Fara í efni

Bæjarráð

714. fundur 21. mars 2019 kl. 08:00 - 10:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Garðar R. Árnason
  • Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 11.mars 2019.

1903034

Í bréfinu óskar Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn), 90. mál.
Lagt fram til kynningar.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 14.mars 2019.

1903033

Í bréfinu óskar Atvinnuveganefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.), 647. mál.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 13.mars 2019.

1903035

Í bréfinu óskar Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta, 639. mál.
Lagt fram til kynningar.

4.Bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá 6.febrúar 2019.

1903029

Í bréfinu eru upplýsingar um niðurfellingu lögbýlisréttar á nokkrum lóðum í Hveragerði.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 14.mars 2019.

1903036

Með bréfinu fylgdi bókun stjórnar sambandsins vegna áforma fjármálaráðherra að skerða tekjur jöfnunarsjóðs og mat á áhrifum á einstök sveitarfélög.
Bæjarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar mótmælir harðlega þeim áformum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um um það bil 3 milljarða á árunum 2020 og 2021. Skerðingin kemur harðast niður á útgjaldajöfnunarframlögum, en þau renna einkum til sveitarfélaga á landsbyggðinni sem hafa mörg hver veikan fjárhag. Skerðingin kemur einnig niður á framlögum til þjónustu við fatlað fólk og getur falið í sér að dregið verði úr þeirri þjónustu.

Áætlað tekjutap sveitarfélaga á Suðurlandi af framlögum til útgjaldajöfnunar og vegna fasteignaskatts er um 505 millj.kr. og vegna málefna fatlaðra 29 millj.kr. Framlög til málefna fatlaðra hafa ekki staðið undir rekstrarkostnaði og bætir þetta ekki stöðu þess málaflokks.

Árið 2015 voru samþykktar leiðréttingar á framlögum til málefna fatlaðra sem námu um 1,5 milljarði króna. Sú niðurstaða var samkomulag sem byggði á löngu og ítarlegu samráðsferli milli ríkis og sveitarfélaga. Að þurrka nánast út með einu pennastriki þann árangur sem þá náðist er í hróplegu ósamræmi við það samstarf við ríkið sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt mikla vinnu í að styrkja á liðnum áratug.
Einhliða ákvörðun ríkisvaldsins af þessu tagi er í andstöðu við það formlega samráðsferli ríkis og sveitarfélaga sem hefur þróast á undanförnum árum og fela áform þessi í sér algeran trúnaðarbrest gagnvart sveitarfélögunum í landinu.

Ekki getur með nokkrum hætti talist eðlilegt að áhersla á að bæta afkomu ríkissjóðs skili sér í skerðingum á tekjum sveitarfélaganna, sem standa undir mjög stórum hluta almannaþjónustu í landinu.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar krefst þess að áform um skerðingu tekna Jöfnunarsjóðs verði afturkölluð þegar í stað.

6.Bréf frá Vinnumálastofnun frá 12.mars 2019.

1903038

Í bréfinu er rætt um möguleika á að ráða háskólamenntaða atvinnuleitendur með fjárstyrk frá Vinnumálastofnun.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að kanna möguleika á ráðningu starfsmanns/manna með aðkomu Vinnumálastofnunar.

7.Bréf frá Útlendingastofnun frá 13.mars 2019

1903039

Í bréfinu er forathugun á vilja bæjarráðs til að gera þjónustusamning við Útlendingastofnun vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Lagt fram til kynningar en því miður er staðan á húsnæðismarkaði Hveragerðisbæjar það þröng að erfitt er að sjá möguleikann á því að hýsa þann fjölda sem þarna er um að ræða. Breytist staðan á húsnæðismarkaði má skoða aðkomu bæjarins að verkefninu.

8.Bréf frá SASS frá 15.mars 2019.

1903040

Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum frá Hveragerðisbæ vegna vinnu við stefnumörkun á meðferð úrgangs á Suðurlandi.
Bæjarráð samþykkir að fela umhverfisfulltrúa að svara erindinu.

9.Íbúðalánasjóður - Stofnframlög.

