Fara í efni

Saga Hveragerðisbæjar

Upphaf byggðar
Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929, Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag 1987. Í árslok 2021 eru íbúar Hveragerðisbæjar 2.982.

Hveragerði byggðist í landi Vorsabæjar í Ölfusi en nafnið var upphaflega á hverasvæði því sem er í bænum miðjum, sunnan og vestan kirkjunnar. Hveragerði er fyrst skráð í Fitjaannál laust fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í landskjálftum 1597. Af lýsingu Ölfushrepps árið 1703 eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann á Reykjum má ætla að hverir hafi þá verið nýttir til baða, suðu og þvotta. Enn kemur Hveragerði við sögu árið 1844 þegar ákveðið var að flytja lögréttir Ölfusinga frá Hvammi í Borgarheiði við Hveragerði. Fyrsta tilraun til þurrabúðarlífs í Hveragerði tengist byggingu ullarverksmiðju við Reykjafoss í Varmá árið 1902. Vatnshjól og reimdrif knúðu vélar hennar og árið 1906 var sett upp lítil vatnsknúin rafstöð til ljósa og gatan að þjóðvegi við Ölfusréttir upplýst ári síðar, fyrsta götulýsing í dreifbýli á Íslandi. Reykjafossverksmiðjan var rekin til 1912 og árið 1915 var hún rifin nema grunnurinn sem enn sést.
Samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað 1928, 45 ha lands keyptir og var hverasvæðið þar í. Mjólkurstöðvarhús var byggt sumarið 1929 (Breiðumörk 26) og sama sumar risu tvö fyrstu íbúðarhúsin, Varmahlíð og sumarhús í Fagrahvammi þar sem ylrækt hófst í Hveragerði.

Fjölbreytilegar tilraunir til nýtingar jarðvarma í atvinnurekstri einkenna sögu Hveragerðis. Jarðhitasvæði í miðjum bænum og næsta nágrenni skapa Hveragerði sérstöðu meðal þéttbýla á Íslandi og þó víðar væri leitað.

Fjölgun íbúa
Íbúum í Hveragerði fjölgaði hægt fyrsta áratuginn og í árslok 1941 voru þeir um 140 (uppgefnar tölur á heilum eða hálfum tug). Næstu árin fjölgaði þeim hratt og voru um 400 í árslok 1946, stofnári Hveragerðishrepps. Næstu áratugina fjölgaði íbúum mun hægar, voru um 530 í árslok 1950, 685 í árslok 1960 og 740 í árslok 1970. Á síðustu árum hefur fjölgunin verið örari og þá einkum áratuginn 1971-1980. Íbúar voru um 1245 í árslok 1980, 1600 í árslok 1992, 1813 í árslok 2000 og eru um 2.476 í árslok 2016.

Nýting hverahitans til suðu, baksturs, þvotta og húshitunar mun hafa laðað marga til búsetu í Hveragerði í upphafi. Matur var soðinn og brauð bökuð í gufukössum við hveri eða húshlið. Þvottur var þveginn við hverina eða í hitaþróm við húsvegg. Sveitafólk í Ölfusi hafði lengi nýtt hverina til þvotta og bakað rúgbrauð í heitum jarðvegi við hverina eins og örnefnið Brauðholur vitnar um. Sumarbústaðir voru margir einkum á stríðasárunum. Samkvæmt fasteignaskrá frá 1941 voru 37 íbúðarhús í Hveragerði og 19 sumarbústaðir. Sumarbústaðirnir voru vestan hverasvæðisins flestir við göturnar Laufskóga og Hverahlíð. Á stofnári Hveragerðishrepps 1946 var 91 íbúð skráð þar. En í árslok 2016 eru þær um 900 talsins.

Atvinnusagan
Mjólkurbú Ölfusinga (Breiðumörk 26) starfaði árin 1930-38 og nýtti jarðhita frá Bakkahver til framleiðslu sinnar auk rafmagns frá virkjun sem reist var árið 1929 við Varmá. Í Varmárgilinu við Hverahvamm var byggð Þangmjölsverksmiðja sem framleiddi þangmjöl 1938-1940. Sú verksmiðja var síðan stækkuð og þar var þvegið af hernum, starfrækt sauma- og prjónastofa og ull þvegin til 1950.

