Fara í efni

Bæjarstjórn

539. fundur 25. nóvember 2021 kl. 17:00 - 17:47 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Friðrik Sigurbjörnsson formaður
  • Eyþór H. Ólafsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Hlynur Kárason varamaður
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Friðrik Sigurbjörnsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Umsókn um rekstrarleyfi - Greenhouse cafe.

2111062

Sýslumaðurinn á Suðurlandi óskar eftir umsögn Hveragerðisbæjar vegna umsóknar Greenhouse cafe ehf kt. 620721-0850 um leyfi til reksturs Veitingaleyfi-E kaffihús.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við umsókn Greenhouse cafe ehf kt. 620721-0850 um leyfi til reksturs Veitingaleyfi-E kaffihús, Austurmörk 6, fasteignanúmer 235-7516.

2.Gjaldskrá sorphirðu og sorpurðunar 2022, fyrri umræða.

2111060

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpurðun í Hveragerðisbæ.

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Samþykkt að vísa gjaldskránnni til síðari umræðu.

3.Gjaldskrá hundahalds 2022, fyrri umræða.

2111059

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir hundahald í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

4.Gjaldskrá kattahalds 2022, fyrri umræða.

2111058

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir kattahald í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

5.Gjaldskrá vatnsgjalds 2022, fyrri umræða.

2111057

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir vatnsveitu í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

6.Útsvarsprósenta í Hveragerði 2022.

2111055

Lagt fram minnisblað frá 22. nóvember 2021 vegna ákvörðunar útsvarsprósentu Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að útsvarsprósenta Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022 verði óbreytt eða 14,52%

7.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2022, fyrri umræða.

2111054

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.

Bæjarstjóri kynnti fjárhagsáætlun ársins 2022 og lagði fram eftirfarandi greinargerð við fyrri umræðu:

Fjárhagsáætlunin sem hér er lögð fram er sú síðasta á yfirstandandandi kjörtímabili. Eins og undanfarin ár var fjárhagsáætlun unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022.


Almennt
Starfsemi Hveragerðisbæjar gengur vel og og hafa íbúar Hveragerðisbæjar skipað sér í hóp þeirra ánægðustu á landinu þegar spurt er um þjónustu sveitarfélaga. Umsvif hafa aukist gríðarlega í bæjarfélaginu þrátt fyrir það högg sem heimsfaraldur af völdum Covid-19 hefur valdið heimsbygginni allri sem og okkar nærumhverfi. Hveragerðisbær býr nú að því að hafa verið með hallalausan rekstur árin á undan covid og er því betur í stakk búinn en ella til að takast á við það efnahagslega högg sem nú ríður yfir heimsbyggðina. Gert er ráð fyrir tímabundnum hallarekstri á meðan að þetta ástand varir.

Margar stórar framkvæmdir hafa verið kláraðar eins og viðbygging við grunnskólann, endurbætur á búningsklefum sundlaugarinnar, umfangsmikil gatnagerð og keypt hefur verið land svo fátt eitt sé talið. Áhersla hefur verið lögð á ráðdeild en þó þannig að veitt sé óbreytt eða aukin þjónusta. Áætlunin endurspeglar þá staðreynd að í Hveragerði hefur íbúum fjölgað mjög mikið og því er nauðsynlegt að fjárfesta í innviðum til að mæta aukinni þjónustuþörf.

Þegar fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 var lögð fram var rætt um að óvissa væri gríðarleg hvað varðar rekstrarlegt umhverfi landsins og reyndar heimsbyggðarinnar allrar. Hafa þetta því miður reynst orð að sönnu. Þá var búist við því að bólusetningar myndu gjörbreyta stöðunni sem þær vissulega hafa gert en þó ekki með jafn afgerandi hætti og vonast var til og því er ljóst að fjárhagsleg óvissa næstu missera er enn mikil. Breyttur veruleiki í kjölfar covid er staðreynd og miklar áskoranir eru framundan í rekstri sveitarfélaga. Ljóst er að kórónuveirufaraldurinn muni hafa viðvarandi og mikil áhrif hér á landi og þar með einnig í okkar sveitarfélagi.

