Fara í efni

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Með börnum er átt við einstakling innan 18 ára aldurs.

Tilkynning til barnaverndar

Barnaverndartilkynning

Barnaverndarlög nr. 80/2002 leggja þær skyldur á almenning að gera barnaverndarnefnd viðvart ef þess verður vart að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að því geti stafað hætta af. Sérstakar skyldur eru lagðar á lögreglu, og þá sem hafa afskipti af börnum, s.s. kennara, dagforeldra, presta, lækna, ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa um að tilkynna slík mál til barnaverndarnefndar.

Hvernig er tilkynnt?

Haft er samband við félagsráðgjafa í síma 483-4000 á opnunartíma bæjarskrifstofu sem er frá 9-16 alla virka daga. Ef tilkynna þarf utan skrifstofutíma er haft samband við neyðarlínuna í síma 112. Tilkynnandi getur óskað nafnleyndar gagnvart þeim sem tilkynnt er um nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Tilkynningar sem berast frá starfsmönnum stofnana skulu berast í nafni stofnunar og vera skriflegar. Hægt er að senda email á barnavernd@hveragerdi.is 

Nafnleynd

Samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 verður hver sá sem tilkynnir til barnaverndarnefndar að segja á sér deili. Tilkynnandi getur óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en nefndinni og skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Hverjar eru skyldur barnaverndarnefndar?

Ef tilkynningin byggist á rökstuddum grun ber barnaverndarnefnd að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barnsins sem í hlut á, tengsl þess við foreldra eða aðra, aðbúnað þess á heimili, skólagöngu, hegðun á heimili og utan þess, svo og um andlegt og líkamlegt ásigkomulag. Rétt er að taka fram að þessara upplýsinga er aflað með vitneskju foreldra nema sérstakar ástæður þyki til. Ef upplýsingar staðfesta ekki grun er máli lokið. Að öðrum kosti skal barnaverndarnefnd, í samráði við foreldra, gera skriflega áætlun um meðferð málsins, þar sem tilgreint er hvernig hagsmunir barnsins verði best tryggðir.

Hvað er hægt að gera í barnaverndarmálum?

Úrræði sem beitt er skv. barnaverndarlögum og lúta að þörfum barna og fjölskyldna eru:

  • Leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns.
  • Stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að beitt verði úrræðum skv. öðrum lögum.
  • Útvega barni viðeigandi stuðning og meðferð
  • Tilsjónarmaður – aðstoða foreldra við að sinna uppeldiskyldu sinni.
  • Persónulegur ráðgjafi – ráðgjöf, tómstundir, rjúfa félagslega einangrun
  • Stuðningsfjölskylda – taka á móti barni til vistunar.
  • Aðstoða foreldra eða þungaða konu við að leita sér meðferðar.
  • Vista barn um skamman tíma utan heimilis á meðferðarstofnun,vistheimili eða fósturheimili.
  • Ráðstafa barni í fóstur

 

Síðast breytt: 30.06.2023
Getum við bætt efni síðunnar?