Fara í efni

Bæjarráð

829. fundur 01. febrúar 2024 kl. 08:00 - 11:17 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir formaður
  • Sandra Sigurðardóttir varamaður
    Aðalmaður: Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
  • Alda Pálsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Íris Bjargmundsdóttir Bæjarritari
Fundargerð ritaði: Íris Bjargmundsdóttir bæjarritari
Dagskrá
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram. Í upphafi fundar lagði formaður til breytingu á dagskrá fundarins. Lagt var til að mál er varðar fundargerð skólanefndar yrði tekið af dagskrá fundarins þar sem fundargerðir nefnda ber að leggja fyrir bæjarstjórn til kynningar eða afgreiðslu og staðfestingar sbr. 38. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Hveragerðisbæjar nr. 923/2023. Var dagskrárgerðarbreytingin samþykkt samhljóða.

1.Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg frá 24. janúar 2024

2401098

Í bréfinu er greint frá framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna framhaldsnáms í tónlist í nóvember - desember 2023 og kostnaðarskiptingu sveitarfélaga í Árnessýslu.
Lagt fram til kynningar.

2.Bréf frá Innviðaráðuneytinu frá 18. janúar 2024

2401101

Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum og/eða sjónarmiðum frá sveitarfélögum varðandi breytingu á lögum um innheimtu gjalda vegna skipulagsmála og lóðaúthlutana.
Bæjarráð felur skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að svara erindinu.

3.Reglur Bergrisans bs. um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

2401112

Reglur Bergrisans bs. um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir lagðar fram til samþykktar.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja reglur Bergrisans bs. um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

4.Samningur um barnaverndarþjónustu á milli Hveragerðisbæjar og Ölfuss

2401099

Samningur um barnaverndarþjónustu á milli Hveragerðisbæjar og Ölfuss lagður fram til samþykktar.
Bæjarráð samþykkir að fresta málinu þar sem bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum 25. janúar 2024 að vísa samningnum til umfjöllunar í fjölskyldu- og fræðslunefnd sveitarfélagsins.

5.Breyting á samþykkt um stjórn og fundarsköp Hveragerðisbæjar

2401128

Lögð fram drög að breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp Hveragerðisbæjar nr. 923/2023 og minnisblað bæjarritara Hveragerðisbæjar. Í minniblaðinu er lagt til að gerðar verði breytingar á samþykktinni er varðar tímafrest á fundarboðun nefnda og skipan íþróttamála hjá nefndum Hveragerðibæjar auk breytinga er varðar skipan barnaverndarþjónustu.
Bæjarfulltrúi D-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Nýr meirihluti lagði mikla áherslu á að endurskipuleggja allt nefndarstarf hjá Hveragerðisbæ. Afrakstur þeirra vinnu var að stærstan hluta síðasta árs voru allar nefndir bæjarins óstarfhæfar. Enn hafa ekki allar nefndir komið saman og margar þeirra eru að reyna að fóta sig í þessu breytta fyrirkomulagi þar sem fáir ef nokkrir vita í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Fulltrúar D-listans hafa nú í rúmt ár gert athugasemdir við að íþróttastarf í Hveragerði á hvergi heima í nýju nefndaskipulagi. Fyrir það fyrsta er aðstaðan bágborin sem sakir standa og svo til að kóróna allt saman þá fjallar engin nefnd um íþróttamál.

Fulltrúar D-listans fagna því að nú fari málefni íþrótta aftur heim í þá nefnd sem þær tilheyrðu fyrir þessar breytingar. En gera jafnframt athugasemd við það að áður en bæjarráð hefur fjallað um breytingar á erindisbréfi nefndarinnar, er þegar búið vísa málum til umfjöllunar í umræddri nefnd án þess að erindisbréf þeirrar nefndar hafi verið lagfært.

Alda Pálsdóttir

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja þær breytingar sem lagðar eru til í lið 1 og 2 í minnisblaði en að breytingar sem lagðar eru til í liði 3 verði frestað.

6.Samningar um uppbyggingu leikskólans Óskaland

2401127

Lagðir fram samningar um uppbyggingu leikskólans Óskaland. Um er að ræða eftirfarandi samninga:

Kaupskyldusamningur varðandi fasteignina Réttarheiði 45, Hveragerði, dags. 29. janúar 2024.

