóra.

  • Frá síðasta fundi fræðslunefndar er margs að minnast og vert að færa í fundargerð fræðslunefndar.
  • Haldnar hafa verið glæsilegar árshátíðir allra stiga þar sem mikil vinna og umtalsvert nám fór fram við undirbúning og sýningar. Nemendur yngsta – og miðstigs dönsuðu á Skyr að þessu sinni.
  • Glæsilegt lestrarátak tengt ævintýrum hófst formlega 4. apríl. Boðaði lestrarhópur skólans til fundar í skólanum sem var vel sóttur, Gunnar Helgason rithöfundur og leikari var með framsögu á fundinum.
  • Skólinn fékk vel heppnaða heimsókn frá Rauða Krossinum, verkefni sem nefnist; „Þrír dagar“ og var fyrir miðstig.
  • Enn eitt árið fagnar skólinn góðum árangri í enskri smásagnakeppni og fór fríður flokkur til Bessastaða til að taka við verðlaunum fyrir verk sín.
  • Heilsueflingarhópur skólans fékk Pálmar Ragnarsson til að halda fyrirlestur um mikilvægi jákvæðra samskipta. Eins boðaði heilsueflingarhópurinn til fundar í skólanum þar sem boðið var upp á kynningu á störfum hópsins. Kolbrún Vilhjálmsdóttir fjallaði um skjánotkun, svefn og kvíða. María Rún Þorsteinsdóttir flutti erindi um næringu, nesti og heilbrigt líferni.
  • Magnús Stefánsson fundaði með foreldrum og nemendum 5. bekkja um forvarnir.
  • Nemendur mið- og elsta stigs héldu kynjaviku hátíðlega 9.-13. apríl þar sem drengir gengu töflu Ö-bekkja og stúlkur H-bekkja.
  • Skólinn er þátttakandi í verkefninu Forritarar framtíðarinnar og hefur fyrsta námskeiðið fyrir kennara verið haldið hér í skólanum.
  • Nemendur 7. bekkja fengu umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl síðastliðinn. Segja má að þetta umhverfisverkefni hafi fengið góða umfjöllun meðal annars í fréttum RÚV.
  • Nemendur 6. bekkja GíH og GíÞ fengu heimsókn frá Þjóðleikhúsinu og leiksýninguna um Odd og Sigga.
  • Á næsta skólaári mun skólinn ásamt leikskólum og bæjaryfirvöldum vinna ásamt Umferðarstofu að eflingu umferðaröryggis í sveitarfélaginu.
  • Sævar Þór ræddi um starfsmannamál.
    • Skóladagatal 2018/2019

Skóladagatal lagt fram til kynningar.

  1. Skipurit stjórnunar í Grunnskólanum
    • Tillaga skólastjóra um nýjar stöður deildarstjóra

Fræðslunefnd Hveragerðisbæjar leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki tillögu skólastjóra um breytingu á skipuriti stjórnunnar til eins árs, sem verði eftirfarandi:

  • Skólastjóri
  • Aðstoðarskólastjóri
  • Deildarstjóri náms og kennslu 1.- 4. bekk
  • Deildarstjóri náms og kennslu 5.-7. bekk
  • Deildarstjóri náms og kennslu 8.-10. bekk

Það er von fræðslunefndar að við þessa breytingu muni faglegt starf skólans eflast ásamt því að stuðningur við nemendur og starfsfólk verði enn betri.

Getum við bætt efni síðunnar?