Við gerð fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022 er tekið tillit til afleiðinga faraldursins og fyllstu hagræðingar gætt. Þó er ljóst að miðað við þá fólksfjölgun sem hér er staðreynd er óhjákvæmilegt að bæta við starfsmönnum og á það sérstaklega við á tæknisviði sem og á fræðslusviði og í félagsmálum.

Við áætlunargerðina er enn og aftur tekið mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamningana þar sem óskað var eftir því að gjaldskrárhækkunum yrði stillt í hóf og þær færu ekki umfram verðlagsþróun og því munu gjaldskrár ekki hækka að raungildi árið 2022.

Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir búsetu í Hveragerðisbæ og nú er staðan sú að hvergi í samanburðarhæfum sveitarfélögum er fjölgunin meiri en hér eða um 7% á árinu 2021 og hvergi er heldur byggt meira en hér, hlutfallslega, en nýbyggingar eru 12,1% sem hlutfall að því húsnæði sem er fyrir.

Þrátt fyrir fordæmalausa ásókn í búsetu og þá staðreynd að öllum lausum lóðum fyrir íbúðahúsnæði er úthlutað samstundis er það meðvituð stefna bæjarstjórnar að ávallt haldist í hendur framúrskarandi þjónusta og fjölgun íbúa. Jafnframt hefur stefna bæjarstjórnar miðað að því að uppbygging íbúðarhúsnæðis sé bæði fjölbreytt og falleg og fylgi þannig yfirlýstri stefnu um að staðarandi Hveragerðisbæjar haldist áfram jafn góður og verið hefur.

Forsendur
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 er tekið mið af útkomuspá ársins 2021. Íbúafjölgun í Hveragerði er stöðug og eru íbúar nú 2.979. Hefur íbúum fjölgað um rétt ríflega 200 eða um 7% á árinu sem er eins og áður er sagt fordæmalaus fjölgun og sú mesta sem nú á sér í samanburðarhæfum sveitarfélögum.

Uppbygging í Kambalandi er mun hraðari en bjartsýnustu menn þorðu að vona og augljóst að kaup Hveragerðisbæjar á því landi voru skynsamleg ráðstöfun sem mun margborga sig. Einnig er verið að byggja í eldri bæjarhlutum en möguleikar til þéttingar byggðar í Hveragerði eru víða miklir.

Með þeim lóðum sem þegar hefur verið úthlutað og þeim lóðum sem fyrirhugað er að úthluta 2022, Hólmabrún, Friðarstöðum og atvinnulóðum í Vorsabæ, Öxnalæk og Friðarstöðum ásamt þeirri uppbyggingu sem þegar er í gangi á Edenreitnum og fyrirhuguð er á Tívolí reitnum eru íbúðir í byggingu eða framundan á teikniborðinu í bæjarfélaginu um 250 alls. Munu þær íbúðir væntanlega geta hýst um 600 nýja íbúa sem flytja munu í bæjarfélagið á næstu árum. Ljóst er því að hugsa þarf til framtíðar og búa bæjarfélagið með sem bestum hætti undir þá íbúafjölgun sem í vændum er.

Fasteignaverð hefur hækkað skarpt í Hveragerði að undanförnu sem óhjákvæmilega hefur leitt til þess að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað ár frá ári. Bæjarstjórn hefur árlega stillt álagningarprósentuna þannig að hækkun gjalda hefur ekki verið umfram verðlagsþróun að meðaltali. Hafa álagningarprósentur verið lækkaðar umtalsvert til þess að ná þessu markmiði. Meðaltals hækkun fasteignamats næsta árs er um 4,5% sem er það sama og verðlagsþróun síðasta árs og því breytast álagningarprósentur ekki í ár. Með þessari aðferð hefur verið séð til þess að íbúar Hveragerðisbæjar þurfa ekki að greiða gjöld í samræmi við sífellda verðmætaaukningu eigna þeirra heldur eingöngu miðað við verðlagsþróun sem er umtalsvert lægri árlega.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2022 eru:

-
Gert er ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,52%.

