Fara í efni

Bæjarráð

754. fundur 07. janúar 2021 kl. 08:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 17. desember 2020.

2101001

Í bréfinu óskar Velferðanefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, 354. mál.
Bæjarráð leggur áherslu á að farið verði ítarlega yfir þann kostnaðarauka sveitarfélaga sem felst í þeim frumvörpum að lögum sem lögð eru fram um farsæld barna og að þeim kostnaði verði að fullu mætt með auknum framlögum frá ríki.
Að öðru leyti lagt fram til kynningar.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 17. desember 2020.

2101002

Í bréfinu óskar Velferðanefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu, 355. mál.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 17. desember 2020.

2101003

Í bréfinu óskar Velferðanefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, 356. mál.
Lagt fram til kynningar.

4.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 15. desember 2020.

2101005

Með bréfinu fylgdu tillögur Velferðarvaktarinnar til ríkis og sveitarfélaga í mótvægisaðgerðum vegna COVID-19.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá Samtökum grænkera á Íslandi frá 29. desember 2020.

2101004

Í bréfinu hvetja bréfritarar til að dregið verði úr neyslu dýraafurða til að minnka kolefnisspor máltíða. Hvetja þau sveitarfélög til að bjóða upp á grænkerafæði í skólum landsins.
Bæjarráð þakkar góða hvatningu Samtaka grænkera á Íslandi. Í næringarstefnu sem samþykkt hefur verið af bæjarstjórn fyrir mötuneyti á vegum Hveragerðisbæjar er lögð rík áhersla á að bjóða upp á heilsusamlegt fæði og fjölbreytt
hráefnaval samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis. Í kjölfar hvatningar grænkera hvetur bæjaráð yfirmenn mötuneyta til að auka enn framboð á grænmeti og grænmetismáltíðum þó dýraafurðir, kjöt og fiskur verði áfram í boði í mötuneytunum.

6.Niðurstaða skoðanakönnunar um þjónustu sveitarfélaga 2020.

2101006

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, áheyrnarfulltrúi mætti á fundinn.

Lögð fram niðurstaða þjónustukönnunar sveitarfélaga 2020 sem framkvæmd var af Gallup.
Bæjarráð fagnar þeim niðurstöðum sem fram koma í þjónustukönnuninni sem sýnir enn og aftur að íbúar Hveragerðisbæjar skipa sér í hóp þeirra sveitarfélaga þar sem mest ánægja ríkir með þjónustu sveitarfélagsins. Áberandi er hversu ánægðir elstu íbúar sveitarfélagsins eru með þjónustu við þann hóp en enn og aftur ríkir í þeim hópi marktækt meiri ánægja en annars staðar á landinu.Í öllum spurningum er ánægja íbúa vel yfir meðaltali og í mörgum er ánægja eins og best gerist. Er það ánægjulegur vitnisburður um þá góðu vinnu sem starfsmenn Hveragerðisbæjar inna af hendi. Þjónustukönnun Gallup er gott tæki til að meta ánægju íbúa og hefur bæjarstjórn árlega nýtt sér þær niðurstöður til að gera sífellt betur. Það verður einnig gert nú með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.

7.Minnisblað frá skrifstofustjóra: Tekjutengdur afsláttur fasteignagjalda til öryrkja og ellilífeyrisþega vegna ársins 2021.

2101013

Lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra vegna viðmiðunartekna við útreikning tekjutengds afsláttar gjalda til öryrkja og ellilífeyrisþega vegna ársins 2021 (tekjur ársins 2020).
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að viðmiðunartekjur vegna tekjutengds afsláttar fasteignagjalda til öryrkja og ellilífeyrisþega hækki um 3,5% frá tölum ársins 2020 sem er sama hækkun og á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins milli áranna 2019 og 2020.

8.Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa frá 5. janúar 2020.

2101014

Í minniblaðinu er rætt um leigu á íþróttamannvirkjum vegna sérverkefna td. afmælisveislur.
Bæjarráð samþykkir tillögurnar sem fram koma í minnisblaðinu og leggur til við bæjarstjórn að íþróttamannvirki Hveragerðisbæjar séu ekki leigð undir afmæli nema fyrir börn á grunnskólaaldri sem búsett eru í Hveragerði. Afmælin verði undir eftirliti þjálfara frá Fimleikadeild Hamars sem ber ábyrgð á að umgengni við öll áhöld séu eftir reglum. Óskir um leigu skulu berast menningar- og frístundafulltrúa. Foreldrar/leigutaki bera fulla ábyrgð á þeim börnum sem sækja viðkomandi afmæli og skulu sjá til þess að trygingar fyrir hópinn séu í lagi enda ber Hveragerðisbær enga ábyrgð á þeim slysum og óhöppum sem kunna að eiga sér stað við svona aðstæður.
Leiga fyrir sal og aðstöðu fyrir veitingar í íþróttamannvirkjum verði 5.000 kr/2 kls árið 2021 ef laust pláss er á opnunartíma íþróttamannvirkjanna. Fimleikadeild setur gjaldskrá fyrir sína þjónustu. Afmæli skulu ávallt víkja fyrir annarri íþróttastarfsemi.
Fyrirkomulagið verði endurskoðað í árslok 2021.

9.Verkfundargerð frá 22. desember 2020 - Grunnskólinn í Hveragerði og rýnifundur um glugga og gluggaefni.

10.Fundargerð SASS frá 4. desember 2020.

2101008

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerð Byggingarnefndar Búðarstígs 22 frá 15. desember 2020.

2101009

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Fundargerð Byggðasafns Árnesinga frá 15. desember 2020.

2101010

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

13.Fundur lögreglustjóra með bæjar- og sveitarstjórum frá 15. desember 2020.

2101011

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?