Fara í efni

Leikskólinn Óskaland - fjölgun leikskólaplássa og bætt starfsmannaaðstaða

Mynd / Hveragerðisbær
Mynd / Hveragerðisbær

Að gefnu tilefni:

Þann 08.02. sl. samþykkti meirihluti bæjarstjórnar næstu skref í fjölgun leikskólaplássa í Hveragerði og á sama tíma bættri starfsmannaaðstöðu í Óskalandi. Staðfestir voru samningar þessa efnis við byggingaraðilann Hrafnshól og fasteignafélagið Eik, sem fjármagnar stækkunina.

Samningurinn er leigusamningur til 40 ára með kauprétti á 7 ára fresti, sá fyrsti 2031.

Mánaðarlegar leigugreiðslur eru kr. 3.260.000. og kaupverð að 7 árum liðnum kr. 600 milljónir. Núvirtur kostnaður af 7 ára leigu + kaupverði er kr. 675 milljónir eða 1.116 þús. pr.m2. Sé leikskólinn leigður í 7 ár til viðbótar eða í 14 ár og svo keyptur er núvirt kaupverð hans kr. 740 milljónir eða kr. 1.223 þús. pr.m2. Sé leikskólinn keyptur að loknum 40 ára leigutíma, er núvirðið kr. 867 milljónir eða kr. 1433 þús. pr.m2.

Leiguverð pr.m2. er kr. 5433 og er það mun hagstæðara en í öðrum sveitarfélögum sem farið hafa svipaða leið við byggingu leikskóla. Mikilvægt er að halda því til haga að um er að ræða sérsmíðað hús með þarfir leikskólabarna í huga, en ekki íbúðarhúsnæði.

Leigan er bundin við vísitölu frá og með janúar 2024 eða frá og með þeim tíma sem framleiðsla leikskólans hófst erlendis og staðfestingargreiðsla leigusalans til framleiðanda var greidd.

Hveragerðisbær greiðir opinber gjöld af húsnæðinu eins og tíðkast víða, frekar en að láta þau gjöld fara inn í leiguverðið. Hveragerðisbær sér um allt viðhald leikskólans að innan en leigusali sér um allt viðhald utanhúss.

Við þessa fyrirhuguðu breytingu bætist starfsmannaaðstaðan á Óskalandi til mjög mikilla muna en hún hefur verið bágborin síðustu ár og mjög svo reynt á starfsfólkið.

Það er mikið fagnaðarefni að með þessari hagkvæmu framkvæmd, bæði hvað varðar framkvæmdatíma og fjármuni, skapist 50 leikskólapláss sem áætlað er að svari uppsafnaðri þörf leikskólaplássa í bæjarfélaginu. Áætlað er að stækkunin verði tilbúin í lok september 2024.


Síðast breytt: 1. mars 2024
Getum við bætt efni síðunnar?