-
Álagningarprósenta fasteignaskatts á allar tegundir húsnæðis eru óbreyttar.

-
Álagningarprósentur á vatnsgjaldi, holræsagjaldi og lóðarleigu á húsnæði í öllum flokkum breytast ekki milli ára.

-
Aukavatnsgjald hækkar úr 13,5 kr. pr. m3 og verður 14,- kr. pr. m3.

Miklar breytingar hafa orðið á sorpmálum að undanförnu og ljóst að raunkostnaður vegna málaflokksins mun hækka umtalsvert á næstu árum. Því er bæjarstjórn nauðugur einn kostur að hækka gjöld vegna sorphirðu og úrgangsmeðhöndlunar verulega eða um 16,6% á milli ára. Íbúðaeigendur í Hveragerði munu því greiða kr 42.000,- pr íbúðaeiningu á næsta ári fyrir þessa þjónustu. Þrátt fyrir þessa hækkun greiða Hvergerðingar samt umtalsvert minna en flestir aðrir fyrir þessa þjónustu og munar þar jafnvel tugum prósentna. Þá stöðu má án vafa þakka viðamikilli flokkun og meðvitund íbúa um málaflokkinn.

Bæjarstjórn hefur undanfarin ár miðað hækkun gjaldskráa við verðlagsþróun síðastliðins árs en ekki við verðbólguspá komandi árs. Með þessu móti telur bæjarstjórn sig vinna með rauntölur sem hlýtur að vera eðlilegra en að hækka gjaldskrár á undan verðbólgunni en slíkt eykur verðbólguþrýsting. Verðlagsþróun síðastliðna 12 mánuði er um 4,5% og því hækka flest þjónustugjöld í samræmi við það.

Viðhald og fjárfestingar
Sú mikla fjölgun íbúa sem er staðreynd í bæjarfélaginu kallar á uppbyggingu af ýmsum toga.
Því er gert ráð fyrir að fjárfestingar muni nema 746,5 m.kr. á árinu 2022. Á móti koma tekjur af gatnagerðargjöldum, 422 m.kr og hlutur Ölfusinga í viðhaldi og nýframkvæmdum skólamannvirka er nemur 21,2 mkr. Nettó fjárfesting ársins 2022 nemur því 303 m.kr..

Þrátt fyrir að viðbygging hafi verið vígð við grunnskólann á árinu 2021 og lausar kennslustofur settar upp við Leikskólann Óskaland þá er ljóst að áfram þarf að halda við uppbyggingu skólastofnana. Því eru fjármunir settir til hönnunar á bæði nýjum leikskóla og á viðbyggingum við grunnskólann. Jafnframt er á árinu gert ráð fyrir viðbyggingu við Leikskólann Óskaland sem bæta mun aðstöðu starfsmanna og sérkennslu við leikskólann til framtíðar. Með þessum framkvæmdum er kröfum ört vaxandi sveitarfélags mætt. Allt er þetta liður í því að þörfum íbúa sé mætt bæði í dag sem og til framtíðar og að þannig sé hlúð að lífsgæðum og velferð þeirra.

