Fara í efni

Bæjarráð

722. fundur 15. ágúst 2019 kl. 08:00 - 10:40 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson setti fund og stjórnaði.

Í upphafi fundar leitaði formaður eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Hér var gengið til dagskrár:

1.Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 8.ágúst 2019.

1908013

Í bréfinu óskar sýslumaður eftir umsögn Hveragerðisbæjar um tímabundið áfengisleyfi fyrir Rósakaffi og í tjaldi á plani á sama stað.
Bæjarráð gerir ekki athugasemd við að leyfið verði veitt.

2.Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 8.ágúst 2019.

1908012

Í bréfinu óskar sýslumaður umsagnar Hveragerðisbæjar vegna tímabundins áfengisleyfis vegna bjórjóga í Lystigarðinum á vegum Einfalt ehf á Blómstrandi dögum.
Bæjarráð gerir ekki athugasemd við að leyfið verði veitt.

3.Bréf frá Sveitarfélaginu Ölfusi frá 18.júlí 2019.

1908005

Í bréfinu hafnar Sveitarfélagið Ölfus viðræðum um breytt sveitarfélagamörk og vísar í fyrri afstöðu.
Bæjarráð er undrandi á afdráttarlausri afstöðu Ölfusinga til viðræðna um breytt sveitarfélagamörk. Nú hafa allir íbúar búsettir handan Varmár og neðan Sundlaugarinnar Laugaskarðs óskað eftir að fá að tilheyra Hveragerðisbæ og í því ljósi er þessi afstaða sérkennileg. Bæjarráð hefði talið að slík ósk verðskuldaði að lágmarki einhverjar viðræður og því lýsir bæjarráð furðu sinni á þessari afgreiðslu.

4.Bréf frá Tónlistarskóla Árnesinga frá 8.ágúst 2019.

1908007

Í bréfinu er gerð grein fyrir biðlista nemenda úr Hveragerði í tónlistarnám og lögð fram ósk um aukningu á kennslukvóta í Hveragerði er nemur 7-9 kennslustundum.
Bæjarráð samþykkir að auka kennslukvóta um 9 klukkustundir. Með því móti vonast bæjarráð til að komið verði til móts við óskir sem flestra nemenda um tónlistarnám. Aukinn kostnaður vegna þessa er um 2,3 m.kr á árinu 2019. Er honum mætt af liðunum "Annar rekstrarkostnaður" hjá bæjarstjórn og bæjarráði.

5.Bréf frá Náttúrulækningafélagi Íslands frá 6.ágúst 2019.

1908003

Í bréfinu er gerð grein fyrir þróunarverkefni sem unnið er að á vegum NLFÍ og Heilsustofnunar NLFÍ er varðar uppbyggingu starfseminnar í Hveragerði. Verkefnið er komið á hönnunarstig og hefur verið ákveðið að ráðast í hönnunarsamkeppni fyrir fyrirhugaðar rekstrareiningar á landsvæði NLFÍ í Hveragerði. Óskað er eftir því að Hveragerðisbær tilnefni einn fulltrúa í dómnefnd.
Bæjarráð samþykkir að fulltrúi Hveragerðisbæjar í dómnefndinni verði Guðmundur F. Baldursson, skipulagsfulltrúi. Bæjarráð vekur jafnframt athygli á því að lýsing hönnunarsamkeppninnar skal taka mið af markmiðum gildandi aðalskipulags en jafnframt er vakin athygli á því að komi fram tillögur sem geri það ekki mun bæjarstjórn að sjálfsögðu skoða hvort rétt sé að breyta aðalskipulagi til samræmis við það.

6.Bréf frá Slysavarnadeildinni Vörðunni - Seltjarnarnesi frá 2.ágúst 2019.

1908006

Í bréfinu er kynnt fyrirhugað landsmót slysavarnadeilda sem haldið verður í Hveragerði í september 2020. Óskað er eftir því að Hveragerðisbær bjóði mótsgestum til móttöku á meðan á mótinu stendur.
Bæjarráð samþykkir að verða við erindinu og bjóða til móttöku í Listasafni Árnesinga með hefðbundnum hætti.

7.Friðgeirsmótið í golfi 2019 á Blómstrandi dögum.

1908004

Í bréfinu er óskað eftir styrk vegna Friðgeirsmótsins í golfi sem haldið er árlega í tengslum við Blómstrandi daga.
Bæjarráð samþykkir að styrkja mótið með sama hætti og gert hefur verið undanfarin ár.

8.Bréf frá Birni Pálssyni frá 12. ágúst 2019.