Garðyrkjustöðin í Fagrahvammi markar upphaf ylræktar í Hveragerði og þar hlutu margir sína fyrstu skólun. Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum útskrifaði fyrstu garðyrkjufræðingana vorið 1941. Margir þeirra og verkamenn úr Fagrahvammi reistu garðyrkjustöðvar í Hveragerði. Í Hveragerði voru 7 garðyrkjustöðvar komnar 1940 en 20 árið 1950. Þar efldist mjög blómarækt á fimmta áratugnum og blómabærinn Hveragerði varð til.

Íbúar Reykjavíkursvæðis byrjuðu snemma að heimsækja Hveragerði til að kaupa garðyrkjuafurðir. Þetta er ennþá eitt sérkenna bæjarins einkum snemma sumars þegar kaupendur sumarblóma fylla þar götur. Úr þeim jarðvegi spratt m.a. Blómaskáli Paul Michelsens þar sem nú er verslunin Blómaborg og garðyrkjustöðin Eden, stofnuð 1958, sem var einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins um árabil. Eden brann til grunna þann 22. júlí 2011 og hefur ekki verið endurreist.

Ölfushreppur byggði þinghús í Hveragerði árið 1930 (Breiðumörk 25). Þar var farskóli til 1937 þegar húsið „Egilsstaðir“ (Skólamörk 6) var keypt til kennslu og heimavistar og skólahald í Ölfushreppi sameinað á einn stað. Veitingasala var í þinghúsi Ölfushrepps frá 1931 og þar hefur verið hótel frá 1947 en Hótel Örk er nú stærst í þeim rekstri. Árný Filippusdóttir byggði Hverabakka og rak þar kvennaskóla 1936-56. Sundlaugin í Laugaskarði var tekin í notkun 1938, og var lengi eina 50 m sundlaug landsins.

Árið 1950 byrjaði Landspítalinn rekstur leirbaða í Hveragerði og Náttúrulækningafélag Íslands hóf starfsemi heilsuhælis árið 1955. Árið 1952 keypti Sýslunefnd Árnessýslu tvö hús fyrir aldraða og samdi við Gísla Sigurbjörnsson á Grund um rekstur þeirra. Það varð vísirinn að Dvalarheimilinu Ási/Ásbyrgi. Fyrirtækið Kjörís hf. var stofnað 1968 og er nú langstærsta iðnfyrirtækið í bænum. Sigurður Elíasson stofnaði trésmíðaverkstæði í Hveragerði um 1946. Það varð vísirinn að Trésmiðju Hveragerðis (Breiðumörk 2) sem starfrækt var fram undir 1990 og þar lærðu fjölmargir trésmíðaiðn.

Verslun hófst í Hveragerði árið 1938 en frá 1942 og allt fram til þessa dags hefur verið rekin verslun í húsnæði því sem nú hýsir Kjöt og Kúnst við Breiðumörk. Kaupfélag Árnesinga hóf verslunarrekstur í Hveragerði 1944 og rak lengi útibú við Breiðumörk í Hveragerði í húsnæði því sem nú hýsir verk- og myndmenntakennslu Grunnskólans í Hveragerði. Sparisjóður Hveragerðis og nágrennis hóf starfsemi árið 1962 en fimm árum síðar yfirtók Búnaðarbanki Íslands sparisjóðinn og rak útibú í Hveragerði til 2020. Georg Michelsen hóf brauðgerð í Hveragerði 1946 og var fyrirtækið, Hverabakarí, að Heiðmörk 35, starfrækt um árabil, en nú með öðrum eigendum og undir nýju nafni eða "Almar bakari". Bakaríið er nú staðsett í Sunnumörk 2.

Síðast breytt: 10.02.2022
Getum við bætt efni síðunnar?