Fara í efni

Bæjarráð

742. fundur 18. júní 2020 kl. 08:00 - 10:20 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Garðar R. Árnason
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá Félagsmálaráðuneytinu frá 9. júní 2020.

2006045

Í bréfinu er sagt frá því Félagsmálaráðuneytið hefur samþykkt innsenda umsókn um aukið fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna fyrir sumarið 2020.
Lagt fram til kynningar en framlagið fer í heilsueflingarátak fyrir eldri borgara.

2.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 16. júní 2020.

2006052

Í bréfinu er gerð grein fyrir bókun stjórnar sambandsins þar sem minnt er á að í viðspyrnuáætlun sambandsins er hvatt til þess að sveitarfélög hækki ekki fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði umfram verðlagsbreytingar árið 2021.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá Tónlistarskóla Árnesinga frá 4. júní 2020.

2006036

Í bréfinu fjallar skólastjóri Tónlistarskólans um húsnæðismál skólans í Hveragerði.
Bæjarráð þakkar skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga fyrir erindið. Framkvæmdir eru hafnar við viðbyggingu við Grunnnskólann í Hveragerði en með þeirri viðbót er vonast til að rýmkist um nemendur í skólanum og að þar með skapist rými sem sárlega hefur vantað.

4.Bréf frá Einari Michael Guðjónssyni og Halldóru Sigurðardóttur frá 10. júní 2020.

2006047

Fært í trúnaðarmálabók.

5.Fundarboð aðalfundar frá Eignarhaldsfélagi Suðurlands frá 12. júní 2020.

2006046

Í bréfinu er boðað til aðalfundar Eignarhaldsfélags Suðurlands hf mánudaginn 29. júní nk. kl. 9:00 að Breiðumörk 2 í Hveragerði.
Fulltrúi Hvergerðisbæjar á fundinum verður Friðrik Sigurbjörnsson.

6.Bréf frá Reykjadalsfélaginu slf. ódagsett.

2006050

Í bréfinu óskar bréfritari um framlengingu á tímamörkum á framkvæmdum á vegum Reykjadalsfélagsins slf á úthlutuðum lóðum í Ölfusdal í Hveragerði.
Bæjarráð samþykkir að framlengja frest til framkvæmda á hinum úthlutuðu lóðum um 12 mánuði frá og með deginum í dag.

7.Aðstöðu- og þjónustusamningur við Reykjadalsfélagið slf.

2006054

Lagður fram aðstöðu og þjónustusamningur við Reykjadalsfélagið slf.
Meirihluti D-listans samþykkir samninginn og telur að með honum sé stigið stórt og langþráð skref í átt að bættri þjónustu við þá fjölmörgu sem sækja Ölfusdal heim. Vitað er að gestafjöldi á svæðinu hefur stóraukist á undanförnum árum og er fjöldi gesta um svæðið nú vel á annað hundrað þúsund árlega. Starfshópur um uppbyggingu í Reykjadal í góðri samvinnu við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða hefur unnið gott og mikilvægt starf við uppbyggingu göngustíga og við uppbyggingu aðstöðu við baðlækinn. Eftir stendur að salernisaðstaða er engin fyrir þennan stóra hóp, ekkert afdrep og lítil sem engin upplýsingagjöf. Hveragerðisbær hefur þar til í sumar greitt fyrir kamra og borgað allar rekstrarvörur salernanna án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti. Einnig hefur bæjarfélagið borið allan kostnað af sorpi, hirðu og förgun á Árhólmum. Allir bæjarfulltrúar hafa við gerð fjárhagsáætlunar samþykkt uppbyggingu bílastæðis á Árhólmum og að gjaldtaka muni þar eiga sér stað til að fjármagna þjónustu og uppbyggingu á svæðinu. Það gjald sem nú verður greitt fyrir af notendum svæðisins fyrir aðstöðu og þjónustu mun því verða fjármagnað af bílastæðagjöldum sem jafnframt munu nýtast í önnur þörf verkefni á svæðinu. Gjaldtaka er forsenda uppbyggingar en jafnframt er mikilvægt að gestir geti notið þjónustu eins og aðgengi að salerni gegn gjaldinu. Það er trú okkar að með þessum samningi sé stigið gott skref í átt að enn betra umhverfi og að uppbygging á Árhólmum komist nú á þann skrið sem við öll höfum lengi óskað eftir.

Fulltrúi Okkar Hverageris lagði fram eftirfarandi bókun.
Það er stefna bæjarmálafélagsins Okkar Hveragerðis að mikilvægt sé að bæta aðstöðu ferðafólks sem gengur inn í Reykjadal og vernda náttúru svæðisins. Það á bæði við um aðstöðu og þjónustu á Árhólmasvæðinu í Ölfusdal og gönguleiðir og aðstöðu fyrir ferðamenn að og í Reykjadal. Með því að innheimt verði bílastæðagjöld við minni gönguleiðarinnar skapast tækifæri til að afla tekna í slíka uppbyggingu. Uppbygging aðstöðu fyrir ferðamenn á Árhólmasvæðinu er jafnframt mikilvægur þáttur í að bæta aðstöðu á svæðinu.

