Fara í efni

Hreyfum okkur daglega - 1

Hreyfum okkur daglega - 1

Dagleg hreyfing er mikilvæg til að viðhalda líkamlegri og andlegri getu. Hún er ekki síst mikilvæg til að auka líkamlegan og andlegan styrk og vellíðan svo að fólki gangi betur að takast á við verkefni daglegs lífs. Fullorðnir eru einnig mikilvæg fyrirmynd sem getur haft mikið að segja um hversu mikið börn og ungt fólk hreyfir sig.

Geðrækt:

Andleg næring við hugleiðslusteininn „Þetta líður hjá“

  • Frá aðalgötu bæjarins, Breiðumörk, er vegvísir að hugleiðslusteininum „Þetta líður hjá“.

Gangið Þelamörk í austur að Leikskólanum Undralandi. Á móti bílastæðunum við leikskólann stendur tré. Þið beygið þar niður að ánni. Við árbakkann er tré og þar við hliðina stendur hugleiðslusteinninn „þetta líður hjá“ á árbakkanum.

Með setu í stólnum og verkinu sjálfu erum við minnt á að að líkt og áin líður hjá þá munu vandamál og verkefni lífsins sem oft virðast óyfirstíganleg einnig líða hjá.

Verkið fjallar um vináttusamband okkar og náttúrunnar. Og hvað náttúran vill segja okkur á viðkvæmum stundum. Og að okkur er óhætt að lifa með tilfinningum okkar.

  • Setjist í steininn - núvitund
    Njótið stundarinnar og lokið augunum. Dragið djúpt inn andann og haldið inni (4 sek). Blásið síðan rólega frá (8 sek) í gegnum nefið, með munninn lokaðann og látið heyrast kurr hljóð innra með ykkur. Endurtakið 3 sinnum. Njótið augnabliksins og hlustið á náttúruhljóðin.
  • Sigurstaðan – þetta verður góður dagur
    Standið upp, hafið aðeins bil á milli fóta og reisið hendur upp í sigurstöðu. Brosið, lokið augunum og haldið örmum í þessari stöðu í 2 mínútur. Ef þið þreytist í öxlum þá færið þið hendur aðeins niður og reisið þær síðan upp strax aftur. Í þessari stöðu njótum við augnabliksins og hugsum um þakklæti. Hlustið á niðinn í ánni, þytinn í loftinu og á hjartsláttinn ykkar. Hugsið um hvernig lungun fyllast af hreinu lofti og hvernig hjartað dælir fersku blóði um æðar líkamans.
    Síðan færið þið handleggi rólega niður, opnið augun og fylgist með ánni renna fram hjá.
  • Fjallið (Tadasana) - grunn yogastaða sem þjálfar upp t.d. einbeitingu.

Fætur saman og lófar upp við líkamann meðfram síðu eða fyrir ofan höfuð. Standið bein með alla vöðva spennta. Það er ekkert sem getur fellt þig enda ertu fjall og þau haggast ekki.

Hugsið um öndun og þína styrkleika.

Í lokin er tilvalið að ganga upp með ánni að brúnni við Heilsustofnun. Bæði er hægt að beygja að göngustígnum í hlíðum Reykjafjalls í átt að sundlauginni eða fara inn í bæinn aftur.

“Lífið er ekki verkefni til að leysa heldur leyndardómur til að uppgötva” Amrit Desai

Njótið páskafrísins og okkar yndislegu náttúru hér allt um kring.

Jóhanna Margrét Hjartardóttir
Menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar


Síðast breytt: 3. apríl 2020
Getum við bætt efni síðunnar?