Fara í efni

Bæjarstjórn

501. fundur 08. nóvember 2018 kl. 17:00 - 18:31 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Alda Pálsdóttir varamaður
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir varamaður
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri.
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 25.október 2018.

1810002F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 4,6,7,10,13 og 14.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Liður 4 "Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 22. október 2018" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 6 "Bréf frá Lionsklúbbi Hveragerðis frá 5. október 2018" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 7 "Bréf frá Lionsklúbbnum Eden frá 5. október 2018" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 10 "Bréf frá Íþróttafélaginu Hamri ódagsett" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 13 "Lóðarumsókn - Vorsabær 11" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 14: "Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar dags. 17.október 2018" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir upphæðir vegna fjárhagsaðstoðar eins og þær eru þarna lagðar fram og jafnframt gjaldskrá vegna heimaþjónustu og greiðslur til stuðningsfjölskyldna í barnavernd.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 1.nóvember 2018.

1810003F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 4,5 og 6.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 4 "Minnisblað frá bæjarstjóra: Villikettir ehf" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 5 "Minnisblað frá skipulagsfulltrúa: Skólpstöðin í Hveragerði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 6 "Minnisblað frá menningar- og frístundafulltrúa: Skjáir fyrir Sundlaugina Laugaskarði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 6.nóvember 2018.

1811001

Liður 2 afgreiddur sérstaklega.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 2 "Vorsabær, athafnasvæði, breytingar á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að Landform ehf verði falin gerð tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðisins í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulög. Gerð verði lýsing á verkefninu sbr. 40.gr. og málsmeðferð verði skv. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn samþykkir að nýr vegur sem mun liggja frá veginum Vorsabæ að fiskeldistöðinni Öxnalæk fái heitið Öxnalækur.

4.Fundargerð Fræðslunefndar frá 22.október 2018.

1810050

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Varðandi lið 1 samþykkir bæjarstjórn að sumarfrí leikskólanna verði 23 dagar (sem börnin verða í fríi). Sumarfrí beggja leikskóla verði á sama tíma. Könnun verði gerð meðal foreldra hvaða tímabil henta best fyrir sumarið 2019 en eftir það verða sumarfrí leikskólanna annað hvort fyrri part sumars eða síðari.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.Tillaga frá Okkar Hveragerði um innleiðingu aukins þátttökulýðræðis.

1811004

Okkar Hveragerði lagði fram eftirfarandi tillögu.

Tillaga um þátttöku í tilraunaverkefni um innleiðingu aukins þátttökulýðræðis.

Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis leggja til að bæjarstjórn Hveragerðisbæjar óski eftir því við Akureyrarbæ að Hveragerðisbær verði þátttakandi í tilraunaverkefni þeirra fyrrnefndu um innleiðingu aukins þátttökulýðræðis.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Greinargerð
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti nýverið að taka markviss skref í átt til aukins þátttökulýðræðis innan bæjarins og er um þessar mundir að leita eftir samstarfi við önnur sveitarfélög sem og við Samband íslenskra sveitarfélaga um þátttöku í tilraunaverkefni um innleiðingu aukins þátttökulýðræðis.
Íbúalýðræði er hluti af samfélagslegri stoð sjálfbærniviðmiða og þar sem Hveragerðisbær hefur mótað sér skýra sýn um að vera sjálfbært bæjarfélag telur Okkar Hveragerði samstarfið sem Akureyri er að leita eftir við önnur sveitarfélög einstakt tækifæri til að innleiða nýja verkferla þáttökulýðræðis og íbúasamráðs innan Hveragerðisbæjar.

Í riti um íbúasamráð, sem Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út í nóvember árið 2017, kemur fram að bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýni að sveitarstjórnir sem innleiða samráðsmenningu njóti meira trausts meðal íbúa. Einnig að meiri ánægja sé með stjórnun og þjónustu sveitarfélaga sem hafa innleitt íbúalýðræði í sína verkferla.

