Fara í efni

Samhljóða samþykkt kröftug fjárhagsáætlun 2026

Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2026 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær. Reiknað er með að rekstrarniðurstaða samstæðu verði 500 m.kr. og að handbært fé frá rekstri verði í árslok 262 m.kr.

Í fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar er sérstök áhersla lögð á þjónustu við íbúa ásamt því að efla og styðja við lífsgæði í bænum eins og best verður á kosið. Sérstaklega er einblínt á barnafjölskyldur með öflugum menntastofnunum, gæðum í íþrótta- og frístundastarfi og fjölbreyttu atvinnulífi. Þá er heilsuefling allra íbúa í forgrunni ásamt blómstrandi menningu og ferðaþjónustu. Framundan eru fjölmörg tækifæri og bjartir og spennandi tímar.

Stórsókn til framtíðar

Samkvæmt fjárhagsáætlun til næstu þriggja ára verður stórsókn í hinum ýmsu málaflokkum og ber þar hæst verklok á nýju gervigrasi, gatnagerð í nýjum hverfum, fráveitumálum og kaupum á félagslegu húsnæði.

Þá er einnig stórsókn í málefnum fjölskyldna en frístundastyrkur hefur hækkað um 92% á kjörtímabilinu og mun hækka úr 44.000 kr. í 55.000 kr. á árinu 2026. Eins hafa leikskólagjöld lækkað um tæp 70% á kjörtímabilinu og munu halda áfram að lækka haustið 2026. Á kjörtímabilinu hófust foreldragreiðslur og verða þær 129.000 kr. á barn frá 12 mánaða aldri og þar til það kemst inn á leikskóla eða til dagforeldris. Samtals er áætlað að foreldragreiðslur nemi 1,5 m.kr. á árinu 2026.

Tekjur og gjaldskrár

Álagningarhlutfall fasteignaskatts lækkar á árinu 2026, á íbúarhúsnæði (A-flokk) lækkar hlutfallið úr 0,330% í 0,320%. Álagningarhlutfall útsvars verður hins vegar óbreytt frá fyrra ári í 14,97% sem og hlutfall á lóðarleigu.

Gjaldskrár vatnsveitu og fráveitu eru óbreyttar árið 2026 en gjaldskrá sorphirðu hækkar um raunkostnað eftir stærð og tegund sorptunna.

Samkvæmt áætlun frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga nemur úthlutun sjóðsins til Hveragerðisbæjar 1.834 m.kr. á árinu 2026.

Almenn gjalskrárhækkun þjónustutekna nemur 4%.

Fjárfestingar

Í ört stækkandi bæjarfélagi þurfa innviðir að halda í við fjölda bæjarbúa og því nauðsynlegt að ráðast í tilteknar framkvæmdir. Áætlaðar fjárfestingar til ársins 2029 felast að stærstum hluta í byggingu fjórða hluta grunnskólans, fyrsta áfanga nýs leikskóla í Kambalandi, uppbyggingu íþróttamannvirkja og veitnaframkvæmdum. Kostnaður við fjárfestingar árið 2027 er áætlaður 1.038 m.kr., árið 2028 er áætlað að kostnaður við fjárfestingar nemi 785 m.kr. og árið 2029 muni hann nema 223 m.kr.

Þakkir

Meirihluti bæjarstjórnar vill koma á framfæri einlægum þökkum til bæjarstjóra og skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar fyrir óeigingjarna og umfangsmikla vinnu við gerð fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar.

Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og er þeim jafnframt þakkað fyrir sitt góða framlag.

Öðru starfsfólki Hveragerðisbæjar eru einnig færðar þakkir fyrir gott samstarf við fjárhagsáætlunargerðina.

Einnig vill meirihlutinn koma á framfæri einlægum þökkum til bæjarstjóra og skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar fyrir óeigingjarna og umfangsmikla vinnu við gerð fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar.

Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og er þeim jafnframt þakkað fyrir sitt góða framlag.

Öðru starfsfólki Hveragerðisbæjar eru einnig færðar þakkir fyrir gott samstarf við fjárhagsáætlunargerðina.


Síðast breytt: 12. desember 2025
Getum við bætt efni síðunnar?