Fara í efni

Vinnuskóli

Smelltu hér til að sækja um í Vinnuskólanum í Hveragerði.

Vinnuskólinn er vinnustaður fyrir unglinga. Áhersla er á ánægjulegt starfsumhverfi þar sem gefst kostur á starfskynningu, listasmiðjum og fjölbreytni í vinnutilhögun. Vinnuskólinn er oft á tíðum fyrsta launaða vinna unglinganna og því mikilvægt að vel takist til, því lengi býr að fyrstu gerð. Vinnan í skólanum er í senn uppeldi, afþreying og tekjuskapandi. Unglingunum er kennt að umgangast verkefni sín og samstarfsfólk af virðingu og hvernig á að meðhöndla verkfæri.

Vinnuskólinn er fyrir 8.-10.bekk

Markmið vinnuskólans

 • að læra stundvísi
 • að hafa ánægju af því að skila góðu verki
 • að læra að umgangast bæinn okkar af virðingu
 • að auka færni í samskiptum
 • að læra vinnubrögð og meðferð verkfæra
 • að fegra og snyrta umhverfi okkar

Algengar spurningar og svör 

Vinnutímabil 2021

Vinnutímabil sumarsins 2021 verður frá mánudeginum 14.júní – 30.júlí. Eða samtals 7 vikur.

Fyrsta vinnudaginn fá nemendur fræðslu um vinnu sumarsins, og á föstudögum verða skipulagðir dagar þar sem farið er í leiki eða í fræðslu um málefni tengt ungmennastarfi.

Hvað er Vinnuskólinn?

Vinnuskóli Hveragerðis er fyrir alla 14-16 ára unglinga í Hveragerði. Allir sem sækja um fá starf í skólanum

Af hverju ætti ég að sækja um starf í Vinnuskólanum?

Þátttaka í Vinnuskólanum er kjörið tækifæri fyrir unglinga til þess að öðlast reynslu af því að vinna sér inn laun á hvetjandi og jákvæðan hátt. Þar gefst unglingum færi á að taka þátt í að snyrta og hirða bæinn sinn, kynnast nýjum félögum og læra heilmikið um umhverfismál, mannleg samskipti og virðingu gagnvart vinnu.

Hvað er ég að vinna lengi?

Vinnutími vinnuskólans er eins og hefur verið síðustu ár, eða 9:30 – 12:00 og 13:00-15:30 og stendur yfir í samtals 7 vikur yfir sumarið.

Fæ ég matarhlé?

Já, matarhlé er á milli kl. 12:00 – 13:00.

Hvenær fæ ég útborgað?

Útborgun er á tveggja vikna fresti, nema fyrstu vikuna eru laun greidd út fyrir eina viku

Hvað er þetta skattkort og hvað á ég að gera við það?

Allir launþegar á Íslandi sem eiga hér fasta búsetu og hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á svokölluðum persónuafslætti og er skattkortið til þess gert að halda utan um það. Árið 2016 voru öll skattkort gerð rafræn. Ekki er þörf á að skila inn skattkorti ef óskað er eftir að nota skattkort á umsóknarvef. Ef umsækjandi telur sig þurfa að nota ónýttan persónuafslátt frá fyrri mánuðum getur hann sent beiðni um slíkt á margretb@hveragerdi.is og þarf þá staðfesting af þjónustuvef RSK að fylgja með.

Þarf ég að borga hluta af laununum mínum í lífeyrissjóð?

Börn byrja að greiða í lífeyrissjóð næstu mánaðamót eftir 16 ára afmælisdaginn.

Hvert fara launin mín?

Launin eru lögð inn á bankareikning unglinganna og þurfa því allar bankaupplýsingar að fylgja umsókn. Aðeins er hægt að nota bankareikning unglingsins.

Hvert á ég að mæta?

Vinnuskólinn er staðsettur í húsnæði garðyrkjudeildar Hveragerðis, við Breiðumörk 21. En eftir hádegi má búast við að mæting sé á vinnustaðinn sem unnið er á þann daginn.

Get ég skipt um hóp?

Engar breytingar eru gerðar á hópum fyrstu dagana. Síðan er það viðkomandi flokksstjóra að ákveða um það í sínum hópi. Flokkstjórum er heimilt að hafa mest 15 nemendur í nemendahóp.

Hvað á ég að gera ef ég er veik(ur)? Fæ ég borgað fyrir daginn?

Foreldrar verða að tilkynna forföll og veikinda barna sinna inná vinnuskoli@hveragerdi.is Veikindadagar eru ekki greiddir.

Má ég reykja í vinnunni?

Nei. Vinnuskóli Hveragerðis er tóbakslaus vinnustaður.

Börn með ofnæmi

 Á hverju ári koma mörg börn með ýmiskonar ofnæmi í Vinnuskólann. Vinnuregla Vinnuskólans er sú að allir nemendur í tveimur yngstu árgöngunum starfa í útihópum okkar. Þegar aðstæður koma upp er geta verið ofnæmisvaldandi er það verkefni flokkstjóra að finna verkefni sem hæfir þeim einstaklingum sem um ræðir.