Í ritinu er einnig lögð áhersla á að íbúar sveitarfélags séu sérfræðingar í sínu nærumhverfi. Vel uppbyggt samráð við þá muni því leiða til að ákvarðanir verði teknar á breiðari þekkingargrunni og stuðla þannig að vandaðri ákvarðanatöku. Íbúasamráð geti þannig orðið til þess að betri sátt náist um ákvarðanir því ferlið auki skilning íbúa á ólíkum hagsmunum og sjónarmiðum. Í ritinu segir einnig eftirfarandi: „ Þá getur íbúasamráð vakið áhuga íbúa á að verða virkari þátttakendur í samfélaginu og stuðlað þannig að auknum félagsauði sem er ein dýrmætasta auðlind hvers samfélags. Það er því til mikils að vinna fyrir sveitarstjórnir að læra að ástunda íbúasamráð á réttan hátt“.
(Íbúasamráð í sveitarfélögum og þátttaka íbúa. Samband íslenskra sveitarfélaga, 2017, bls. 6.)

Eftirtaldir tóku til máls: Þórunn Pétursdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Eyþór H. Ólafsson.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða. Bæjarstjóra falið að hafa samband við Akureyrarbæ og kanna í hverju tilraunaverkefnið felst og leggja þær upplýsingar fyrir bæjarstjórn. Í framhaldinu verði metið hvort ástæða sé til að taka þátt í verkefninu og ef það er metið svo að þá verði skipaður starfshópur sem vinni að framgangi þess.

6.Gjaldskrá sorphirðu og sorpurðunar 2019, fyrri umræða.

1811005

Kl. 17:38 var gert fundarhlé.
Kl. 17:47 hélt fundur áfram.

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpurðun í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

7.Gjaldskrá hundaleyfa og handsömunargjalds 2019, fyrri umræða.

1811006

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir hundahald í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

8.Gjaldskrá kattahalds 2019, fyrri umræða.

1811007

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir kattahald í Hveragerðisbæ.
Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

9.Gjaldskrá vatnsgjalds 2019, fyrri umræða.

1811009

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir vatnsveitu í Hveragerðisbæ.
Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

10.Gjaldskrá fráveitu 2019, fyrri umræða.

1811008

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir fráveitu í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

11.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2019, fyrri umræða.

1811002

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2019.

Bæjarstjóri kynnti áætlunina og lagði fram eftirfarandi greinargerð.

Eins og undanfarin ár var fjárhagsáætlun ársins 2019 unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.

Almennt:
Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2019 er unnin með það að markmiði að íbúum Hveragerðisbæjar verði tryggð besta mögulega þjónusta og að reynt verði eftir fremsta megni að halda álögum í sem bestu samræmi við það sem gerist í samanburðarsveitarfélögum.

Markmið:
Markmið bæjarstjórnar við gerð áætlunarinnar er að skilyrði sveitarstjórnarlaga verði uppfyllt en í því felst m.a. að:
1. Samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu A/B hluta skal vera jákvæð á hverju þriggja ára tímabili.
2. Heildarskuldir og skuldbindingar séu ekki hærri en sem nemur 150% af tekjum.

Forsendur:
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 er tekið mið af útkomuspá ársins 2018.
Íbúafjölgun í Hveragerði er stöðug og eru íbúar nú 2.627. Hefur íbúum fjölgað um 74 eða um 2,8% á árinu. Er það svo til uppá einstakling sama fjölgun á milli ára og síðast var raunin en þá fjölgaði um 75 manns, nam sú fjölgun um 3%. Enn er mikil eftirspurn eftir húsnæði í bæjarfélaginu en sárafáum lóðum hefur verið unnt að úthluta á árinu 2018. Þrátt fyrir það er ljóst að framboð húsnæðis mun stóraukast strax á næsta ári en framkvæmdir eru hafnar eða við það að hefjast á 156 íbúðum í bæjarfélaginu. Á árinu 2019 munu þær íbúðir byrja að koma inná markaðinn þannig að ljóst er að fjölgun íbúa í bæjarfélaginu verður veruleg á næstu misserum. Árið 2019 er gert ráð fyrir að langþráðar framkvæmdir hefjist í Kambalandi og að þar verði þá strax á næsta ári hægt að úthluta lóðum. Ljóst er því að ef ytri aðstæður breytast ekki stórkostlega til hins verra þá mun íbúum í Hveragerðisbæ fjölga verulega á næstu misserum.

Fasteignaverð hefur hækkað mjög skarpt í Hveragerði að undanförnu með þeirri beinu afleiðingu að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað mjög mikið. Vegna þessa hefur bæjarstjórn tekið ákvörðun um að lækka álagningarprósentur fasteignagjalda á íbúðar- og atvinnuhúsnæði (A og C flokk).
Með þessu er komið til móts við þær miklu hækkanir á gjöldum sem annars hefðu orðið að veruleika.