Fyrir bæjarráði liggja nú drög að aðstöðu- og þjónustusamningi við Reykjadalsfélagið, handhafa lóðarinnar Árhólma 1 í Ölfusdal. Sú útgáfa draganna sem hér liggur fyrir er önnur en sú sem lá fyrir bæjarráði 18. júlí 2019 að því leyti að ekki er lengur lagt til að Hveragerðisbær feli Reykjadalsfélaginu einkarétt á innheimtu bílastæðagjalda og að félagið taki meirihluta teknanna í sína sjóði. Að öðru leyti hefur lítið breyst í samningsdrögunum og að mati undirritaðs er enn óljóst hvert markmið samningsins er og hvaða tilgangi það þjónar að gera slíkan samning.

Sú þjónusta sem Reykjadalsfélagið á að veita er að sjá um salernisaðstöðu, aðstöðu fyrir bílastæðaverði Hveragerðisbæjar, rekstur þjónustumiðstöðvar, umhirðu á göngustígum Árhólmasvæðisins og bílastæðum og aðgang Hveragerðisbæjar að húsnæðinu tíu sinnum á ári.

Að mati undirritaðs er mikilvægast að tryggja salernisaðstöðu fyrir þá ferðmenn sem eiga leið um svæðið en ekki er þörf á að Hveragerðisbær greiði sérstaklega fyrir aðra þjónustu sem talin er upp í samningnum. Óljóst er í samningum hvaða tilgangi þjónustumiðstöð sem Hveragerðisbær greiðir Reykjadalsfélaginu fyrir að reka eigi að þjóna. Í Reykjadal eru landverðir á vegum Umhverfisstofnunar á sumrin en þar sem Reykjadalur og nágrenni er í friðlýsingarferli er fyrirséð að landverðir hafi meiri viðveru yfir allt árið. Það væri því í raun Umhverfisstofnunar að sjá um fræðslu og gæslu á svæðinu sem líklega myndi falla undir rekstur þjónustumiðstöðvar og því rétt að Reykjadalsfélagið snúi sér þangað varðandi samning um slíkan rekstur. Einnig má benda á að jafnframt eru til rafrænar lausnir fyrir innheimtu bílastæðagjalda sem krefjast ekki viðveru bílastæðavarða og ekki er ólíklegt að slíkar lausnir verði fyrir valinu þegar kemur að því að sveitarfélagið velji hvernig skuli standa að innheimtu bílastæðagjalda. Því er ekki þörf á að greiða sérstaklega fyrir aðstöðu slíkra starfsmanna.

Þá er óljóst hvers vegna eftirfarandi ákvæði er í samningum: „Komi til þess að annar aðili en þjónustukaupi sjái um innheimtu bílastæða skal sá hinn sami semja beint við þjónustusala.“ Virðist með þessu verið að opna fyrir að möguleiki sé að fela öðrum en Hveragerðisbæ einkarétt á innheimtu bílastæðagjalda við Árhólma eins og var í fyrri drögum samningsins er var hafnað af bæjarfulltrúum árið 2019 eftir ábendingu frá Okkar Hveragerði. Því kemur það verulega á óvart að í samningum sé orðalag sem gefur til kynna að slíkur gjörningur gæti orðið.

Samkvæmt samningnum mun Hveragerðisbær greiða kr. 1.450.000 á mánuði fyrir þessa þjónustu til Reykjadalsfélagsins. Það þýðir að fyrir hvern dag mun Hveragerðisbær greiða tæplega kr. 50.000 fyrir þjónustuna eða í heild um kr. 174.000.000 fyrir þau tíu ár sem samningurinn á að gilda. Ljóst er að þessi kostnaður er langt umfram það sem eðlilegt getur talist fyrir slíka þjónustu og eins og rakið hefur verið hér að framan, fyrir þjónustu sem ekki er þörf á að Hveragerðisbær greiði sérstaklega fyrir. Að mati undirritaðs er ekki þörf á að Hveragerðisbær geri slíkan samning umfram rekstur og þjónustu salerna en auðveldlega má finn leiguverð fyrir þá aðstöðu og hversu margar vinnustundir eðlilegt er að greiða fyrir þrif og þjónustu þeirra.