Stærstu fjárfestingar ársins 2022 felast í gatnagerð en lokið verður við framkvæmdir í Dalahrauni. Gert er ráð fyrir að ljúka gatnagerð við Friðarstaði og Álfafell svo úthluta megi þar lóðum á fyrri hluta ársins. Sama er fyrirhugað varðandi Öxnalæk og Vorsabæ þar sem þá verður úthlutað þeim lóðum þar hafa verið skipulagðar. Gerð Hólmabrúnar, Sunnumarkar og tenging Þelamerkur inn á Sunnumörk er mikil framkvæmd og kostnaðarsöm en nauðsyn eigi Sunnumörkin austur á Selfoss að nýtast eins og ráð er fyrir gert.
Jafnframt verður uppbyggingu haldið áfram í Kambalandi og byrjað á nýjum áfanga íbúðabyggðar undir Hamrinum. Verður þar með hægt að úthluta þar lóðum á árinu 2023.

Á árinu 2022 munu framkvæmdir hefjast við nýtt hjúkrunarheimili við Hverahlíð og tekur Hveragerðisbær þátt í þeirri framkvæmd með 15% framlagi. Með þeirri framkvæmd mun enginn íbúi á hjúkrunarheimilinu Ási framar þurfa að deila herbergi með öðrum og jafnframt bætast við 4 ný rými.

Endurnýjun helmgins allra götuljósa í bæjarfélaginu er einnig fyrirhuguð á árinu 2022 en til stendur að skipta út öllum ljósgjöfum fyrir LED lýsingu. Mun sú aðgerð væntanlega leiða til hagræðingar þegar til lengri tíma er litið.

Gert er ráð fyrir stækkun bílaplans við Árhólma en þar hefur innheimta bílastæðagjalda gengið framar vonum og ekki líkur á öðru en það sama verði upp á teningnum á komandi ári.

Þó nokkrir fjármunir eru settir til viðhalds mannvirkja í eigu bæjarfélagsins en aðrar fjárfestingar Hveragerðisbæjar á árinu 2022 eru smærri.

Rekstrartölur
Við framlagningu fjárhagsáætlunar til fyrri umræðu er gert ráð fyrir að áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 3.718 m.kr. fyrir árið 2022. Þar af eru skatttekjur áætlaðar kr. 2.146 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 588 m.kr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 984 m.kr..

Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 3.400 m.kr..
EBITDA Hveragerðisbæjar er 317 m.kr.. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er jákvæð um 169 milljónir sem er 5,6% af tekjum. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 267 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því neikvæð um 97,7 m.kr..
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur ríkisstjórnin samþykkt að ákvæði í lögum varðandi skuldahlutfall og jafnvægisreglu sé felld út allt til ársins 2025. En þrátt fyrir það gætir bæjarstjórn að því að skuldir bæjarfélagsins fari ekki yfir 150% af tekjum og verður sú raunin á tímabilinu.

Skuldir og skuldbindingar
Afborganir langtímalána verða tæplega 402 m.kr. og tekin ný lán munu nema 470 m.kr. á árinu 2022. Í lok árs 2022 verða skuldir og skuldbindingar samstæðu 5.055 m.kr.. Þar af er lífeyrisskuldbinding sveitarsjóðs 689 m.kr. og skuldbindingar vegna leigugreiðslna 257 m.kr.
Skuldir og skuldbindingar samstæðu Hveragerðisbæjar í lok ársins 2022 munu nema 136% af árstekjum. Skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert myndi skuldahlutfallið batna enn frekar og verða 120,9%. Er skuldastaða sveitarfélagsins því vel undir skuldaþakinu sem lögfest hefur verið í sveitarstjórnarlögum.

Samstarf og samvinna
Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og ber að þakka þann einlæga vilja og jákvæðni sem starfsmenn hafa sýnt við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Ætlast er til að forstöðumenn sýni áfram ýtrustu hagræðingu bæði í innkaupum og í starfsmannahaldi.

Fyrirvari
Greinargerðin er birt með fyrirvara um villur sem í henni kunna að leynast.

Samþykkt að vísa fjárhagsáætlun ársins 2022 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

8.Þriggja ára fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2023-2025, fyrri umræða.