Leigusamningur milli Eikar hf. og Hveragerðisbæjar, dags. 29. janúar 2024.

Yfirlýsing um samstarf vegna uppbyggingar Óskalands leikskóla, dags. 29. janúar 2024.

Viðauki 2 við yfirlýsingu um samstarf vegna uppbyggingar Óskalands leikskóla, dags. 29. janúar 2024.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Allt frá því að núverandi meirihluti tók við hefur verið unnið að styttingu biðlista leikskólabarna og hvernig hægt yrði að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við nýjan 6 deilda leikskóla í Kambalandinu sem gert var ráð fyrir að yrði opnaður veturinn 2024-25. Sömuleiðis að finna lausn á þeim háa kostnaði sem kostnaðaráætlun þess leikskóla hljóðaði upp á eða um 1300 milljónir kr.

Samtímis fjölgun leikskóladeilda í Hveragerði þurfti að finna lausn á bágri aðstöðu starfsfólks Óskalands en fyrir lá tilboð í viðbyggingu uppá 250 milljónir kr. til þess að leysa það mál.

Fyrir sveitarfélag eins og Hveragerði er það heilmikið mál að ráðast í framkvæmdir sem þessar svo ekki sé minnst á aðrar fjárfrekar framkvæmdir sem eru vinnslu í sveitarfélaginu. Því þarf stundum að leita nýrra lausna sem varð niðurstaðan tilbúnar færanlegar einingar sem tæki mun skemmri tíma að reisa og allur kostnaður mun lægri.

Eftir yfirlegu, hvernig leysa mætti á sama tíma aðstöðumál Óskalands, var tekin sú ákvörðun að slá nokkrar flugur í einu höggi og fara í stækkun Óskalands og geyma Kambalandið til betri tíma.

Var því öll vinna sett í gang að hanna stækkun Óskalands og á sama tíma að hanna bætta aðstöðu fyrir starfsfólkið. Um er að ræða fullbúna 4 deilda viðbyggingu, samtals 586 m2, sem tengd verður við leikskólann með 13 m2 tengibyggingu og mun stækkunin uppfylla allar reglugerðir um leikskólabyggingar

Áætlað er að nýja viðbyggingin verði tekin í notkun í lok september 2024. Það mun þýða að leikskólaplássum í Hveragerði fjölgar um 50 og við það tæmast biðlistar eftir leikskóla í Hveragerði.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir

Fulltrúi minnihlutans lagði fram eftirfarandi bókun:
Lítið hefur farið fyrir faglegum vinnubrögðum við stjórnsýsluna í Hveragerði á þessu kjörtímabili og enn síður gagnsæi hennar. Á síðastliðinn þriðjudag birtist fréttatilkynning á heimasíðu Hveragerðisbæjar þess efnis að undirritaður hafi verið þríhliða samningur milli Hveragerðisbæjar, byggingaraðilans Hrafnhóls og fasteignafélagsins Eikar sem mun fjármagna stækkunina við leikskólann Óskaland. Fulltrúum D-listans brá heldur í brún þar sem engin umfjöllun hefur verið um tilurð þessa þríhliða samnings við minnihlutann. Það sem okkur þykir enn fremur alvarlegt er að bæjarstjóri hafi kvittað undir þennan samning fyrir hönd Hveragerðisbæjar án samráðs við alla hlutaðeigendur. Þannig er að Ölfus á 9% í leikskólanum Óskalandi og því getur varla talist löglegt að undirrita samning sem slíkan án samráðs, leyfis og undirritunar beggja eigenda.

Þríhliða samningurinn sem liggur fyrir fundi bæjarráðs er ekki í samræmi við þær umræður sem hafa verið verið kynntar vegna viðbyggingarinnar. Óskar fulltrúi D-listans eftir því að fjármögnun viðbyggingarinnar við leikskólann Óskaland verði skoðuð af óháðum aðila og niðurstaðan birt öllum fulltrúum bæjarstjórnar. Nokkur sveitarfélög hafa farið þessa leið við fjármögnun byggingar skólahúsnæðis sem meirihlutinn hefur nú valið. Það verður að segjast að þessi leið er ein sú versta sem hægt er að velja og mun verða þess valdandi að eignir bæjarfélagsins rýrna ásamt því að auka verulega rekstrarkostnað bæjarfélagsins, um marga tugi milljóna króna á hverju ári, til margra áratuga. Það er líklega rétt að rifja upp fyrir fulltrúum meirihlutans að þeir eru að höndla með fjármuni bæjarbúa í dag og til framtíðar.