Hverjir geta sótt um í Vinnuskólanum?

Allir unglingar sem búsettir eru í Hveragerði og verða 14-16 ára (2005- 2007) á árinu geta sótt um vinnu hjá Vinnuskólanum. Nemendur sem eru 16 (2005) ára sem sækja um hjá Vinnuskólanum geta óskað eftir því að fá vinnu hjá félögum og stofnunum í bænum og er þeim raðað inn á þá staði með hliðsjón af fyrri umsögnum í Vinnuskólanum.

Leyfi og veikindi

Foreldrar verða að tilkynna forföll og veikinda barna sinna með því að senda tölvupóst á vinnuskoli(hja)hveragerdi.is. Einungis er tekið við tilkynningum frá foreldrum eða forráðamönnum. Veikindi ber að tilkynna áður en vinna hefst dag hvern. Nauðsynlegt er að tilkynna veikindi alla daga sem þau standa yfir.

Veikindi teljast sem tapaðar vinnustundir og ekki er hægt að vinna þær upp.

Röðun í vinnuflokka

Ekki er víst að nemendur séu í hópum með vinum eða bekkjarfélögum þar sem eitt af markmiðum Vinnuskólans er að allir geti unnið með öllum.

Skráning í Vinnuskólann

 Í ár hættum við að nota umsóknareyðublöð og því fara allar umsóknir í gegnum innskráningavef vinnuskólans inná heimasíðu Hveragerðis. Mikilvægt er að allar upplýsingar sem beðið er um komi fram við umsókn til náms. Þegar nær dregur því að nemandi hefji störf fá forráðamenn upplýsingar um mætingu nemanda í gegnum tölvupóst. Þar kemur einnig fram hvar, hvenær og hvaða starfsmaður tekur á móti nemanda.

Hægt er að fylgjast með vinnslu umsókna hér.

Yfirmaður vinnuskólans

Kristín Snorradóttir, Garðyrkjufulltrúi Hveragerðis, sér um vinnuskólann, skrifstofa garðyrkjufulltrúa er í húsnæði garðyrkjudeildar við Breiðamörk 21, Sími 483-4000 og tölvupóstur vinnuskoli(hjá)hveragerdi.is.

Vinna hjá stofnunum og félögum

Vinnuskólinn býður nemendum uppá nám hjá félögum og stofnunum í sveitafélaginu. Íþróttafélagið Hamar, Leikskólinn óskaland, leikskólinn Undraland, tjaldsvæðið og Golfklúbbur Hveragerðis og aðrar stofnanir bjóða nemendum að koma til sín og læra handbrögð við vinnu hjá sér.

Þegar sótt er um nám hjá Vinnuskólanum er hægt að velja um þá staði sem helst koma til greina að mati nemanda.

Nemendur sem voru að klára 9. Og 10. Bekk hafa forgang í þessar stöður.

Laun og vinnutími 2021

Fæðingarár Laun / Vinnustundir

Fæddir 2005   1227 kr. / 175 klst.

Fæddir 2006   981 kr. / 175 klst.

Fæddir 2007   809 kr. / 175 klst.

Starfsreglur Vinnuskóla

 

  • Flokkstjóri/leiðbeinandi er yfirmaður hvers vinnuhóps og eftir honum ber nemendum að fara. Næsti yfirmaður hans er yfirflokkstjóri.
  • Reykingar og öll önnur tóbaksnotkun er stranglega bönnuð á vinnutíma.
  • Símar skulu vera stilltir á hljóðlaust og ekki notaðar sem samskiptatæki á vinnutíma Vinnuskólans. Engin ábyrgð er tekin á slíkum tækjum á vinnutíma.
  • Engin ábyrgð er tekin á persónulegum hlutum sem komið er með til vinnu og eru ekki nauðsynlegir til starfsins.
  • Öll verkfæri í eigu Vinnuskólans eru afhent nemendum með því formerkjum að þau eru á ábyrgð þeirra. Skemmdir á eigum skólans skulu greiddar af þeim sem þeim veldur.
  • Allir starfsmenn Vinnuskólans í Hveragerði skulu stunda sína vinnu af stundvísi.
  • Nemendum ber að fara eftir því sem flokkstjóri segir. Allir starfsmenn sem skrá sig til vinnu í Vinnuskóla Hveragerði  hafa skráð sig þar vegna áhuga á að starfa innan Vinnuskólans.
  • Dónaskapur starfsmanns eða nemanda gegn öðrum verður ekki liðin.
  • Allir tilburðir til eineltis verða tilkynntir til garðyrkjufulltrúa um leið og þeir gerast. Við þá tilkynningu fer af stað verkferill vegna eineltismála.
  • Verði misbrestur á hegðun nemanda skal verkferill vegna agamála virkjaður.

 

 

Síðast breytt: 15.06.2021
Getum við bætt efni síðunnar?