Fara í efni

Bæjarstjórn

562. fundur 27. apríl 2023 kl. 17:00 - 17:46 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Njörður Sigurðsson
  • Sandra Sigurðardóttir
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
  • Halldór Benjamín Hreinsson
  • Andri Helgason varamaður
  • Alda Pálsdóttir
  • Eyþór H. Ólafsson
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Varaforseti bæjarstjórnar, Njörður Sigurðsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Kl. 17:02 var gert fundarhlé.
Kl. 17:12 hélt fundur áfram.

Bæjarstjórn lagði fram eftirfarandi bókun.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fagnar frábærum árangri meistaraflokks karla í körfuknattleik og blaki hjá Íþróttafélaginu Hamri og óskar þessum íþróttamönnum hjartanlega til hamingju með árangurinn. Á mánudag tryggði körfuknattleiksliðið sér sæti í efstu deild karla á næstu leiktíð og á þriðjudag hóf karlalið félagsins í blaki titilvörn sína í lokaviðureigninni um Íslandsmeistaratitilinn. Bæjarstjórn sendir þeim baráttukveðjur.

1.Erindi frá Heilsustofnun vegna sumarlokunar í leikskólum Hveragerðisbæjar

2304064

Bréf frá Heilsustofnun NLFÍ frá 23. mars 2023 þar sem stjórnendur Heilsustofnunar lýsa yfir óánægju sinni með fyrirkomulagið hjá Hveragerðisbæ að loka báðum leikskólunum á sama tíma yfir sumarleyfistímann. Þetta fyrirkomulag veldur vandræðum við skipulagningu sumarleyfa, óánægju foreldra leikskólabarna sem vinna hjá Heilsustofnun og vinnufélaga þeirra með að foreldrar leikskólabarna séu þvingaðir,- og hafi þannig í raun forgang, til frítöku á vinsælasta sumarleyfistímanum vegna lokunar leikskólanna.


Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Sandra Sigurðardóttir og Alda Pálsdóttir.
Bæjarstjórn þakkar Heilsustofnun fyrir ábendinguna. Á leikskólum bæjarins er unnið mikilvægt starf og þarf að huga að faglegum þáttum starfsins er varðar skipulag þess sem og að þjónusta við fjölskyldur og samfélagið verði sem allra best. Þar sem útfærsla sumarleyfa þessa árs hefur þegar verið skipulögð samþykkir bæjarstjórn að leikskólastjórum verði falið að gera tillögur um fyrirkomulag sumarleyfa á leikskólum fyrir árið 2024 og að tillögurnar verði teknar fyrir í vinnu við útfærslu á heildarreglum um leikskólaþjónustu og í fjárhagsáætlunarvinnu fyrir næsta ár.

2.Breyting á samþykktum fyrir byggðasamlagið Bergrisann bs, seinni umræða

2302055

Lagðar fram breytingar á samþykktum fyrir byggðasamlagið Bergrisan bs til seinni umræðu.

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir og Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjórn samþykkir samþykktirnar með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.

3.Jafnlaunastefna Hveragerðis 2023 - 2027

2304048

Lögð fram jafnlaunastefna Hveragerðisbæjar frá 2023 - 2027.

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Alda Pálsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Halldór B. Hreinsson.
Bæjarstjórn samþykkir jafnlaunastefnuna.

4.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2022, fyrri umræða

2304065

Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022.

Sandra Sigurðardóttir formaður bæjarráðs kynnti ársreikning 2022.

Í ársreikningi fyrir árið 2022 er í fyrsta sinn tekin inn í rekstur Hveragerðisbæjar öll samstarfsverkefni sem Hveragerði er aðili að og eru þau öll bókuð með A-hluta.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 278 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu að fjárhæð kr. 95,5 m.kr.

Heildartekjur A og B hluta eru 4.413 m.kr. og heildarútgjöld án fjármagnsliða og afskrifa 4.034 m.kr.
Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er neikvæð um 248 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á 76,5 m.kr.

Helstu ástæður þessa munar er að hækkun vísitölu var mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Hækkun vísitölu á árinu 2022 var 9,5% en gert var ráð fyrir 4% hækkun. Slíkar hækkanir á vísitölu hafa gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu allra sem skulda.

Önnur atriði sem gera frávik frá fjárhagsáætlun eru launahækkanir og fjölgun stöðugilda en launakostnaður fer um 150 m.kr. umfram áætlun. Annar rekstrarkostnaður fer 77 m.kr fram úr áætlun. Ljóst er að kjarasamningar og ýmsar breytingar sem í þeim eru hafa haft mikil áhrif á rekstur sveitarfélaga sem erfitt var að sjá fyrir í aðdraganda gerðar fjárhagsáætlunar. Heildartekjur hækka um 467 m.kr. og dugar það til að mæta þeim auka kostnaði sem varð á árinu fyrir utan hækkun á vísitölu.
Rekstarafkoma fyrir fjármagnsliði hjá A og B hluta er 216 m.kr en áætlun var176 m.kr.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 360 m.kr. eða 8,2% af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 109 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 251,5 m.kr. Munar þar mest um aukningu á óinnheimtum gatnagerðargjöldum.

Fjárfestingar á árinu 2022 námu 68,5 m.kr. sem er minna en gert var ráð fyrir. Felst það aðallega í auknum tekjum af gatnagerð.

Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar/Breiðumerkur nema 358 m kr. Tekin ný langtímalán voru 470 m.kr..
Í árslok er hlutfall skulda af tekjum að frádregnum lífeyrisskuldbindingum sem falla til eftir 15 ár eða síðar 98,03%.

Rétt er að geta þess að ársreikningurinn er óendurskoðaður við fyrri umræðu en endurskoðendur óska eftir að sá háttur sé hafður á. Þrátt fyrir að endurskoðun sé að mestu lokið geta komið upp skekkjur sem kunna að krefjast leiðréttingar á ársreikningnum. Frekari umfjöllun um ársreikninginn mun fara fram við síðari umræðu sem fram fer í maí og þá munu endurskoðendur einnig skila skoðunarbréfi sínu og ítarlegar verður fjallað um einstaka liði ársreikningsins.


Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Sandra Sigurðardóttir, Eyþór H. Ólafsson og Halldór B. Hreinsson.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 17:46.

Getum við bætt efni síðunnar?