Fara í efni

2. Stöðuskýrsla frá bæjarstjóra v. COVID 19

Stöðuskýrsla v. COVID - 19  nr.   2
Dags: 26. mars 2020
Frá: Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra

Viðtakendur: bæjarráð/bæjarstjórn.

Stjórnendur og starfsmenn Hveragerðisbæjar vinna hörðum höndum að því að undirbúa stofnanir og breyta þjónustu í samræmi við bestu leiðbeiningar vegna COVID -
19 og áfram verður unnið ötullega að því markmiði að tryggja bæjarbúum öryggi og eins góða þjónustu og hægt er miðað við aðstæður.  Hægt hefur á samfélaginu og verkefni litast flest með einum eða öðrum hætti af viðbrögðum við COVID - 19 þó áfram sé unnið að daglegum störfum eins og nokkur er kostur.

Eftirfarandi er staða einstakra stofnana í bæjarfélaginu.
Bæjarskrifstofa:
Bæjarskrifstofu hefur verið lokað fyrir óviðkomandi umferð og tekið fyrir allar heimsóknir svo hægt sé að tryggja órofna starfsemi eins og mögulegt er.
Lágmarksmönnun starfsmanna er á skrifstofu þannig að skipt hefur verið í tvær vaktir og er unnið  þrjá daga aðra vikuna en tvo daga hina.  Sími er opinn á hefðbundnum vinnutíma og símtöl send í GSM síma þeirra starfsmanna sem ekki eru  við  vinnu á bæjarskrifstofu þann dag.  Annars óbreytt ástand á skrifstofu frá fyrri viku, einn starfsmaður er heima með kvef að því að talið er .

Fjármál:
Allt óbreytt frá því síðast. Enn höfum við ekki orðið vör við að hægst hafi á innborgun á reikningum en það mun væntanlega gerast um mánaðamótin. Staðgreiðsla hefur borist eins og venjulega. Fasteignagjöld greiðast ekki fyrr en um næstu mánaðamót þannig að þá fyrst finnst fyrir væntum aðgerðum bæjarstjórnar. Einhverjir hafa gengið frá greiðslum og skuldaviðurkenningum vegna lóða.

Grunnskólinn í Hveragerði:
Að höfðu samráði við bæjaryfirvöld, sóttvarnalækni Suðurlands og lögregluyfirvöld var ákveðið að fresta hefðbundinni kennslu í skólanum fram að páskafríi.
Kennarar eru í samskiptum við nemendur og nýta fjölbreyttar leiðir til þess. Lögð er áhersla á að kennarar sinni nemendum sínum eftir sem áður og hvetji þá til náms og virkni. Í skólanum er forgangshópum kennt frá 1. bekk–4. bekkjar í samræmi við tilmæli sóttvarnalækni. Foreldrar barna í fyrsta og öðrum bekk sækja um í gegnum www.island.is  en foreldrar þriðju og fjórðu bekkinga sækja um beint til skólastjóra.  Í vikunni hafa mætt í kringum 10 nemendur svo nokkuð ljóst er að fjöldi foreldra velur að hafa börn sín heima þessa dagana.

Bungubrekka:
Starfssemi er skert en fyrir forgangshópa eingöngu. 5 börn hafa mætt í vikunni.

Íþróttamannvirki:
Með hertu samkomubanni hefur núna öllum íþróttamannvirkjum verið lokað sem og líkamsræktarstöðvum bæjarins. Starfsmenn mæta til vinnu nokkurn veginn í
samræmi við vaktaplan og sinna öðrum störfum á meðan en þó er nokkuð ljóst að það er ekki endalaust hægt að þrífa. Enn er nóg að gera fyrir starfsmenn í Sundlauginni Laugaskarði. Einn starfsmaður sundlaugar er í sóttkví.  Starfsmenn í Hamarshöll hittast aldrei vegna sóttvarna en hafa nóg að gera við bón og tiltekt.
Menningar- og frístundafulltrúi er að vinna tillögur að afþreyingu og gönguferðum fyrir íbúa sem kynntar verða fljótlega.
 
Bókasafn:
Vegna hertra aðgerða í baráttunni við Covid-19 verður bókasafnið lokað frá og með morgundeginum 23. mars. Starfsfólk mun skipta með sér vöktum og taka á móti pöntunum á bókum og öðrum safngögnum í síma og tölvupósti. Hægt verður að fá pantanir af hentar við inngang safnsins eða heimsendar (innanbæjar). Engar sektir munu reiknast á meðan lokun safnsins stendur en þeir sem vilja geta skilað gögnum í skilakassann við inngang bókasafnsins. Í ljósi alls þessa verður samkomum líkt og leshring og prjónakaffi frestað um sinn. Við hvetjum ykkur til að hugsa vel um ykkur og ykkar nánustu og hika ekki við að hafa samband ef við getum þjónustað
ykkur á einhvern hátt. 
 