1908011

Í bréfinu er gerð grein fyrir nafngiftum húsa í Hveragerði og gerð tillaga um að Hveragerðisbær hafi frumkvæði að því að þessi hús verði merkt með nafni og byggingarári. Telur bréfritari að merking sem þessi hafi mikið gildi fyrir Hveragerði til fróðleiks og skemmtunar fyrir búendur þar og gesti.
Bæjarráð tekur undir sjónarmið bréfritara varðandi mikilvægi þess að halda þessum nöfnum til haga. Á kortagrunni Hveragerðisbæjar sem finna má á heimaasíðu bæjarfélagsins má sjá hversu fjölmörg hús bera heiti í bæjarfélaginu og eru þau þó sjálfsagt ekki öll merkt þar inni. Bæjarráð felur skipulagsfulltrúa og bæjarstjóra að ræða við bréfritara um nánari útfærslu hugmyndarinnar.

9.Bréf frá Hengli Ultra Trail frá 18.ágúst 2019.

1908017

Í bréfinu er kynnt utanvegahlaupið Hengill Ultra sem nú er haldið áttunda árið í röð. Keppendum fjölgar stöðugt og í ár er gert ráð fyrir að þeir geti orðið um 600. Hlaupið er ræst í Lystigarðinum Fossflöt og hlaupið um Hengilsvæðið. Þeir sem hlaupa lengst hlaupa um 100 km. Með bréfinu er óskað eftir stuðningi Hveragerðisbæjar við hlaupið. Á fundinn mætti Einar Bárðarson, skipuleggjandi hlaupsins, og gerði grein fyrir umfangi og styrkbeiðninni.
Bæjarráð hefur með mikilli ánægju fylgst með þróun utanvegahlaupsins Hengils Ultra undanfarin ár sem sífellt laðar að fleiri keppendur og athygli. Hlaupið hefur mikið gildi fyrir bæjarfélagið og rekstraraðila í bænum. Með styrk bæjarins hyggst bréfritari m.a. greiða Hjálparsveit skáta Hveragerði og Íþróttafélaginu Hamri fyrir vinnu sem þessi félög munu inna af hendi vegna hlaupsins.

Bæjarráð samþykkir beiðni bréfritara um styrk að upphæð 1 m.kr.

10.Bréf frá Halldóru Sigurðardóttur og Einari Michael Guðjónssyni frá 22.júlí 2019.

1908001

Fært í trúnaðarmálabók

11.Bréf frá Halldóru Sigurðardóttur og Einari Michael Guðjónssyni frá 25.júlí 2019.

1908002

Fært í trúnaðarmálabók.

12.Bréf frá Hrönn Waltersdóttur, Ingbjörgu Klemenzdóttur & Steinunni Aldísi Helgadóttur frá 11.ágúst 2019.

1908016

Í bréfinu er sett fram ósk um staðsetningu á leirbrennsluofni í Hveragarðinum.
Bæjarráð samþykkir að leirbrennsluofn sem hér er rætt um verði staðsettur í Hveragarðinum enda verði hann afsíðis og hafi ekki áhrif á starfsemi sem þar fer fram.

13.Lóðarumsókn Vorsbær 7 - Íbygg ehf.

1908009

Lögð fram umsókn um lóðina Vorsabær 7 frá Íbygg ehf ásamt fylgigögnum.
Bæjarráð samþykkir að úthluta Íbygg ehf kt. 591291-1229 lóðinni Vorsabær 7 í samræmi við þá skilmála sem gilda um lóðaúthlutun í Hveragerði.

14.Minnisblað frá bæjarstjóra - leiksvæði breytt í einbýlishúsalóð.

1908014

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra þar sem gerð er tillaga um að grenndarkynnt verði sú breyting að leiksvæði á milli lóðanna Heiðarbrún 45 og 47 verði breytt í einbýlishúsalóð og leiksvæðið verði þar með fjarlægt.
Bæjarráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í minnisblaði bæjarstjóra og samþykkir að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að grenndarkynna þá breytingu að leiksvæði í Heiðarbrún verði breytt í einbýlishúsalóð enda hefur ný leikskólalóð í næsta nágrenni tekið við hlutverki þessa leiksvæðis.

15.Minnisblað frá bæjarstjóra - úthlutun lóða í Kambalandi.

