Fara í efni

Veitur bora eftir heitu vatni - Hveragarðurinn

Kæru íbúar

Í næstu viku hefst borun á nýrri holu fyrir hitaveituna í Hveragerði. Hún verður í Hveragarðinum nærri varmastöðinni.

Þið verðið mögulega vör við hávaða á meðan því stendur, en honum er haldið í lágmarki. Til viðmiðunar verður ónæðið meira en bílvél í gangi en mun minna en t.d. fleygun á klöpp.

Varmá verður vöktuð allan tímann, bæði úr lofti og við árbakkana. Drónar verða notaðir til að vakta ána, en sjónsvið drónans nær hvorki í hús og garða né til gesta í sundlauginni.

Þegar við byrjum að bora þá getur fínt set borist í Varmá. Það er skaðlaust en gæti breytt lit Varmár tímabundið. Þegar holan dýpkar verður notuð umhverfisvæn sápa sem hjálpar okkur að binda svarfið sem fylgir og koma því upp á yfirborðið. Það kemur í veg fyrir að æðar í holunni stíflist og hamli vinnslugetunni. Á meðan því stendur má búast við að froða berist í Varmá, en hún er skaðlaus.

Við fylgjumst vel með Varmá til að lífríkið fái að njóta vafans og tökum sýni.

Áhersla er lögð á öryggi vegfarenda og starfsmanna og við viljum gjarnan fá að vita ef því er ábótavant.

Nánar um eftirlit með Varmá og kort af flugsvæðinu er á vef okkar hér: https://www.veitur.is/framkvaemdir/eftirlit_varma .
Nánar um borunina er hér: https://www.veitur.is/frettir/veitur-bora-nyja-holu-i-hveragardinum .

Veitur bora eftir heitu vatni til að tryggja vaxandi samfélagi í Hveragerði nauðsynlega innviði til framtíðar.

Með kveðju,
starfsfólk Veitna


Síðast breytt: 6. nóvember 2025
Getum við bætt efni síðunnar?