Fara í efni

Bæjarráð

669. fundur 16. febrúar 2017 kl. 08:00 - 08:35 í fundarsal Sunnumörk 2
Nefndarmenn
  • Unnur Þormóðsdóttir formaður
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Garðar R. Árnason
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Unnur Þormóðsdóttir formaður setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá innanríkisráðuneytinu frá 6.febrúar 2017.

1702023

Í bréfinu er óskað eftir umsögnum um drög að reglugerð um útlendingarmál.
Lagt fram til kynningar.

2.Bréf frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis frá 10.febrúar 2017.

1702026

Í bréfinu er óskað eftir umsögnum um frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga, 128. mál.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 10.febrúar 2017.

1702024

Í bréfinu er boðað til fundar um fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem eru nú í mótun af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í samvinnu við innanríkisráðuneytið og sambandið, á grundvelli laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Fundurinn verður haldinn á Grand hótel í Reykjavík 20. febrúar n.k.
Lagt fram til kynningar en bæjarstjóri mun mæta á fundinn fyrir hönd bæjarins.

4.Bréf frá Lánsjóði sveitarfélaga frá 10.febrúar 2017.

1702022

Í bréfinu er óskað eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður 24. mars n.k.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá stúkunni Geysir frá 23.janúar 2017.

1702016

Í bréfinu óskar Stúkan Geysir eftir styrk frá Hveragerðisbæ.
Því miður sér bæjarráð sér ekki fært að verða við erindinu en telur þó að mögulega geti bæjarfélagið með einhverjum hætti nýtt sér húsnæði stúkunnar. Um slík afnot verði þá samið sérstaklega ef af verður.

6.Bréf frá félaginu Leiðin út á Þjóðveg frá 13.febrúar 2017.

1702025

Í bréfinu óskar félagið Leiðin út á Þjóðveg eftir styrk frá Hveragerðisbæ.
Starf félagsins virðist vera nokkuð öflugt og greinilegt að þörf er fyrir starfsemi af þessu tagi í bæjarfélaginu. Bæði er gert ráð fyrir ungliða starfi og félagsstarfi fyrir þá sem eldri eru og framundan eru opnir fundir, námskeið og fleira.

Bæjarráð samþykkir að styrkja félagið með 250 þúsund krónur fyrir árið 2017 og óskar um leið eftir skýrslu frá félaginu í lok árs þar sem gerð verði grein fyrir starfsemi félagsins.

7.Bréf frá Fjölís frá 1. febrúar 2017.

1702017

Í bréfinu óskar Fjölís eftir að Hveragerðisbær gangi til samninga við þá vegna afritunar verndaðra verka.
Bæjarráð samþykkir að ganga til samninga við Fjölís á grundvelli samningsfyrirmyndar sem lögð er fyrir fundinn. Bæjarstjóra er falið að undirrita samninginn fyrir hönd bæjarins.

8.Fjármögnun nauðsynlegra framkvæmda á stofnvegum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

1702027

Vegna umræðu um fjármögnun nauðsynlegra framkvæmda á stofnvegum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lagði bæjarráð fram eftirfarandi bókun.
Bæjarráð Hveragerðisbæjar mótmælir hugmyndum um veggjald sem ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefur viðrað sem forsendu fyrir framkvæmdum við bættan Suðurlandsveg.

Greinargerð:
Samkvæmt vegaáætlun eiga framkvæmdir við breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss að hefjast árið 2018. Hönnun vegkaflans hefur verið boðin út og er þegar hafin. Verður þessi áfangi bylting hvað varðar umferðaröryggi á þessari fjölförnu og hættulegu leið.
Umræða nú um mögulegt veggjald sem lagt yrði á vegfarendur sem aka um stofnbrautir út af höfuðborgarsvæðinu kemur á óvart enda var slík umræða tekin árið 2010/2011 og hlaut hún þá lítinn hljómgrunn.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar barðist þá gegn slíkum áformum enda talið að hér væri skýrt dæmi um landsbyggðartoll að ræða. Fátt hefur gerst sem breytir fyrri skoðun bæjarstjórnar og því mótmælir bæjarráð nú þeim hugmyndum um veggjald sem ráðherra hefur viðrað sem forsendu fyrir
framkvæmdum við bættan Suðurlandsveg og aðrar stofnbrautir út úr Reykjavík.

Rétt er að minna á að nú þegar greiða allir bifreiðaeigendur skatta til ríkisins í formi bifreiða- og eldsneytisgjalda. Með upptöku veggjalda er klárlega verið að tvískatta notendur umræddra vega á meðan að aðrir landsmenn greiða ekki sérstaklega fyrir úrbætur á vegakerfinu. Slíkt er algjörlega óásættanlegt og brýtur gegn jafnræði íbúa þessa lands.

Verði veggjald að veruleika er vegið að afkomu fjölda einstaklinga en auk þess snerta áformin með beinum hætti fjölda fyrirtækja sem daglega sjá til þess að nauðsynjar berist inná höfuðborgarsvæðið og veita þar mikilvæga þjónustu. Að reisa múra með þessum hætti umhverfis stærstu byggðarlög landsins er andstætt því samfélagi sem við viljum byggja upp þar sem ríkja ættu hindrunarlausar og góðar samgöngur milli byggðarlaga.

9.Verkfundargerð "Leikskóli Þelamörk 62" frá 7.febrúar 2017.

1702019

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

10.Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27.janúar 2017.

1702018

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerð stjórnar SASS frá 3. febrúar 2017.

1702021

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 3. febrúar 2017.

1702020

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 08:35.

Getum við bætt efni síðunnar?