Fara í efni

Bæjarráð

760. fundur 08. apríl 2021 kl. 08:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Í upphafi fundar samþykkti bæjarráð eftirfarandi bókun.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með fund menntamálaráðherra og allra bæjarfulltrúa Hveragerðisbæjar sem haldinn var í vikunni þar sem staða garðyrkjuskólans að Reykjum var rædd. Bæjarfulltrúar höfðu áður hitt starfsmenn að Reykjum þar sem farið var yfir málefni skólans auk þess sem bæjarstjóri hefur átt fundi með ráðherra og öðrum aðilum sem látið hafa sig málið varða að undanförnu.

Bæjarráð vonar að væntanleg tengsl garðyrkjunámsins við Fjölbrautaskóla Suðurlands (Fsu) verði farsæl. Mikilvægt er að stoðir garðyrkjunáms að Reykjum verði styrktar þannig að nám og kennsla geti dafnað til framtíðar og uppfyllt þannig þarfir atvinnulífsins fyrir hæft og vel menntað starfsfólk. Jafnframt að öll aðstaða og landsvæði að Reykjum muni áfram nýtast garðyrkjumenntun og ekkert verði gert sem takmarkar aðgang garðyrkjunámsins að þessu svæði.

Jörðin Reykir býr yfir miklum möguleikum til framtíðar. Notkun jarðarinnar er samtvinnuð uppbyggingu garðyrkju á Íslandi og því er mikilvægt að staðurinn fái, í samvinnu við græna geirann, tækifæri til að auka og efla starfsemi á staðnum. Garðyrkja og skólinn að Reykjum er samofin sögu og atvinnulífi Hveragerðisbæjar en einnig og ekki síður Suðurlands alls. Bæjarráð telur mikilvægt að þar haldi uppbygging áfram til framtíðar og treystir þeim orðum ráðherra að fljótlega muni nást farsæl niðurstaða í þetta mál.

1.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 18. mars 2021.

2103080

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísanir, dvalar- og atvinnuleyfi), 602. mál.
Lagt fram til kynningar.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 27. mars 2021.

2103083

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um almannavarnir (almannavarnastig o.fl.), 622. mál.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá 31. mars 2021.

2104003

Í bréfinu vekur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið athygli á að Alþingi samþykkti sl. föstudag frumvarp samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra um breytingar á ýmsum lögum vegna málefna sveitarfélaga og Covid-19 faraldursins. Með lögunum er m.a. tryggt að sveitarfélög hafi svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á íslenskt efnahagslíf og búskap hins opinbera. Jafnframt er sveitarfélögum auðveldað að koma til móts við rekstraraðila sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna faraldursins, þannig að sveitarfélög geti sýnt aukinn sveigjanleika við innheimtu og starfhæfi sveitarstjórna tryggt við óvenjulegar aðstæður, s.s. vegna farsóttar eða náttúruhamfara.
Lagt fram til kynningar.

4.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 17. mars 2021.

2103089

Í bréfinu segir frá nýrri reglugerð samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um starfsemi Fasteignasjóðs JS. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að veita aukinn stuðning til sveitarfélaga vegna úrbóta sem gerðar eru í aðgengismálum fatlaðs fólks.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 19. mars 2021.

2103084

Í bréfinu óskar Samband íslenskra sveitarfélaga eftir tilnefningu á fulltrúa í bakhóp á sviði húsnæðismála. Hópurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir umræðu um málefni leiguíbúða á vegum sveitarfélaga.
Bæjarráð samþykkir að tilnefna Drífu Þrastardóttur, þjónustufulltrúa í bakhópinn.

6.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 30. mars 2021.

2104006

Í bréfinu kemur fram að á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26. mars 2021 var lagt fram minnisblað með mati á stöðu verkefna í viðspyrnuáætlun sambandsins frá mars 2020. Eftirfarandi var bókað og samþykkt:
„Stjórn sambandsins þakkar fyrir framkomnar upplýsingar og telur að vel hafi tekist til við að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem eru í aðgerðaáætluninni. Jafnframt hvetur stjórnin sveitarfélög til að taka þátt í átakinu „Hefjum störf“.

Lagt fram til kynningar.

7.Bréf frá Brunabótafélagi Íslands frá 26. mars 2021.

2104002

Í bréfinu er auglýst eftir umsóknum í styrktarsjóð EBÍ fyrir árið 2021.
Bæjarráð er afar þakklátt styrktarsjóði EBÍ vegna þeirra styrkja sem sjóðurinn hefur veitt bæjarfélaginu en mörg af söguskiltum bæjarins sem nú eru vel á annan tug eru sett upp með dyggum stuðningi Styrktarsjóðs EBÍ. Bæjarráð telur rétt að freista gæfunnar einu sinni enn og felur bæjarstjóra að senda umsókn í sjóðinn fyrir gerð skiltis er gerir grein fyrir þjóðleiðum í og við Hveragerði.