2111053

Eftirtaldir tóku til máls: Friðrik Sigurbjörnsson og Aldís Hafsteinsdóttir.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir forsendum þriggja ára fjárhagsáætlunar fyrir árin 2023-2025 og lagði fram eftirfarandi greinargerð:

Markmið
Unnið var í samræmi við eftirfarandi markmið við gerð þriggja ára áætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árin 2023-2025:
* Vegna fordæmalausrar fjölgunar íbúa og mikillar uppbyggingar íbúðahúsnæðis munu fjárfestingar haldast miklar næstu árin og eru þær helstar á sviði fræðslumála og gatnagerðar, auk þess sem nýtt hjúkrunarheimili mun opna á tímabilinu .
* Skuldahlutfall haldist innan þeirra marka sem gefin eru í lögum þrátt fyrir framkvæmdir á tímabilinu.
* Samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu A/B hluta verði jákvæð á tímabilinu.

Forsendur
Í áætluninni er gert ráð fyrir hóflegri hækkun skatttekna næstu árin:
- Hækkun vísitölu verði 2,5% ár ári á tímabilinu.- Íbúafjölgun verði 4% á ári og íbúar verði ~3.500 í lok árs 2025.
- Tekjur af útsvari hækki um 7% öll árin (3% launavísitala, 4% íbúafjöldi).
- Tekjur af fasteignagjöldum hækki um 6,5% öll árin (2,5% vísitala, 4% fjöldi álagðra fermetra).
- Framlög úr Jöfnunarsjóði hækki um 7% öll árin (3% launavísitala, 4% íbúafjöldi).
- Aðrar tekjur hækki um 2,5% á ári.
- Laun hækki um 3% á ári.
- Annar kostnaður hækki um 2,5% á ári.

Rekstur:
Gert er ráð fyrir viðsnúningi í rekstri eftir þrjú erfið ár af völdum kórónaveirufaraldurs og að hagnaður verði af rekstri bæjarfélagsins árlega héðan í frá.
Lántökur á tímabilinu taka mið af þeim fjárfestingum sem fyrirsjáanlegar eru miðað við núverandi forsendur. Fjölgun íbúa kallar á enn frekari uppbyggingu í þágu barna og gert er ráð fyrir að nýr leikskóli rísi á tímabilinu sem og frekari viðbyggingar við grunnskólann. Íþyngjandi lagasetningar af hendi Alþingis og reglugerðir frá ráðuneytum geta gert bæjarsjóði mikla skráveifu auk þess sem augljóst er að kjarasamningar geta valdið miklum og ófyrirséðum kostnaðarauka eins og dæmin hafa sannað. Því er mikilvægt að haft sé í huga að óvissuþættir og utanaðkomandi aðstæður geta gjörbreytt öllum áætlunum þó hér sé reynt eins og kostur er að sjá fyrir stöðu bæjarsjóðs næstu árin.

Gert er ráð fyrir framlagi Hveragerðisbæjar til uppbyggingar nýs hjúkrunarheimilis en ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að ráðast í þá framkvæmd með það að markmiði að útrýma tvíbýlum á hjúkrunarheimilinu. Samkvæmt tímalínu framkvæmda er gert ráð fyrir að húsnæðið verði tekið í notkun árið 2024. Einnig er gert ráð fyrir umtalsverðri gatnagerð á tímabilinu og að lóðum á nýjum svæðum verði úthlutað. Vegna fjölgunar íbúa mun reynast nauðsynlegt að fara í viðbætur við fráveitumannvirkið og er gert ráð fyrir þeim á tímabilinu auk þess sem að gámasvæðið verði flutt á framtíðarstað við Vorsabæ.

