Fara í efni

Sumarlestur

Bókasafnið í Hveragerði 1. jún - 31. ágú

Í sumar verður að vanda boðið upp á sumarlestur fyrir börn og ungmenni á Bókasafninu í Hveragerði.

Hægt er að skrá börn frá 0-16 ára til þátttöku með því að mæta á bókasafnið, fylla út skráningaform og fá afhenta lestrardagbók. Fyrir hverja lesna bók, myndasögu, tímarit eða hljóðbók fá þátttakendur límmiða í lestrardagbókina sína. Að auki geta lestrarhestar fyllt út bókaumsögn fyrir hverja lesna bók og skilað í sérstakan póstkassa sem er að finna á bókasafninu. Heppnir lestrarhestar verða svo dregnir út reglulega í allt sumar og hljóta bókaverðlaun.

Vakin er sérstök athygli á því að í ár er einnig hægt að nálgast svokallað lestrarlandakort á bókasafninu og fylla það út samhliða hefðbundnu lestrardagbókinni. Lestrarlandakortin eru samstarfsverkefni Menntamálastofnunar, Félag fagfólks á skólabókasöfnum, Félags forstöðumanna almenningsbókasafna, Heimilis og skóla, RUV og FÍBÚT.

Sumarlesturinn er opinn börnum á öllum aldri og eru foreldrar hvattir til að taka þátt með börnum sínum, meðal annars með því að lesa fyrir þau börn sem ekki eru farin að lesa sjálf. Starfsfólk bókasafnsins er alltaf tilbúið að aðstoða við val á lesefni og þátttakendum er velkomið að lesa á safninu – eða fyrir utan ef veður er gott.

Sumarlestrinum lýkur með uppskeruhátíð sem auglýst verður nánar þegar nær dregur hausti.

Getum við bætt efni síðunnar?