* Í fyrri umræðu er gert ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,52%.
* Álagningarprósenta fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,40% í 0,36% og lóðarleiga úr 0,9% í 0,75%.
* Álagningarprósenta fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,60% í 1,5% og lóðarleiga úr 1,7% í 1,5%.
* Álagningarprósenta á vatnsgjald á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,08% í 0,06%.
* Aukavatnsgjald hækkar úr 12,5 kr. á rúmmetra í 13 krónur.
* Álagningarprósenta holræsagjalds lækkar úr 0,255% í 0,21% á alla flokka húsnæðis.
* Sorphirðugjöld lækka og verða 15.000.- Gjöld vegna sorpurðunar hækka og verða 21.000,-.
Því miður reynist nauðsynlegt að hækka verulega álögur á íbúa vegna sorpurðunar. Sorp hefur aukist mikið síðustu misserin og hefur kostnaður vegna sorpurðunar margfaldast. Í ljósi óvissu um framhald mála varðandi sorpurðun og þeirri aukningu sem orðið hefur á sorpi er þessi hækkun nauðsynleg. Einnig mun verða gjörbreyting á fyrirkomulagi innheimtu á gámasvæðinu því þar hefur kostnaður við urðun og magn sorps margfaldast og innheimtar tekjur standa engan veginn undir kostnaði við urðun.
* Bæjarstjórn hefur undanfarin ár miðað hækkun gjaldskráa við verðlagsþróun síðastliðins árs en ekki við verðbólguspá komandi árs. Með þessu móti telur bæjarstjórn sig vinna með rauntölur sem hlýtur að vera eðlilegra en að hækka gjaldskrár á undan verðbólgunni en slíkt eykur verðbólguþrýsting. Gjaldskrár hækka því miðað við verðlagsþróun 2018 eða um 2,74% að jafnaði. Í öllum tilfellum er hagur bæjarbúa hafður að leiðarljósi og hækkunum stillt í hóf eins og mögulegt er.
* Gert er ráð fyrir að framlag Jöfnunarsjóðs lækki frá áætlaðri niðurstöðu ársins 2018 og byggir áætlun ársins 2019 á rauntölum ársins 2018 og spám Jöfnunarsjóðs.
* Hvað varðar rekstur er sú breyting stærst að á árinu 2018 opnuðu allar deildir nýja leikskólans Undralands. Þó er ljóst að með fjölgun starfsmanna má enn bæta við þónokkuð mörgum börnum og gert er ráð fyrir að skref verði stigin í þá átt á árinu. Þar er einnig gert ráð fyrir að hádegisverður verði eldaður fyrir báða leikskólana í nýja eldhúsinu og verður maturinn keyrður til Óskalands. Gert er ráð fyrir auknum rekstri mötuneytis leikskólanna vegna þessa en minni útgjöldum á Óskalandi af sömu ástæðu.
Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og ber að þakka þann góða vilja og jákvæðni sem starfsmenn hafa sýnt við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Ætlast er til að forstöðumenn sýni eins og ávallt ýtrustu hagkvæmni bæði í innkaupum og í starfsmannahaldi.

Viðhald og fjárfestingar:
* Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2019 er viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist næsta sumar og þeim ljúki fyrir upphaf skólastarfs haustið 2020. Um er að ræða viðbyggingu til suðurs þar sem gert er ráð fyrir nokkrum kennslustofum og sérkennslurýmum.
Á árinu 2018 keypti Hveragerðisbær stórt landsvæði vestast í byggðinni, Kambaland. Þar lá fyrir deiliskipulag að stóru hverfi og framkvæmdir voru hafnar við gatnagerð. Á árinu er gert ráð fyrir að uppbygging hefjist í Kambalandi, gatnagerð fari af stað í fyrsta áfanga og að lóðum verði úthlutað þar snemma árs. Þá mun verða hægt að úthluta 56 íbúðum í fjölbýlishúsum, raðhúsum og einbýlishúsum. Fjármunir eru settir til greiðslu á kvöð sem hvíldu á landinu en samningar hafa tekist um lok þess máls.
Gert er ráð fyrir framhaldi á endurbótum sundlaugarhússins í Laugaskarði og fjármunir settir til viðhalds annars búningsklefans.
Ráðast á í frágang á hluta bílastæðis við Hamarshöll og að þar verði jafnframt reist lítið hús yfir vélbúnað Hamarshallarinnar. Þá er einnig gert ráð fyrir lagfæringum á eldri götum, gangstígum og gangstéttum, merkingum og öðru slíku.
Gert er ráð fyrir kaupum á félagslegu húsnæði.
Fyrirhugað var að ráðast í endurbætur á ytra byrði Mjólkurbúsins árið 2018 en þar sem sú framkvæmd er ekki enn hafin þá er eru núna settir til hliðar fjármunir til að greiða fyrir það verk samkvæmt því eina tilboði sem barst.
Þó nokkrir fjármunir eru síðan settir til viðhalds mannvirkja í eigu bæjarfélagsins.
Framkvæmdir verða þó nokkrar við fráveitu en þar er gert ráð fyrir að fjárfesta í búnaði vegna kölkunar á seyru og til að bæta loftgæði í og við stöðina.
Aðrar fjárfestingar Hveragerðisbæjar á árinu 2019 eru smærri.

