Fara í efni

Bæjarráð

738. fundur 16. apríl 2020 kl. 17:00 - 18:03 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Garðar R. Árnason áheyrnarfulltrúi
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá Styrktarsjóði EBÍ frá 16. mars 2020.

2004003

Í bréfinu er auglýst eftir umsóknum í styrktarsjóð EBÍ fyrir árið 2020.
Bæjarráð er afar þakklátt styrktarsjóði EBÍ vegna þeirra styrkja sem sjóðurinn hefur veitt bæjarfélaginu en mörg af söguskiltum bæjarins sem nú eru vel á annan tug eru sett upp með dyggum stuðningi Styrktarsjóðs EBÍ. Bæjarráð telur rétt að freista gæfunnar einu sinni enn og felur bæjarstjóra að senda umsókn í sjóðinn fyrir gerð skiltis er sett yrði upp við Hverahlíð/Bláskóga og gera myndi grein fyrir jarðskjálftunum er riðu yfir í tengslum við Heklugosið 1947 en þá opnaðist meðal annars hver undir íbúðarhúsi á þeim slóðum.

2.Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga frá 7. apríl 2020.

2004016

Í bréfinu er tilkynnt um frestun aðalfundar Lánasjóðsins og að nýr fundardagur verði tilkynntur þegar samkomubanni hefur verið aflétt.

Jafnframt er í bréfinu kynnt sú ákvörðun stjórnar Lánasjóðsins frá 9. mars 2020 að leggja til við aðalfund að ekki verði greiddur út arður til hluthafa vegna afkomu 2019. Þessi ákvörðun var tekin til að styrkja stöðu sjóðsins og tryggja vöxt eigin fjárs. Einnig eru í bréfinu kynnt viðbrögð sjóðsins vegna Covid-19 og minnt á þau hagstæðu lánskjör sem sjóðurinn býður sveitarfélögum.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá SASS ódagsett.

2004014

Í bréfinu er óskað eftir að tilnefndur verði hamingjuráðherra frá Hveragerðisbæ sem mun gegna hlutverki tengiliðs við nýtt áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands sem ber heitið Hamingjulestin. Markmið verkefnisins er að gera Hamingjulestina að gátt fyrir fræðslu og verkefni sem stuðla að bættu geðheilbrigði og aukinni vitund um málaflokkinn. Einnig að stuðla að aukinni virkni og hreyfingu allra Sunnlendinga en rannsóknir sýna að slíkt eykur jafnframt hamingju og vellíðan og styður við líkamlegt hreysti. Verkefninu er auk þess ætlað að auka enn frekar samstarf milli sveitarfélaga á Suðurlandi.
Bæjarráð samþykkir að tilnefna menningar- og frístundafulltrúa sem hamingjuráðherra Hveragerðisbæjar enda hefur hún þegar yfirumsjón með verkefninu Heilsueflandi samfélag hér í bæ.

4.Bréf frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frá 6. apríl 2020.

2004024

Með bréfinu fylgdi kæra frá húseigendum Kambahrauni 60 á ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar um samþykkt hans á byggingaráformum eigenda Kambahrauns 51, Hveragerði.
Byggingafulltrúa falið að svara kærunni í samráði við bæjarstjóra og lögfræðing bæjarins.

5.Erindi frá íbúum við Dalsbrún frá 1. apríl 2020.

2004012

Í bréfinu lýsa íbúar Dalsbrúnar yfir óánægju með umhverfi götunnar og þá sérstaklega svæðið milli Dalsbrúnar og Heiðarbrúnar. Á svæðinu milli Dalsbrúnar og Heiðarbrúnar er þessi fíni göngustígur. Sitt hvorum megin við göngustíginn eru óræktarsvæði sem tilheyra bænum. Með bréfinu óska íbúar eftir því að gengið verði frá þessum svæðum í sumar og að bærinn komi til með að hirða betur um þau yfir sumartímann.
Bæjarráð þakkar íbúum ábendingarnar en þarna er um stórt svæði að ræða þar sem nýtingu mætti auka og bæta gæði umhverfisins. Garðyrkjufulltrúa er falið að skoða þetta svæði í samvinnu við umhverfisfulltrúa, umhverfisnefnd og gera tillögur til úrbóta sem kynntar yrðu íbúum áður en ráðist yrði í breytingar á svæðinu.

6.Erindi frá Crossfit Hengli ódagsett.

2004021

Í bréfinu óskar Crossfit Hengill eftir niðurfellingu á leigugreiðslum í kjallara íþróttahússins vegna þess tekjutaps sem stöðin hefur orðið fyrir þar sem hún hefur verið lokuð vegna samkomubanns og fyrirséð er að svo verður um einhvern tíma í viðbót.

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir vék af fundi meðan á afgreiðslu liðaris stóð.
Á fundi bæjarráðs nýverið var samþykkt að fresta leigugreiðslum CrossFit Hengils í ljósi þess ástands sem nú hefur skapast. Þrátt fyrir að sú ákvörðun hafi verið tekin þá hefur bæjarráð skilning á því að erfitt sé að mæta leigugreiðslum á meðan stöðin er lokuð. Því samþykkir bæjarráð að fella niður leigu tveggja mánaða, apríl og maí en jafnframt að ákvörðun um frestun á greiðslum framlengist sem því nemur. Þessi ákvörðun gildi einnig um Laugasport, líkamsræktina í Sundlauginni Laugaskarði sem einnig er lokuð vegna samkomubanns.

7.Bréf frá Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur frá 25. febrúar 2020.

2004022

Í bréfinu óskar Guðbjörg eftir því að vera með fyrirlesturinn "ElskuMeira" í bæjarfélaginu. Fyrirlesturinn er hvatning, fróðleikur, kennsla og æfingar, um hvernig við getum gjörbreytt eigin líðan og tilveru í heilu samfélagi, með því að elska meira.
Bæjarráð þakkar það frumkvæði sem bréfritari sýnir og fagnar erindinu sem á einmitt vel heima í Hveragerði þar sem áhersla í íþrótta- og frístundastefnu bæjarins er einitt á að bæjarbúar geti tileinkað sér heilbrigða lífshætti. Bæjarráð felur menningar- og frístundafulltrúa að vera tengiliður við bréfritara og vinna að framgangi verkefnisins.

8.Minnisblað - Verkeftirlit í Grunnskóla.

2004023

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 15. apríl 2020 vegna verkeftirlits með viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði 2020-2021.
Bæjarráð samþykkir að Guðmundur F. Baldursson verði með verkeftirlit með viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði. Fyrirkomulag verði með þeim hætti sem kynnt var á fundinum.

9.Persónuverndarfulltrúi Hveragerðisbæjar. Áður á dagskrá bæjarstjórnar þann 12. mars 2020.

2004015

Með fylgja tvö tilboð í vinnu persónuverndarfulltrúa Hveragerðisbæjar annars vegar frá Sekretum ehf og hins vegar frá Héraðsskjalasafni Árnesinga.
Bæjarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda Sekretum ehf en starfsmenn þar hafa sinnt persónuverndarmálum bæjarfélagsins að undanförnu.

10.Fundargerð stjórnar SASS frá 6. mars 2020.

2004018

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 24. mars 2020.

2004017

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Fundargerð Almannavarna Árnessýslu frá 3. mars 2020.

2004019

Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:03.

Getum við bætt efni síðunnar?