Fara í efni

Opið hús í Listhúsinu Varmahlíð

Breiðamörk 31 13. ágúst | 13:00-17:00

Listakonan María Kristín Antonsdóttir dvelur nú í Varmahlíð og býður gestum í heimsókn. Hún mun m.a. kynna ljósmyndaaðferðina „Anthotype “

Aðeins um Maríu:
Bio. María Kristín H. Antonsdóttir (IS). Fædd árið 1990 á Selfossi og uppalin í Hveragerði. Flutti til Kaupmannahafnar árið 2013 og stundar í dag mastersnám við Listaháskólann í Ódense (Funen Art Academy).

- Ég hef mikinn áhuga á tilvist okkar manna á Jörðinni og vinn mikið með heimspekilegar spurningar í gegn um listina. Ég vinn einlægt og verkin mín byrja alltaf á persónulegum inngangsvinkli. Hvert ferli byrjar ýmist með því að ég skrifa niður vangaveltur um lífið og tilveruna, og einnig skoða ég í kring um mig hvað sé til og er ég þá aðallega að skoða fjölskyldu- og þjóðararf. Mér finnst gaman að velta því fyrir mér hvernig við mannfólkið erum og hvernig við hegðum okkur. Einkum áhugavert þykir mér að skoða það hvernig við sjáum okkur sjálf og byggjum það sem kallast sjálfsmynd.

Ég hef uppá síðkastið verið að kynna mér það hvernig við tengjumst, bæði hvort öðru, þeim stöðum sem við erum á og náttúrunni í kring um okkur. Að því tilefni langar mig til þess að bjóða ykkur í heimsókn í Listamannahúsið Varmahlíð, þar sem ég býð uppá Opið Hús, þann 13. ágúst frá kl. 13.00 - 17.00. Þar mun ég sýna hluta af nýrri rannsókn sem byggir á ljósmyndaaðferðinni 'Antothype'. Anthotype vísar til ferlis sem er náttúrulegt, þar sem framkölluð er pósitíva á ýmist pappír sem er málaður með náttúrulegum vökva. Vökvin samanstendur af ýmist plöntum eða jurtum sem innihalda ljósnæma eiginleika. Síðan er pappírinn og pósitívan sett saman og undir gler og framkallast undir geislum sólarinnar. Ég mun vinna með náttúruna í kring um Varmahlíð og hef gefið mér 3 km radíus. Hér mun ég skilja pappírinn og glerið eftir á völdum stöðum þar sem veðráttan og náttúran mun hafa áhrif á framköllunarferlið. Það væri gaman að sjá ykkur.

María Kristín H. Antonsdóttir

www.mariakristin.d
instagram: mariakristinhantonsdottir

Mynd tekin á listasýningunni FÖLNA (2021), Hveragarðurinn, Hveragerði. Ljósmynd eftir Bryndísi Ragnarsdóttur

Getum við bætt efni síðunnar?