Rekstrartölur:
Við framlagningu fjárhagsáætlunar til fyrri umræðu er gert ráð fyrir að áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 2.966 m.kr. fyrir árið 2019. Þar af eru skatttekjur ráðgerðar kr. 1.688 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 556 m.kr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 722 m.kr.
Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 2.760 m.kr.. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 206 milljónir sem er 6,9% af tekjum.
EBITDA Hveragerðisbæjar er 336 m.kr.. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 150 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 55,3 m.kr. Í fyrri umræðu er gert ráð fyrir
3% verðbólgu á árinu 2019. Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2017, 2018 og 2019 verður því jákvæð um 167 m.kr. sem er í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga.

Skuldir og skuldbindingar:
Afborganir langtímalána verða rúmlega 184 m.kr. og tekin ný lán munu nema 175 m.kr.
á árinu 2019. Í lok árs 2019 verða langtímaskuldir samstæðu 3.348 m.kr.. Þar af er lífeyrisskuldbinding sveitarsjóðs 643 m.kr. og skuldbindingar vegna leigugreiðslna 277 m.kr.
Skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar í lok ársins 2019 munu verða 118% af árstekjum. Skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert myndi skuldahlutfallið batna enn frekar og verða 108%. Er skuldastaða sveitarfélagsins því vel undir skuldaþakinu sem lögfest hefur verið í sveitarstjórnarlögum.

Lokaorð:
Nánari útfærsla einstakra liða mun koma fram i ítarlegri greinargerð sem lögð verður fram við síðari umræðu um fjárhagsáætlun þann 13. desember nk.



Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Samþykkt að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu.

12.Þriggja ára fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2020-2022, fyrri umræða.

1811003

Lögð fram til fyrri umræðu þriggja ára fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2020-2022.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir forsendum þriggja ára fjárhagsáætlunar fyrir árin 2020-2022 og lagði fram eftirfarandi greinargerð:

Unnið var í samræmi við eftirfarandi markmið við gerð þriggja ára áætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árin 2020-2022:

* Fjárfestingar verða helstar á sviði gatnagerðar, skólamannvirkja og íþróttamannvirkja.
* Skuldahlutfallið fari lækkandi þrátt fyrir framkvæmdir á tímabilinu.
* Samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu A/B hluta verði jákvæð á tímabilinu.

Almennt:
Í áætluninni er gert ráð fyrir hóflegri hækkun skatttekna næstu árin:
Gert er ráð fyrir 3% hækkun vísitölu á tímabilinu.
Íbúafjölgun verði 3,5% á ári.
Tekjur af útsvari hækki um 7,5% öll árin (4% launavísitala, 3,5% íbúafjöldi).
Tekjur af fasteignagjöldum hækki um 6% öll árin (3% vísitala, 3% fjöldi álagðra fermetra).
Framlög úr Jöfnunarsjóði hækki um 7,5% öll árin (4% launavísitala, 3,5% íbúafjöldi).
Aðrar tekjur hækki um 3% á ári.
Laun hækki um 4% á ári.
Annar kostnaður hækki um 3% á ári.