1903030

Í bréfinu er auglýst eftir umsóknum fyrir árið 2019 um stofnframlög ríkisins til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum skv. lögum nr. 52/2016 og reglugerð nr. 555/2016.
Lagt fram til kynningar en þar sem engar lóðir eru lausar til úthlutunar á næstu mánuðum er ekki möguleiki á því að sækja um stofnframlög á þeim forsendum sem þar eru gefnar um byggingakostnað. Áfram mun þó vera unnið að því markmiði að húsnæði verði byggt í Hveragerði með stofnframlögum.

10.Erindi frá Viktori Sveinssyni.

1903037

Í bréfinu ræðir bréfritari um rusl sem fýkur af gámasvæðinu og inn á nærliggjandi lóðir.
Bæjarráð samþykkir að fela Umhverfisfulltrúa að finna lausn á málinu sem allra fyrst.

11.Minnisblað frá bæjarstjóra - Breytt sveitarfélagamörk.

1903049

Í minnisblaðinu er rætt um bókun bæjarstjórnar frá 13. maí 2015 þar sem bókað var ósk um viðræður við Sveitarfélagið Ölfus um breytt sveitarfélagamörk en Sveitarfélagið Ölfus hefur ekki svarað þessu erindi.
Bæjarráð samþykkir að ítreka erindið og vonast eftir að viðræður um breytt sveitarfélagamörk Ölfuss og Hveragerðis hefjist hið fyrsta.

12.Kynning á áformum Reykjadalsfélagsins.

1903050

Á fundinn mætti Rúnar Már Sigurvinsson framkvæmdastjóri Reykjadalsfélagsins og kynnti fyrirhuguð áform félagsins á Árhólmasvæðinu.
Bæjarráð fagnar áformum Reykjadalsfélagsins en framkvæmdir við bílastæði og aðstöðuhús munu hefjast á vormánuðum. Lagt er upp með gjaldtöku af bílastæðinu og munu þá fjármunir geta runnið til verkefna við uppbyggingu og viðhalds gönguleiðarinnar inn Reykjadal og til svæðisins í kring um Árhólma. Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að hefja undirbúning á stofnun bílastæðissjóðs svo hefja megi gjaldtöku á svæðinu þegar bílastæði er tilbúin.

13.Minnisblað frá bæjarstjóra vegna trúnaðarlæknisþjónustu.

1903041

Í minniblaðinu er rætt um trúnaðarlæknaþjónustu fyrir starfsmenn Hveragerðisbæjar. Borist hafa tvö tilboð í þjónustuna.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilboði Vinnuverndar verði tekið enda innifelur það í sér alla vinnu sem mögulega verður innt af hendi.

14.Verkfundagerð frá 11.mars 2019 - Gatnagerð Vorsabær.

1903048

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

15.Fundargerð Sorpstöðvar Suðurlands frá 11.mars 2019.

1903043

Vegna liðar 2 þá fagnar bæjarráð þeim áfanga að nú hefur náðst samkomulag um förgun úrgangs Sunnlendinga annars vegar í Fíflholtum og hins vegar í Stekkjavík. Er ljóst að í augnablikinu geta Sunnlendingar andað léttar hvað þessi mál varðar en það breytir ekki þeirri staðreynd að áfram þarf að nýta tímann vel og leita að öðrum lausnum sem tækju við í upphafi árs 2020 þegar þessi samningur rennur út.

16.Fundargerð SASS frá 1.mars 2019.

1903044

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

17.Fundargerð aðalfundar Bergrisans frá 18.janúar 2109.

1903045

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

18.Fundargerð Tónlistarskóla Árnesinga frá 18.mars 2019.

1903046

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

19.Næstu fundir bæjarráðs.

1903051

Síðari fundur bæjarráðs í apríl lendir á skírdag þannig að hann verður ekki haldinn á fyrirfram ákvörðuðum degi.
Bæjarráð samþykkir að síðari fundur bæjarráðs í apríl falli niður nema að eitthvað óvænt komi upp.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 10:00.

Getum við bætt efni síðunnar?