Þess má geta að um svæðið fara árlega um 300.000 gestir á leið sinni upp í Reykjadal. Það eru því mikil viðskiptatækifæri fyrir lóðarhafa að Árhólmum 1 og hefur Reykjadalsfélagið kynnt bæjarfulltrúum spennandi hugmyndir um uppbyggingu á lóðinni sem án efa munu draga að gesti og stuðla að farsælum rekstri. Því er ekki þörf á að Hveragerðisbær styrki sérstaklega eitt fyrirtæki umfram annað í bænum á þann hátt sem lagt er upp með í samningum.

Að framansögðu er ljóst að undirritaður getur ekki greitt atkvæði með samningi þessum.

Njörður Sigurðsson.

Fulltrúar D-listans lögu fram eftirfarandi bókun.
Það er gott að finna að bæjarfulltrúar eru sammála um nauðsyn uppbyggingar á svæðinu og þær breytingar sem gerðar hafa verið af meirihluta á formi samningsins. Útreikningar meirihlutans sýna að miðað við þá umferð sem nú er um svæðið eigi bílastæðagjöld að gera gott betur en að dekka þann kostnað sem fellur til við þennan samning. Það er mikilvægt að muna að með þessum samningi skuldbindur Reykjadalsfélagið sig til að útvega og sinna mörgum salernum sem taka mun meira pláss í húsinu sem aldrei yrði ef eingöngu væri verið að byggja í samræmi við þann rekstur sem í húsinu verður.

Allir sem þekkja til reksturs vita að starfsmannahald er kostnaðarsamt auk þess sem allar rekstrarvörur, umsýsla með sorp og umhirða á svæðinu kallar á umtalsverðan kostnað. Því eru þær fimmtíu þúsund krónur sem rekstraraðilar fá greiddar á dag ekki há upphæð miðað við fjölda gesta sem fara um svæðið og umfang þeirrar vinnu sem inna ber af hendi og stærð þess húsnæðis sem nýtt er fyrir þjónustu við gesti svæðisins. Önnur atriði sem um er getið í samningnum hafa mun minna vægi en eru þó mikilvæg í stóra samhenginu eins og til dæmis ákvæði um sorphirðu og greiðslu fyrir förgun.
Meirihluti D-listans getur verið sammála bæjarfulltrúa O-listans um að eftirfarandi setning sé ónauðsynleg og megi falla út: „Komi til þess að annar aðili en þjónustukaupi sjái um innheimtu bílastæða skal sá hinn sami semja beint við þjónustusala“. Mun hún því falla út úr endanlegum samningi.
Varðandi fullyrðingar um að með samningnum sé verið að styrkja eitt fyrirtæki um fram önnur er því fullkomlega vísað á bug en mikilvægt er að muna að samningurinn er ein af forsendum innheimtu bílastæðagjalda enda er krafa um salerni hávær, eðlilega, á þessum stað. Bílastæðagjöldin munu standa straum af kostnaði við samninginn og uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn á þessu mikilvæga og fjölsótta svæði.
Vert er að muna að öðrum aðilum til að veita þessa þjónustu er ekki til að dreifa á svæðinu en bæjarfulltrúum ætti að vera fullkunnugt um forsögu lóðaúthlutunar á Árhólmum og þeim skilyrðum sem sett eru fyrir uppbyggingu þjónustumiðstöðvar á þessum reit í deiliskipulagi.

Friðrik Sigurbjörnsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.


8.Kjörskrá fyrir forsetakosningar 2020.

2006049

Lögð fram kjörskrá vegna forsetakosninga 27. júní 2020. Á kjörskrá eru 2091.
Bæjarráð samþykkir kjörskránna. Jafnframt er bæjarstjóra veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi vegna forsetakosninga 27. júní nk. í samræmi við 27. gr. laga um kosningar til Alþingis.

9.Fundagerð Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings frá 10. júní 2020.

2006051

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

10.Verkfundagerð - Vatnsveita, stofnlögn að Kambalandi frá 6. mars 2020.

11.Verkfundargerð - Vatnsveita, stofnlögn að Kambalandi frá 27. mars 2020.

12.Verkfundargerð - Vatnsveita, stofnlögn að Kambalandi frá 15. apríl 2020.

13.Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 2. júní 2020.

2006040

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

14.Minnisblað SASS frá fjarfundi frá 2. júní 2020.

2006041

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

15.Fundargerð SASS frá 22. maí 2020.

2006043

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Bæjarráð samþykkir að óska eftir yfirliti síðustu fjögra ára yfir fjölda umsókna og úthlutaðra styrkja úr sóknaráætlun Suðurlands skipt eftir sveitarfélögum.

16.Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 12. júní 2020.

2006053

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

17.Fundagerð Héraðsnefndar Árnesinga frá 12. maí 2020.

2006042

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundargerð Sorpstöðvar Suðurlands frá 26. maí 2020.

2006044

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 10:20.

Getum við bætt efni síðunnar?