Fara í efni

Gleðilega Blómstrandi daga!

Gleðilega Blómstrandi daga!

Byggðin mín er ímynd alls
er óskar hugur manns.

Blómstrandi dagar í Hveragerði hefjast formlega í dag. Þessi merkilega bæjarhátíð Hveragerðis, sem hefur skapað sér einstakan sess í bæjarlífi íbúa, nágranna og landsmanna, geymir metnaðarfulla og glæsilega dagskrá í ár. Það kemur m.a. til vegna þess að hátíðin í ár er 30 ára afmælishátíð. Fyrsta hátíðin var haldin árið 1995 og að henni stóðu eldhugar sem vildu efla bæinn, sameina andann og byggja upp bæ í blóma. Við eigum þessu fólki margt að þakka. Sagnfræðingurinn og bæjarfulltrúinn Njörður Sigurðsson rekur sögu hátíðarinnar hér á vandaðan hátt sem ég hvet alla áhugasama til að lesa.

Hátíðin er ekki síður glæsileg í ár vegna þess að bærinn er á miklum tímamótum breytinga og uppbyggingar. Við tökumst saman á við stóra og metnaðarfulla spurningu um hver við ætlum að vera á þessum sögulegu vaxtartímum austan fjalls. Dagskrá hátíðarinnar ber öll merki um hvaða leiðarstef við veljum okkur til framtíðar í þessari byggðarþróun: samfélag mennsku og manngildis í gæðavexti. Þannig er hátíðin í ár ekki bara viðameiri og stærri en áður, heldur er hugað í leiðinni að gæðum, mennsku og metnaði. List og heilsuefling eru í forgrunni, vönduð fjölskyldudagskrá með fjölskylduballi á föstudagskvöldinu með einni skærustu poppstjörnu landins og glænýjum Hvergerðingi er gott dæmi að taka um þetta. Þá er dagskrá laugardagskvöldsins með okkar stórkostlega listafólki úr Hveragerði sönn saga um hvað máttur menningar er einkennandi fyrir bæinn, dýrmætur kraftur sem mun móta okkur áfram til framtíðar. Þá er Kjörísdagurinn fyrir löngu búinn að marka sér stöðu í hátíðarhöldunum sem einn skemmtilegasti viðburður ársins, þótt víða væri leitað.

Þessi stutta upptalning er alls ekki tæmandi, dagskráin í heild sinni er pökkuð af vönduðum viðburðum og hliðarviðburðum sem eiga það sameiginlegt að spanna dýrmætan fjölbreytileikann sem við geymum sem fjöregg. Við erum samfélag í gæðavexti – það er Hveragerði.

En fyrst og fremst skulum við að hittast á Blómstrandi dögum og finna hvert annað í gleði, sátt og samhug. Velgengni bæjarins undanfarið grundvallst bara á einni lykilforsendu; samstöðu og samvinnu.

Allt ber vitni austan fjalls
Um alúð skaparans

(Rannveig Hjálmarsdóttir)

Pétur G. Markan
bæjarstjóri


Síðast breytt: 14. ágúst 2025
Getum við bætt efni síðunnar?