1908019

Í minnisblaðinu er fjallað um fyrirhugaða úthlutun lóða í Kambalandi og tímasetningar úthlutunar. Einnig er í minnisblaðinu gerð tillaga um að heimild í 6.grein samþykktar um byggingagjöld í Hveragerði verði nýtt og lagt verði byggingaréttargjald, 30%, á raðhús og fjölbýlishús á svæðinu.
Eftirfarandi tillaga lögð fram af fulltrúum D-listans:
Bæjarráð samþykkir að lóðablöð verði þegar í stað unnin í samræmi við tillögur bæjarstjóra og að úthlutun lóða í Kambalandi fari fram á fyrri fundi bæjarráðs í október. Lóðirnar verði þá auglýstar í byrjun september í samræmi við reglur þar um.

Meirihluti D-listans telur að mikið og gott skref hafi verið stigið þegar bæjarfélagið keypti stærstan hluta lóðanna í Kambalandi og tryggði Hveragerðisbæ enn meira svæði til uppbyggingar. Bæjarfélagið þurfti þó að leggja í umtalsverðan kostnað til að eignast Kambalandið og því samþykkir bæjarráð að nýta heimild 6. greinar samþykktar um byggingagjöld í Hveragerði til að leggja á byggingaréttargjald og að byggingarréttargjald verði 30% á raðhús og fjölbýlishús í hverfinu. Einbýlishús verði undanþegin byggingaréttargjaldi. Úthlutun fari að öðru leyti fram með hefðbundnum hætti í samræmi við reglur um úthlutun lóða í bæjarfélaginu með þeirri undantekningu að tveimur samliggjandi lóðum við svokallaða götu 2 verði úthlutað til sama aðila sé þess nokkur kostur, vegna hæðarmunar sem þarna er á umræddum lóðum og eðilegast að sami aðili mæti á byggingarstigi.

Tillagan borin upp og samþykkt með atkvæðum meirihluta D-listans.

Fulltrúi O-listans situr hjá með eftirfarandi bókun:
Okkar Hveragerði getur ekki fallist á að heimild 6. greinar samþykktar um byggingargjöld í Hveragerði verði nýtt á þann hátt að 30% byggingarréttargjald verði lagt á raðhús og fjölbýlishús í Kambalandinu en samþykkir tillöguna að öðru leyti.

16.Minnisblað frá bæjarstjóra - málefni ungra barna í Hvergerði

1908018

Í minnisblaðinu kemur fram að öllum börnum sem verða eins árs á árinu 2018 hefur nú verið boðin leikskólavistun. Ekkert barn er því á biðlista sem náð hefur eins árs aldri. Þrátt fyrir það er mikilvægt að hér í bæ sé í boði þjónusta dagforeldris og er í minnisblaðinu lagt til að auglýst verði eftir dagforeldri sem tekið gæti til starfa eftir áramót og stæði til boða sami samningur og núverandi dagforeldri hefur haft.
Bæjarráð fagnar því að staða dagvistunarmála sé jafn góð og fram kemur í minnisblaðinu. Bæjarráð samþykkir jafnframt að auglýst verði eftir dagforeldri sem nyti sömu kjara og verið hafa, tímabundið til vors 2020. Bæjarstjóra er falið að meta hvenær nauðsynlegt er að viðkomandi taki til starfa.

17.Minnisblað frá bæjarstjóra - umhverfislistaverk í kringum Hlyninn eina.

1908015

Í minnisblaðinu eru kynntar hugmyndir um umhverfislistaverk og hellulögn í kringum hlyninn eina við Heiðmörk er unnið yrði af Ingvar Birni Þorsteinssyni, listamanni.
Bæjarráð samþykkir tillöguna eins og hún kemur fram í minnisblaði bæjarstjóra. Gert er ráð fyrir að kostnaður fari ekki yfir 2 m.kr að meðtaldri hellulögn. Til að mæta þeim kostnaði leggur bæjarráð til að hætt verði við gerð sviðs í lystigarðinum Fossflöt nú í ár og því verki vísað til gerðar fjárhagsáætlunar ársins 2020.

18.Kauptilboð Kjarrheiði 13.

1908008

Lagt fram kauptilboð í Kjarrheiði 13 sem undirritað er af bæjarstjóra með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Bæjarráð samþykkir að kaupa Kjarrheiði 13. Viðauki við fjárhagsáætlun vegna kaupanna verður lagður fram á næsta fundi bæjarráðs.

19.Verkfundargerð 5 - Gatnagerð Kambaland frá 30.júlí 2019.

1908010

Lögð fram fundargerð 5. verkfundar vegna gatnagerðar í Kambalandi.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:40.

Getum við bætt efni síðunnar?