Listasafn Árnesinga:
Safninu hefur verið lokað í samræmi við tilmæli um samkomubann en starfsmenn hafa nóg að gera við tiltekt og undirbúning sýninga síðar á árinu.
 
Upplýsingamiðstöðin:
Starfsmenn vinna nú á vöktum 08:00 – 12:30, lokað er í hádegi til að sótthreina og yfirfara og næsta vakt vinnur frá 13:00 - 17:00. Mjög hefur dregið úr aðsókn.
Ákveðið hefur verið að loka á laugardögum og sunnudögum enda aðsókn þá daga lítil sem engin. 
 
Leikskólinn Óskaland
Leikskólar eru opnir fyrir forgangsbörn og eru rétt um 20 börn mætt (26 samþykktar umsóknir) og 10 starfsmenn í vinnu. Einn starfsmaður er í sóttkví en aðrir eru mættir nema önnur lögmæt forföll hamli. Starfsemi í húsi gengur vel og allir rólegir og ánægðir.  
 
Leikskólinn Undraland:
Leikskólar eru opnir fyrir forgangsbörn og eru rétt um 10 börn mætt á Undralandi (21 samþykkt umsókn) og 12 starfsmenn í vinnu. Þrír starfsmenn eru í sóttkví en aðrir eru mættir nema önnur lögmæt forföll hamli. Starfsmönnum er skipt í þrjá hópa og hver hópur vinnur þrjá daga, einn hópur því í húsi í einu. Starfsemi í húsi gengur vel og allir rólegir og ánægðir.    Matur er sendur á milli leikskólanna með leigubíl eins og verið hefur og ekki er breyting á því í bili.
 
Heimaþjónusta:
Heimaþjónustan hefur gengið vonum framar.  Allir starfsmenn eru í vinnu.  Nú þegar hafa tólf  notendur afþakkað þjónustu vegna Covid-19 og fjögur heimili eru í sóttkví.
Smám saman hefur  verið dregið úr þjónustu hjá notendum sem eru í forgangshópi 3. Frá  og með næstu viku verður eingöngu farið inn á heimili þar sem notendur eru í forgangshópi 1 og 2. Deildarstjóri heimaþjónustu fer ekkert inn á heimili vegna persónulegra aðstæðna og var það ákveðið í sameiningu. Hringt er í alla áður en farið er inn á heimili til þess að taka stöðu varðandi heilsufar og hvort notandi vilji þiggja þjónustu og komum til með að láta alla vita ef einhverjar breytingar verða á þjónustu.
Umfram allt þá er verið í góðum samskiptum við alla þá einstaklinga sem eru í forgangshópi 1. 
 
Heimilið Birkimörk:
Starfsemi er óbreytt frá því síðast. Í samvinnu félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið unnið að stofnun bakvarðasveitar m.a. fyrir heimili fyrir fatlað fólk og vettvangur tryggður til að treysta rekstur þeirrar heimila.
 
Umhverfisdeild og veitur:
Staðan er óbreytt frá því síðast. Gámasvæði er ennþá opið með óbreyttum hætti. Starfsmaður frá veitumannvirkis sinnir ekki öðrum verkefnum. Starfsmenn hafa slegið inn ljósastaurum.
 
Bygginga, skipulags- og tæknideild:
Starfsemi er hefðbundin og starfsmenn eru komnir með tengingar heim þannig að mögulegt verður að sinna allri starfsemi þrátt fyrir að starfsmenn séu ekki á staðnum.
Staðan er óbreytt frá síðasta fundi og starfsmenn sinna sínum störfum heima við. 
 
Almennt:
Samkvæmt nýjustu tölum þá eru 11 smitaðir og 311 í sóttkví í Hveragerði.  Frá og með 25. mars verður ekki lengur opinberlega fjallað um fjölda smitaðra á hverjum stað fyrir sig vegna persónuverndar. Í starfsmannahópnum virðast vera 3 einstaklingar með smit og 21 í sóttkví en mjög hefur fækkað einstaklingum sem skikkaðir hafa verið í það úrræði frá því að sóttkví grunnskólans lauk.
 
 
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

 

 

 

 

 

 


Síðast breytt: 27. mars 2020
Getum við bætt efni síðunnar?