Þá vara bæjarfulltrúar minnihlutan við þeim hugmyndum meirihlutans að selja leikskólann Óskaland og endurleigja hann af væntum kaupanda. Þessi leið leiddi til dæmis stórt sveitarfélag í miklar fjárhagskröggur fyrir all nokkrum árum. Við teljum óvarlegt að feta í þau fótspor.

Af þessum ástæðum hér að ofan greiðir fulltrúi D-listans á móti.

Alda Pálsdóttir

Kl. 08:59 var gert fundarhlé.
Kl. 09:49 hélt fundur áfram.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Samningar þeir sem hér eru lagðir fram marka tímamót í sögu Hveragerðisbæjar samhliða annarri uppbyggingu innviða í bæjarfélaginu á stærri skala en áður hefur komið til. Eins og fram kemur í fyrri bókun fulltrúa meirihlutans hefur verið lögð mikil vinna í undirbúning þessa verkefnis samhliða öðrum uppbyggingarverkefnum á vegum bæjarins og er starfsfólki þakkað fyrir vel unnin störf í þessu verkefni sem og öðrum. Meirihluti bæjarstjórnar hefur með starfsfólki bæjarins lagt kapp á að leita leiða og lausna til að standa vörð um þjónustu og rekstur bæjarfélagsins og sjá tækifæri í nýjum leiðum sem styðja við þau markmið.

Fjallað hefur verið um málefni viðbyggingar leikskólans Óskalands allt frá því undirbúningur útboðs hófst á vegum bæjarstjórnar þar sem fulltrúar allra flokka hafa fengið greinargóðar og skýrar upplýsingar um þær framkvæmdir sem væru framundan og að ákveðið hefði verið að fara þá leið að fá einkaaðila til að byggja viðbygginguna og bæjarfélagið leigði bygginguna. Þessi leið hefur verið talin góður kostur af hálfu margra opinberra aðila sem hafa kosið að nýta sér þessa leið og hefur verið tryggt við samningagerðina að hagsmunir bæjarins séu mjög vel tryggðir gagnvart mögulegum atriðum sem upp hafa komið hjá öðrum sveitarfélögum í tengslum við slíka samninga í gegnum tíðina. Það er því afar gleðilegt að geta með þessm hætti þurrkað út biðlista á leikskólum í bæjarfélaginu með jafn hagkvæmum hætti án teljandi skuldsetningar, bæjarsjóði og öllum íbúum til hagsbóta.

Á fyrri stigum hefur komið til þess að bæjarfulltrúar minnihlutans hafi lekið trúnaðargögnum í undirbúningi slíkra verkefna á vegum bæjarins og hefur það því miður leitt til þess að erfiðleikar hafa verið uppi varðandi framkvæmd samráðs um samninga af þessu tagi við fulltrúa minnihlutans. Þrátt fyrir það hefur meirihluti bæjarstjórnar leitast við opið samtal og samráð við fulltrúa minnihlutans við slík verkefni. Upplýsingar um framvindu verkefnisins hefur verið veitt bæði munnlega og skriflega til fulltrúa minnihlutans innan og utan funda bæjarráðs og bæjarstjórnar. Síðast var á fundi bæjarráðs þann 18. janúar sl. bókað sérstaklega um eftirfarandi:

„Þess ber að geta að nú er samningagerð á lokametrum vegna stækkunar leikskólans Óskalands og munu þeir samningar vera lagðir fyrir bæjarráð þann 1. febrúar næstkomandi.“

Það ætti því ekki að koma fulltrúum minnihlutans á óvart að þessir samningar séu nú lagðir fram til samþykkis, undirritaðir af hálfu bæjarstjóra með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Samningar eru að öllu leyti í samræmi við það upplegg sem hefur verið rætt á fyrri stigum á vegum bæjarstjórnar og bæjarráðs.

Fulltrúar meirihluta í bæjarráði telja það skjóta skökku við að listi sem kenni sig við að ýta undir einkaframtakið loki augunum fyrir ákveðnum leiðum í rekstri og þjónustu Hveragerðisbæjar sem fela í sér samstarf við einkaaðila. Er það miður að með því sé af hálfu minnihlutans þar með lokað af þeirra hálfu fyrir tækifæri sem felast í slíkum lausnum.