Lántökur á tímabilinu taka mið af þeim fjárfestingum sem fyrirsjáanlegar eru á þessum tímapunkti. Á tímabilinu verður byggt við grunnskólann enda ljóst að með fjölgun íbúa eykst þörf fyrir skólahúsnæði. Jafnframt er augljóst að halda þarf áfram endurbótum á húsnæði Sundlaugarinnar í Laugaskarði og því eru fjármunir settir til þessara tveggja stofnana. Einnig er gert ráð fyrir umtalsverðri gatnagerð á tímabilinu. Vegna fjölgunar íbúa mun reynast nauðsynlegt að fara í viðbætur við fráveitumannvirkið og er gert ráð fyrir þeim á tímabilinu.
Gert er ráð fyrir 65 m.kr. langtímaláni árið 2020 en engri lántöku árin 2021 og 2022.
Fjárfestingar:
Helstu fjárfestingar á þessu tímabili munu verða eftirfarandi í þús. kr.:

Á árinu 2020
Götur og göngustígar 75.000
Gatnagerðartekjur -60.000
Sundlaug 50.000
Grunnskóli 103.200
Fráveitumannvirki 25.000
Aðrar fjárfestingar 20.000
Alls fjárfesting 213.200

Á árinu 2021
Götur og göngustígar 100.000
Gatnagerðartekjur -75.000
Bílastæði við Hamarshöll 30.000
Sundlaug 10.000
Íbúðir fyrir félagsþjónustu 30.000
Fráveitumannvirki 20.000
Bílar og tæki 10.000
Aðrar fjárfestingar 20.000
Alls fjárfesting 145.000

Á árinu 2022
Götur og göngustígar 100.000
Gatnagerðartekjur -75.000
Bílastæði við Hamarshöll 30.000
Grunnskóli 17.200
Íbúðir fyrir félagsþjónustu 30.000
Fráveitumannvirki 15.000
Aðrar fjárfestingar 20.000
Alls fjárfesting 137.200

Rétt er að ítreka að fjárfestingaáætlun er endurskoðuð við fjárhagsáætlunargerð hvers árs í ljósi þess efnahagslega umhverfis sem ríkir á hverjum tíma.

Skuldir og skuldbindingar:
Heildarskuldir Hveragerðisbæjar munu lækka á tímabilinu þrátt fyrir að framkvæmdir séu allverulegar. En það markmið bæjarstjórnar að skuldir samstæðu verði undir skuldaþakinu hefur þegar náðst og mun það ekki breytast þrátt fyrir nýjar fjárfestingar í samræmi við þriggja ára áætlun. Skuldir samstæðu munu þróast með eftirfarandi hætti að teknu tilliti til þess að skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Í sviga má sjá skuldahlutfallið án þess að heimild skv. fjármálareglum sé nýtt:

2019 108 % af tekjum (118%)
2020 100 % af tekjum (110%)
2021 90 % af tekjum (100%)
2022 81 % af tekjum (100%)

Á árunum 2020-2022 munu afborganir lána nema 624 m.kr. en á sama tímabili verða tekin ný langtímalán að upphæð 65 m.kr. eins og áður er getið.

Lokaorð:
Bæjarstjórn er einhuga í þeim vilja sínum að hlúa að því sem skiptir máli í nærumhverfinu. Unnið er að því markmiði að veita íbúum góða þjónustu en jafnframt að sýnd verði ráðdeild í verki. Stigin hafa verið stór skref við uppbyggingu grunnþjónustu á undanförnum árum. Með nýjum leikskóla hefur verið unnt að bjóða börnum frá 12 mánaða aldrei leikskólavistun. Frístundaskólinn og félagsmiðstöð unglinga hafa hreiðrað um sig á nýjum stað sem gefið hefur möguleika á fjölbreyttu öflugu starfi. Framundan eru bjartir tímar í Hveragerði. Sveitarfélagið er vinsælt til búsetu og eignir seljast hratt og fá færri en vilja. Það er jákvætt að bæði ungir sem þeir sem eldri eru sjái framtíð sína og fjölskyldu sinnar vel borgið hér í Hveragerði. Framkvæmdir næstu ára lúta allar að því að bæta lífsgæði, gera Hveragerði að enn betri búsetukosti.
Með stöðugt lækkandi skuldum og léttari greiðslubyrði mun skapast svigrúm til að íbúar fái notið bætts rekstrar og meiri þjónustu þar sem þess er nokkur kostur.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Eyþór H. Ólafsson.
Samþykkt að vísa þriggja ára fjárhagsáætlun til síðari umræðu.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 18:31.

Getum við bætt efni síðunnar?