Fjárfestingar:
Helstu fjárfestingar á þessu tímabili munu verða eftirfarandi:

Á árinu 2023 munu fjárfestingar
alls nema: 529.500.000,-
Götur og göngustígar
400.000.000
Gatnagerðartekjur -550.000.000
Stígur meðfram Varmá
10.000.000
Bílaplan við Hamarshöll 35.000.000
Grunnskólinn

200.000.000
Endurgr. Ölfus
-28.000.000
Leikskóli Kambaland
250.000.000
Endurgr. Ölfus
-22.500.000
Nýtt gámasvæði
70.000.000
Framlag v. Hjúkrunarh.
60.000.000
Endurbætur á fráveitu
30.000.000
Vatnsveitan

15.000.000
Framkv. v. Laugaskarð
20.000.000
Bílar og tæki

10.000.000
Aðrar fjárfestingar
30.000.000


Á árinu 2024 munu fjárfestingar alls nema: 627.500.000,-.
Götur og göngustígar
200.000.000
Gatnagerðartekjur -200.000.000
Stígur meðfram Varmá 15.000.000
Bílaplan við Hamarshöll 20.000.000
Grunnskólinn

250.000.000
Endurgr. Ölfus
-35.000.000
Leikskóli Kambaland
250.000.000
Endurgr. Ölfus
-22.500.000
Nýtt gámasvæði
30.000.000
Framlag v.hjúkrunarh.
40.000.000
Endurbætur á fráveitu
30.000.000
Vatnsveitan

10.000.000
Framkv. v.Laugaskarð
5.000.000
Bílar og tæki

5.000.000
Aðrar fjárfestingar
30.000.000


Á árinu 2025 munu fjárfestingar alls nema: 529.500.000,-
Götur og göngustígar
400.000.000
Gatnagerðartekjur -550.000.000
Stígur meðfram Varmá
10.000.000
Bílaplan við Hamarsh.
35.000.000
Grunnskólinn

200.000.000
Endurgr. Ölfus

-28.000.000
Leikskóli Kambaland 250.000.000
Endurgr. Ölfus
-22.500.000
Nýtt gámasvæði
70.000.000
Framlag v.hjúkrunarh.
60.000.000
Endurbætur á fráveitu
30.000.000
Vatnsveitan

15.000.000
Framkv. v.Laugaskarð
20.000.000
Bílar og tæki

10.000.000
Aðrar fjárfestingar
30.000.000

Rétt er að ítreka að fjárfestingaáætlun er endurskoðuð við fjárhagsáætlunargerð hvers árs í ljósi þess efnahagslega umhverfis sem ríkir á hverjum tíma.

Skuldir og skuldbindingar
Markmið bæjarstjórnar um að skuldir samstæðu verði undir skuldaþakinu mun standast á tímabilinu og ekki er útlit fyrir að það muni breytast þrátt fyrir nýjar fjárfestingar í samræmi við þriggja ára áætlun. Skuldir samstæðu munu þróast með eftirfarandi hætti að teknu tilliti til þess að skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Í sviga má sjá skuldahlutfallið án þess að heimild skv. fjármálareglum sé nýtt:

2022 107,1% af tekjum (134,3%)
2023 105,2% af tekjum (130,2%)
2024 102,9% af tekjum (126,2%)
2025 99,5% af tekjum (121,3%)

Á árunum 2023-2025 munu afborganir lána nema 1.315 m.kr. en á sama tímabili verða tekin ný langtímalán að upphæð 1.560 m.kr. eins og áður er getið.

Lokaorð:
Það er full ástæða til að vera bjartsýn fyrir hönd Hveragerðisbæjar enda sýnir íbúafjölgun og fjöldi íbúða í byggingu að bæjarfélagið á sér bjarta framtíð. Framundan eru miklar breytingar hvað varðar rekstur sveitarfélagsins í öðru og stærra umhverfi, bæði vegna íbúafjölgunar en einnig vegna uppbyggingar fjölda atvinnutækifæra sem í farvatninu eru. Styrk stjórn er því mikilvæg og að allir geti ávallt treyst því að hagsmunir íbúa verði hafðir að leiðarljósi.
Samþykkt að vísa þriggja ára fjárhagsáætlun 2023-2025 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 17:47.

Getum við bætt efni síðunnar?