Fara í efni

Bæjarráð

752. fundur 03. desember 2020 kl. 08:00 - 09:56 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.
Formaður lagði fram breytingartillögu um að við bættist liður nr 12 "Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 - Nýtt deiliskipulag - Skipulags- og matslýsing" sem var liður nr. 8 í fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar á fundi nefndarinnar þann 3. desember 2020.
Dagskrárbreytingartillagan samþykkt samhljóða.

1.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 25. nóvember 2020.

2011078

Í bréfinu óskar Velferðarnefnd Alþingis eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum, 104. mál.
Lagt fram til kynningar.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 25. nóvember 2020.

2011079

Í bréfinu óskar Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (markmið, áhættumat, sektir o.fl.), 311. mál
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 25. nóvember 2020.

2011080

Í bréfinu óskar Velferðarnefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof, 323. mál.
Bæjarráð fagnar framkomnu frumvarpi um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs í tólf mánuði. Mikil bót verður af þessari breytingu. Bæjarráð vill þó koma á framfæri þeirri skoðun að auka beri fjölda þeirra mánaða sem foreldrar geta deilt sín á milli. Bæjarráð telur að treysta verði foreldrum til að taka ákvarðanir hvað þetta varðar sem best henta hverri fjölskyldu fyrir sig. Aðstæður eru afar misjafnar og hætta er á að barnið fari á mis við þau réttindi sem 12 mánaða samvera með foreldrum sínum er ef fjölskyldan fær ekki tækifæri til að ráðstafa þessum tíma eins og best hentar.

Bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn fagnar frumvarpinu og styður það heilshugar.

4.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 27. nóvember 2020.

2011081

Í bréfinu óskar Atvinnuveganefnd Alþingis eftur umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, 322. mál.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 27. nóvember 2020.

2011082

Í bréfinu óskar Atvinnuveganefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð, 321. mál.
Lagt fram til kynningar.

6.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 30. nóvember 2020.

2012002

Í bréfinu óskar Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um skákkennslu í grunnskólum, 106. mál
Bæjarráð samþykkir eftirfarandi bókun:
Tillagan um skákkennslu í skólum landsins er ágæt og án vafa er það snjallt að hvetja nemendur til að tefla. Minnt er samt á að rekstur grunnskólans er á hendi sveitarfélaga og því er það vægast sagt sérstakt að sjá að í tillögunni er ekki gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga að því samráði sem þarna er stungið uppá. Einnig er minnt á að allar tillögur sem hafa kostnað í för með sér gagnvart sveitarstjórnarstiginu ber að kostnaðarmeta og ræða í framhaldinu hvernig sveitarfélögum verði bættur sá kostnaður sem af hugmyndaauðgi Alþingis hlýst.

7.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 1. desember 2020.

2012003

Í bréfinu óskar Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um félagsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, 113. mál.
Lagt fram til kynningar.

8.Bréf frá Sveitarfélaginu Skagafirði frá 26. nóvember 2020.

2011084

Í bréfinu skorar Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar á Reykjavíkurborg að draga til baka kröfu sína á hendur Jöfnunarsjóði og leita annarra leiða gangvart ríkisvaldinu til að ná fram þeirri leiðréttingu á framlögum sem borgin telur sig eiga rétt á. Skagfirðingar skora jafnframt á önnur sveitarfélög landsins að taka undir bókunina.
Bæjarráð lýsir yfir áhyggjum af 8,7 milljarða króna kröfu Reykjavíkurborgar á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna meintra vangoldinna framlaga og skorar á Reykjavíkurborg að draga kröfuna til baka. Höfuðborgin er kvött til að leita annarra leiða gagnvart ríkisvaldinu til að ná fram þeirri leiðréttingu sem borgin telur sig eiga rétt á og taka í staðin virkan þátt í endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðsins sem framundan er. Öllum má vera það ljóst að þegar sótt er fram gegn Jöfnunarsjóði með þessum hætti munu framlög til annarra sveitarfélaga skerðast sem því nemur, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra. Nái krafan fram að ganga þá eru það sveitarfélögin í landinu, í gegnum Jöfnunarsjóð, sem á endanum munu greiða kröfuna í formi skertra framlaga. Með því er ljóst að fjárhagsleg framtíð sveitarfélaga í landinu er í uppnámi.

9.Minnisblað frá bæjarstjóra - matarþjónusta til eldri íbúa og annarra í Hveragerði.

2012001

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 1. desmber 2020 vegna matarþjónustu til eldri íbúa og annarra í Hveragerði.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkt verði að verð fyrir matarbakka hækki og verði kr. 1.100,-. Fyrir akstur verði greiddar kr. 150,-. Samtals greiði notendur kr. 1.250,-pr. heimsendan bakka sem er, þrátt fyrir þessa hækkun, vel undir raunkostnaði. Með þessu móti mun bæjarfélagið greiða um 2,1 m.kr. á ári með heimsendum mat í staðinn fyrir 3,5 m.kr. eins og gert er í dag. Lagt er til að hækkunin taki gildi frá og með 1. janúar 2021.

10.Þjónustusamningur - Hveraportið.