Hveragerðisbær og Ölfus hafa átt í góðu samstarfi og samtali vegna uppbyggingar húsakosts fyrir skólaþjónustu í bæjarfélaginu á grundvelli samkomulags um hlutdeild Ölfuss í rekstri og húsbyggingum fyrir þjónustuna. Gott samtal hefur verið á milli sveitarfélaganna um fyrirséðan kostnað við þær leiðir sem ákveðið hefur verið að fara í uppbyggingu frekari húsakosts á sviðinu. Fjárhagsáætlun beggja sveitarfélaga gerir ráð fyrir þessum framkvæmdum í viðeigandi hlutfalli. Bæjarfulltrúar meirihlutans árétta þó að Hveragerðisbær hefur fullt forræði á því hvernig staðið er að uppbyggingu á húsakosti fyrir skólaþjónustu hjá bæjarfélaginu.

Það er því fagnaðarefni að með þessari framkvæmd skapast 50 leikskólapláss sem tæmir biðlista leikskólaplássa í bæjarfélaginu.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir

Meirihluti bæjarráðs leggur til við bæjarstjórn að samþykkja samningana.
Minnihluti bæjarráðs er á móti.

7.Verkáætlun fráveitu 2024 - 2025

2401126

Lögð fram breyting á verkáætlun vegna fráveitu.
Verkáætlun lögð fram til kynningar. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja verkbeiðni 2 og 3 vegna fráveituráðgjafar.

8.Ræstingar hjá Hveragerðisbæ

2312247

Samingur um ræstingar á milli Hveragerðisbæjar og Nacu ehf. til samþykktar.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja samninginn.

9.Umsókn um lóð

2312213

Bucs ehf. sækir um lóðina Álfaklettur 1-3 og lóðina Álfafell 1-3 til vara.
Bæjarráð samþykkir að úthluta Bucs ehf. lóðinni Álfakletti 1-3 í samræmi við reglur um úthlutun lóða.

10.Umsókn um lóð

2312214

Bucs ehf. sækir um lóðina Álfafell 1-3 og lóðina Álfaklettur 2-6 til vara.
Bæjarráð samþykkir að úthluta Bucs ehf. lóðinni Álfafelli 1-3 í samræmi við reglur um úthlutun lóða.

11.Umsókn um lóð

2312212

Bucs ehf. sækir um lóðina Álfaklettur 2-6 og lóðina Álfaklettur 1-3 til vara.
Bæjarráð samþykkir að úthluta Bucs ehf. lóðinni Álfakletti 2-6 í samræmi við reglur um úthlutun lóða.

12.Umsókn um lóð

2401039

Leiktæki og Sport ehf. sækja um lóðina Vorsabær 15 og lóðina Vorsabær 13 til vara.

Bæjarráð samþykkir að úthluta Leiktækjum og sport ehf. lóðinni Vorsabær 15 í samræmi við reglur um úthlutun lóða.

13.Áætlun um innleiðingu á stefnu Hveragerðisbæjar

2401050

Á fund bæjarráðs mætti fulltrúi frá KPMG ásamt menningar-, atvinnu- og markaðsfulltrúa Hveragerðisbæjar og kynntu stefnu Hveragerðisbæjar 2023-2028.
Bæjarráð þakkar KPMG fyrir greinargóða kynningu og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við innleiðingu á samþykktri stefnu bæjarins.

14.Verkfundargerð - Hlíðarhagi frá 10. janúar 2024

15.Verkfundargerð - Grunnskólinn í Hveragerði 16. janúar 2024

2401104

Fundargerðin samþykkt.

16.Verkfundargerð - Grunnskólinn í Hveragerði 29. janúar 2024

2401125

Fundargerðin samþykkt.

17.Fundargerð SASS frá 12. janúar 2024

2401103

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundargerð Bergrisans frá 9. október 2023

2401106

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

19.Fundargerð Bergrisans frá 9. nóvember 2023

2401107

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

20.Fundargerð Bergrisans frá 20. nóvember 2023

2401108

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

21.Fundargerð Bergrisans frá 4. desember 2023

2401109

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

22.Fundargerð Bergrisans frá 12. desember 2023

2401111

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerðin upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 11:17.

Getum við bætt efni síðunnar?