Með gleðiraust - íslensk sönglög fyrir rödd og klassískan gítar
Söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og klassíski gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui flytja ástsæl sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns, Atla Heimi Sveinsson, Jón Ásgeirsson, Jón Nordal og Huga Guðmundsson í bland við íslensk þjóðlög í útsetningum gítarleikarans sjálfs. Þau Guðrún og Javier eru þekkt fyrir að skapa mikla nánd við áhorfendur, innlifun, frumlegt efnisval, tilfinninganæma túlkun og áhugaverðar kynningar, sem færa hlustendur inn í heim hvers lags fyrir sig. Guðrún og Javier komu fyrst fram saman árið 2002 í Guildhall School of Music and Drama í London, þaðan sem þau luku bæði mastersgráðum í tónlist. Síðan þá hafa þau komið reglulega fram í fjölmörgum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku. Þau hafa tekið upp fjóra geisladiska: Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög, English and Scottish Romantic Songs for voice and guitar, Secretos Quiero Descubrir og Með þér – David del Puerto Vocal Works. Upptökur þeirra má einnig heyra á diskunum Inspired by Harpa, Icelandic Folksongs and Other Favorites, Kom skapari og Awake. Hjónin Guðrún og Javier eru stofnendur og stjórnendur Sönghátíðar í Hafnarborg. Þau fluttu til Íslands frá Spáni árið 2020. www.duoatlantica.com
Efnisskrá:
Francisco Javier Jáuregui (f. 1974) Íslensk þjóðlög:
-Blástjarnan þótt skarti skær (Bjarni Thorarensen)
-Fagurt galaði fuglinn sá (Eggert Ólafsson)
-Sof þú, blíðust barnkind mín (þjóðvísa)
-Ég þekki Grýlu (Stefán Ólafsson)
-Móðir mín í kví kví (þjóðvísa)
-Syngur lóa (þjóðvísa)
-Grátandi kem ég nú guð minn til þín (Jón Ólafsson)
Hugi Guðmundsson (f. 1977) Hvíld (Snorri Hjartarson)
Atli Heimir Sveinsson* Úr Hulduljóðum (Jónas Hallgrímsson)
(1938-2019) Kisa mín (höfundur ókunnur)
Francisco Javier Jáuregui (f. 1974) Blessuð sólin elskar allt (Hannes Hafstein)
Jón Nordal* (f. 1926) Hvert örstutt spor (Halldór Kiljan Laxness)
Jón Ásgeirsson* (f. 1928) Hjá lygnri móðu (Halldór Kiljan Laxness)
Sigvaldi Kaldalóns* (1881-1946) Þú eina hjartans yndið mitt (Guðmundur Geirdal)
Erla, góða Erla (Stefán frá Hvítadal)
Á Sprengisandi (Grímur Thomsen)
*Útsetning fyrir rödd og gítar eftir Francisco Javier Jáuregui
Upplýsingar um flytjendur
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópran
Guðrún hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires, Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið m. a. með Sinfóníuhljómsveitum Íslands, Madrídar, Barselóna, Katalóníu, Sjónvarps- og Útvarpshljómsveit Spánar, St. Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London. Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi og frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld, sem mörg hver hafa verið samin sérstaklega fyrir hana. Þar á meðal er titilhlutverkið í óperunni Lilith, luna negra eftir David del Puerto, sem er handhafi Þjóðarverðlauna Spánar í tónlist. Guðrún myndar Dúó Atlantica með eiginmanni sínum, gítarleikaranum Francisco Javier Jáuregui. Hún syngur reglulega með Sonor Ensemble, sem saman stendur af hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar undir stjórn Luis Aguirre. Guðrún stundaði söngnám hjá Rut Magnússon í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Lauru Sarti í Guildhall School of Music and Drama í London, en þar lauk hún meistaragráðu í söng og tveggja ára óperudeild skólans. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun í alþjóðlegum söngkeppnum, svo sem Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunin í Wigmore Hall, The Miriam Licette Scholarship í Konunglega óperuhúsinu Covent Garden, þriðju verðlaun í Concorso Vocale Internazionale di Musica Sacra í Róm, ljóðasöngsverðlaunin í hinni Alþjóðlegu söngkeppni Zamoraborgar á Spáni og verðlaun sem Besti flytjandi tónlistar eftir Rodrigo í Joaquín Rodrigo keppninni í Madríd. Söngur Guðrúnar hefur verið hljóðritaður á vegum RÚV, Sjónvarpsins, BBC, Spænska ríkisútvarpsins, Spænska sjónvarpsins og var hún einn af söngvurunum sem Sjónvarpið fjallaði um í þáttaröðinni Átta raddir. Hún hefur sungið inn á sextán geisladiska, m.a. á vegum 12 tóna, Smekkleysu, Naxos, ABU Records, EMEC Discos og Orpheus Classical. Hún flutti til Íslands árið 2020 eftir 20 ára dvöl við nám og störf erlendis og kennir nú söng við Tónlistarskóla Kópavogs og Söngskóla Sigurðar Demetz. Guðrún stofnaði og stjórnar, ásamt Francisco Javier Jáuregui, Sönghátíð í Hafnarborg sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarhátíð ársins 2020. www.gudrunolafsdottir.com
Francisco Javier Jáuregui, gítarleikari
Francisco Javier Jáuregui er spænskur gítarleikari og tónskáld sem fæddist í Oxford. Javier stundaði nám í klassískum gítarleik hjá Kenton Youngstrom við the Community School of Performing Arts (sem heitir nú Colburn School of Music) í Los Angeles í Kaliforníu og hjá Agustín Maruri og Óscar López í Madríd. Hann lauk Licenciate Diploma frá the Associated Board of the Royal Schools of Music og hóf þá nám hjá Robert Brightmore við Guildhall School and Music and Drama í London, þaðan sem hann útskrifaðist með gráðuna Master of Music in Performance. Þar lærði hann einnig á tíorbu hjá David Miller og spuna hjá David Dolan. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar, á Spáni, Ítalíu, Möltu, Íslandi, í Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Rússlandi, Marokkó og Suð-Austur Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo (Concierto de Aranjuez) og önnur verk með sinfóníuhljómsveitunum Schola Camerata, Santa Cecilia og Orquesta Sinfónica de Getafe á Spáni og Sonor Ensemble, sem skipað er hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar. Hann hefur einnig komið fram með Saint Petersburg State Symphony Orchestra. Stór hluti þeirrar tónlistar sem hann hefur flutt undanfarin 20 ár hafa verið hans eigin tónverk og útsetningar. Hann hefur einnig samið verk og útsett fyrir kammerhópa og kammersveitir s.s. Sonor Ensemble. Tónlist hans hefur verið flutt á vegum Íslensku óperunnar, Tardes de España í St. Pétursborg, Complutense háskólans í Madríd, Passau Festival í Þýskalandi, sumartónleikaröð Madrídarhéraðs, Listahátíðar í Reykjavík, Wigmore Hall, London City Festival og Auditorio Nacional de la Música de Madrid. Verk hans The Religion of Love var hluti af doktorsverkefni Feryal Qudourah við Florida State University. Útsetningar Javiers á íslenskum þjóðlögum má heyra á geisladiskunum Mitt er þitt – íslensk og spænsk þjóðlög (12 tónar 2008), Inspired by Harpa (12 tónar 2013) og Icelandic Folk Songs and Other Favorites (Sena 2014). Sem gítarleikari hefur hann frumflutt fjöldann allan af verkum, m.a. eftir tónskáldin Þorkel Sigurbjörnsson, Huga Guðmundsson, Þóru Marteinsdóttur, Hauk Tómasson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Pál Ragnar Pálsson, Agustín Castilla-Ávila, David del Puerto, Karl Nicklas Gustavsson, Marisu Manchado-Torres, Polinu Medyulyanovu, Eduardo Morales-Caso, Hideyuki Takemoto og Önu Vázquez Silva. Javier kemur reglulega fram með eiginkonu sinni Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópran sem Dúó Atlantica, með Elenu Jáuregui fiðluleikara sem Roncesvalles dúóið og með þeim báðum sem Aglaia tríóið. Javier hefur tekið þátt í verkefnum í tónlistarmenntun á vegum Wigmore Hall í London frá árinu 2001. Hann er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg. Hann hefur kennt klassískan gítarleik við King’s College í Madríd og St. Louis University í Madríd, þar sem hann hefur verið yfirmaður tónlistardeildarinnar. Hann kennir nú gítarleik við Tónlistarskóla Árnesinga og hefur störf við Tónlistarskóla Grafarvogs í haust. www.javierjauregui.com