2012005

Lagður fram þjónustusamningur milli Hveragerðisbæjar og Lóreley Sigurjónsdóttur þar sem hún fær afnot af Hveraportinu, Breiðumörk 21 að undanskyldu því rými sem leirlistakonur hafa þegar gert samkomulag um. Samingur þessi gildir til 31. desember 2020.
Bæjarráð samþykkir samninginn og samþykkir jafnframt að fela bæjarstjóra að auglýsa húsnæðið til framtíðarleigu með eðlilegum uppsagnafresti. Horft verður til þess að starfsemi sem þar komi til með að vera lífgi upp á bæjarbraginn og nýtist sem flestum. Umsækjendur skili umsóknum til bæjarráðs fyrir 1. febrúar 2021 þar sem gerð skal grein fyrir eðli þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er og tilboð gert í leigu fyrir húsið. Bæjarráð mun horfa meðal annar til þessara þátta við val sitt á leigutaka.

11.Opnun tilboða í verkið - Kambaland III áfangi 2020.

2011083

Opnun tilboða í verkið "Kambaland III áfangi 2020" fór fram þann 26. nóvember s.l. Alls bárust 9 tilboð í verkið.

Háafell ehf 235.327.000.-
Aðalleið ehf 193.309.225.-
Óskatak ehf 206.161.750.-
Stórverk ehf 244.857.410.-
Gleypnir verktakar ehf 206.000.000.-
Verktækni ehf 194.887.500.-
SH leiðarinn 418.546.000.-
Arnon ehf 195.637.525.-
Stéttarfélagið ehf 219.564.700.-

Kostnaðaráætlun Eflu var 233.463.235.-
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboði lægstbjóðenda Aðalleið ehf verði tekið enda uppfylli tilboð hans skilyrði útboðsgagna.

12.Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 - Nýtt deiliskipulag - Skipulags- og matslýsing.

2012008

Lagt fram til umsagnar skipulags- og matslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 sem var liður nr. 8 í fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar á fundi nefndarinnar þann 3. desember 2020. Frestur til að skila athugasemdum er til 9. desember.
Bæjarráð styður heilshugar bókun Skipulags- og mannvirkjanefndar og mótmælir harðlega öllum áformum um uppbyggingu virkjunarmannvirkja á þessu svæði. Þarna er löngu nóg að gert en ekki sér enn fyrir endann á þeim afleiðingum sem ágeng notkun Hellisheiðarvirkjunar mun hafa á lífríki og náttúrufar á Hengilsvæðinu. Bæjarráð vill minna á að Hengilssvæðið, sem nær m.a. til hluta Grímsnes og Grafningshrepps og Grændals er á náttúruminjaskrá (752) vegna stórbrotins landslags, fjölbreytni í jarðfræðilegri gerð og jarðhita.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tilnefnt Grændal í B-hluta náttúruminjaskrár vegna vistgerða á landi og ferskvatnsvistgerða þar sem nýting til orkuvinnslu er talin til helstu ógna og að friða þurfi svæðið fyrir orkuvinnslu. Álftatjörn, Kattartjarnir og stórt landsvæði norðvestur af þeim nýtur hverfisverndar (HV13) sbr. Aðalskipulag Grímsnes og Grafningshrepps 2008-2020 en í greinargerð aðalskipulagsins segir að jarðrask á hverfisverndarsvæðinu sé með öllu óheimilt og einvörðungu verði leyfð takmörkuð mannvirkjagerð sem tengist útivist á svæðinu.

Iðnaðarsvæðið, eins og það er afmarkað á myndum 1-4. í skipulagslýsingu er við austurbakka Álftatjarnar á um 300m breiðri landræmu á milli hverfisverndarsvæðis H13 og Grændalssvæðisins, þar sem náttúra er hvað stórbrotnust á Hengilssvæðinu. Virkjun á þessu svæði með tilheyrandi byggingum, borholum, lögnum og öðrum búnaði myndi hafa ófyrirséð, óafturkræf og óendanlega slæm áhrif á lífríki, umhverfi, útivistarmöguleika og náttúruminjar á þessu fallega ósnortna svæði. Auk þess eru slík áform væntanlega í andstöðu við yfirlýsta stefnu Grímsnes- og Grafningshrepps skv. gildandi aðalskipulagi.

Að mati bæjarráðs liggja almannahagsmunir miklu frekar í verndun svæðisins en röskun þess. Að raska slíku svæði með ófyrirséðum afleiðingum fyrir minniháttar orkunýtingu í sumarhúsahverfi er óráð. Bæjarráð Hveragerðisbæjar mótmælir harðlega fyrirhuguðum virkjunaráformum á Folaldahálsi á jörðinni Króki og krefst þess um leið að þessum áformum verði hafnað þegar í stað.

13.Verkfundargerð frá 24. nóvember 2020 - Grunnskólinn í Hvergerði og rýnifundur frá 18. nóvember 2020 um glugga og gluggaefni.

14.Verkfundargerð frá 26. nóvember 2020 - Sundlaugin Laugaskarði.

2011085

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

15.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 20. nóvember 2020.

2011086

Lögð fram til kynningar.

16.Fundargerð haustfundar Héraðsnefndar Árnesinga frá 12. nóvember 2020.

17.Fundargerð aðalfundar Bergrisans 2020 frá 25. nóvember 2020.

2012006

Lögð fram til kynningar.

18.Fundargerð aðalfundar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 30. október 2020.

2012007

Lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 09:56.

Getum við bætt efni síðunnar?