8.Bréf frá Samtökum iðnaðarins frá 15. mars 2021.

2103085

Í bréfinu skora Samtök iðnaðarins á sveitarfélög að endurákvarða álagningu stöðuleyfisgjalda fyrir gáma.
Lagt fram til kynningar.

9.Bréf frá Bændasamtökum Íslands frá 16. mars 2021.

2103086

Í bréfinu skora Bændasamtök Íslands á sveitarfélög til að nota innlend matvæli í skólamáltíðum eins og kostur er, sérstaklega grænmeti, kjöt og fisk.
Í næringarstefnu mötuneyta skóla Hveragerðisbæjar er fjallað ítarlega um lýðsheilsumarkið og mikilvægi góðs og næringarríks fæðis. Þar einnig fjallað um gildi fjölbreyttrar fæðu sem fellur vel að þeim tilmælum sem Bændasamtökin fjalla um í bréfi sínu. Bæjarráð tekur undir það sjónarmið að innlendum afurðum beri að gera hátt undir höfði enda er áhrif þeirra á loftslag minna en innfluttra og heilnæmi þeirra oft á tíðum meira.

10.Bréf frá Ungmennafélagi Íslands frá mars 2021.

2104004

Í bréfinu er kynnt að ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði 2021 fer fram dagana 15. - 17. september í Héraðsskólanum á Laugarvatni.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til Menningar- íþrótta- og frístundanefndar.

11.Bréf frá Landhönnun ódagsett.

2103091

Í bréfinu óskar Landhönnun slf eftir stækkun á lóðinni Reykjamörk 22 og heimild til að hefja skipulagsgerð.
Friðrik Sigurbjörnsson vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð. Bryndís Eir Þorsteinsdóttir tók við fundarstjórn á meðan og Aldís Hafsteinsdóttir tók sæti á fundinum.
Bæjarráði líst vel á þær hugmyndir um uppbyggingu á Fagrahvammsreitnum sem þarna eru settar fram. Svæðið er miðsvæðis í Hveragerði og í næsta nágrenni við þjónustustofnanir svo sem grunnskólann og sundlaugina og hentar því einkar vel fyrir íbúðabyggð. Bæjarráð telur að eðlilegt geti verið að deiliskipulag myndi gera ráð fyrir að uppbygging á þessum tveimur lóðum sem getið er um í erindinu yrði á einni hendi en með því gæfist möguleiki á betri nýtingu, heildstæðara yfirbragði og skemmtilegri götumynd en ella gæti orðið. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Skipulags- og mannvirkjanefnd verði falið að skoða umrætt erindi með tilliti til framangreinds og leggja mat á hver næstu skref í málinu þurfa að vera. Skýrsla um varðveislumat gróðurhúsa í Hveragerði verði höfð til hliðsjónar.

12.Hlíðarhagi - aðveitulögn fráveitu - kostnaðaráætlun frá skipulagsfulltrúa.

2103090

Lagður fram tölvupóstur frá skipulagsfulltrúa þar sem hann telur tímabært að bjóða eigi út verkið aðveitulögn fráveitu í Hlíðarhaga.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að fara í útboð á verkinu. Kostnaði verði mætt með gatnagerðartekjum.

13.Verðkönnun vegna - endurnýjun gangstétta við Breiðumörk og Heiðmörk.

2103092

Opnun verðkönnunnar "endurnýjun gangstétta við Breiðumörk og Heiðmörk" fór fram 22. mars 2021. Eitt tilboð barst í verkið.

Bokki Garðar ehf 4.182.210.kr
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja tilboðið en verkið er í fjárhagsáætlun.

14.Drög að ársreikningi Hveragerðisbæjar 2020.

2104007

Lögð fram drög að ársreikningi Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020.
Bæjarráð samþykkir að undirrita ársreikninginn og að senda ársreikninginn til endurskoðenda og til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

15.Verkfundargerð frá 30. mars 2021 - Grunnskólinn í Hveragerði.

2103093

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

16.Verkfundargerð frá 18. mars 2021 - Sundlaugin Laugaskarði.

2103094

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

17.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26. mars 2021.

2103095

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundargerð SASS frá 24. mars 2021

2104005

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

19.Fundargerð Bergrisans frá 19. mars 2021.

2103096

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

20.Fundargerð Sorpstöðvar Suðurlands frá 22. febrúar 2021.

2103097

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?